Fjárhagsstaða sveitarfélaganna er misjöfn.
Fjárhagsstaða sveitarfélaganna er misjöfn.
Líkur á pólitískum deilum um tillögur nefndarinnar Margt bendir til að harðar pólitískar deilur eigi eftir að verða milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar um tillögur tekjustofnanefndar, en drög að samkomulagi liggja fyrir um málið.

Líkur á pólitískum deilum um tillögur nefndarinnar

Margt bendir til að harðar pólitískar deilur eigi eftir að verða milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar um tillögur tekjustofnanefndar, en drög að samkomulagi liggja fyrir um málið. Tillögurnar gera m.a. ráð fyrir auknum fjármunum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna og félagslega íbúðakerfisins. Ríkið mun einnig greiða fasteignagjöld af húseignum sínum.

Þrýst er á ríkið og sveitarfélögin að koma sér saman um tillögur sem styrkja fjárhag sveitarfélaganna. Kosningar fara fram 23. apríl nk. um sameiningu sveitarfélaga og hafa sveitarstjórnarmenn sagt að forsenda fyrir því að markmið náist um verulega sameiningu sveitarfélaga sé að fyrir liggi raunhæfar tillögur um tekjustofna sveitarfélaganna. Samkomulag hefur tekist um að ríkið setji 2-2,4 milljarða til stuðnings sameiningar sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóðinn. Stjórnendur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem lítið verður um sameiningu í vor, telja hins vegar sumir hverjir að fyrirliggjandi tillögur feli ekki í sér varanlega lausn á fjárhagsvanda sveitarfélaganna.

Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga voru sveitarfélögin rekin með 2,8 milljarða tapi á árinu 2003. Tölur um afkomuna í fyrra liggja ekki fyrir en Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs, segir að sér kæmi á óvart ef staðan hefði batnað milli ára. Hann segir að stjórnendur margra sveitarfélaga hafi kvartað yfir því um áramótin að erfitt væri að koma saman fjárhagsáætlun fyrir þetta ár. Ýmsar ástæður séu fyrir þessu, en ein sé kjarasamningar sem gerðir voru við starfsmenn sveitarfélaganna í lok síðasta árs.

Hafa verður í huga að fjárhagsstaða sveitarfélaganna er misjöfn. Þó að meirihluti sveitarfélaganna eigi í erfiðleikum með að láta enda ná saman eru til sveitarfélög sem standa vel. Skuldugustu sveitarfélögin eru þau þar sem íbúar eru 1.000-10.000, en þar voru skuldir á íbúa að meðaltali 339 þúsund í árslok 2003. Skuldir í sveitarfélögum þar sem íbúar eru 300-1.000 voru 305 þúsund, en skuldir minni og stærri sveitarfélaga voru um og innan við 200 þúsund á íbúa.

Tillögu um fasteignagjöld af virkjunum hafnað

Viðræður ríkisins og sveitarfélaganna um tekjustofnamál hafa staðið í rúmlega eitt ár. Í viðræðunum hefur m.a. verið rætt um hvort rýmka ætti heimildir sveitarfélaganna til að nýta núverandi tekjustofna og hvort þau ættu að fá nýja tekjustofna. Í þeim tillögum sem nú er unnið að er hins vegar ekki farin þessi leið heldur er lagt til að ríkið greiði meiri fjármuni til Jöfnunarsjóðsins og auki framlög til félagslega íbúðarkerfisins. Þá er verið að móta tillögur um að ríkið greiði fasteignagjöld til sveitarfélaganna af húseignum í eigu ríkisins. Þar er átt við skóla, heilsugæslustöðvar, sjúkrahús o.s.frv. Ríkið hefur hins vegar hafnað tillögu um að greiddur yrði fasteignaskattur af stíflumannvirkjum, en sveitarfélög þar sem virkjanir eru staðsettar hafa lagt áherslu á þá tillögu.

Samkomulag er í tekjustofnanefndinni um að ríkið setji 2-2,4 milljarða til stuðnings við sameiningu sveitarfélaga. Ríkið hefur áður sett fjármuni til að greiða fyrir sameiningu, en það er gert í gegnum Jöfnunarsjóðinn eftir ákveðnu kerfi til að jafna skuldastöðu sveitarfélaga og tryggja þeim óbreyttar tekjur úr sjóðnum í tiltekin ár. Hvort þessir fjármunir muni allir skila sér frá ríkinu ræðst af því hvort þær víðtæku tillögur um sameiningu sem liggja fyrir verða samþykktar.

Rúmlega eitt ár er í næstu sveitarstjórnarkosningar. Ekki er ólíklegt að þær tillögur sem nú er verið að leggja lokahönd á eigi eftir að verða hitamál í kosningunum. Stjórnarandstaðan telur að ríkið hafi sýnt óbilgirni í viðræðunum. Stjórnarflokkarnir eru ekki á sama máli og munu án efa halda því fram að ríkið sé að láta sveitarfélögin fá mikla fjármuni.

Togstreitan um þetta mál er ekki bara milli ríkisins og sveitarfélaganna heldur líka milli sveitarfélaganna innbyrðis. Ljóst er að fjármunir til sameiningar sveitarfélaganna koma aðallega í hlut sveitarfélaganna á landsbyggðinni því að lítið verður um sameiningar á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin á landsbyggðinni vilja því mörg hver ljúka viðræðunum frekar en að halda áfram að þrefa við ríkið.

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sem sæti á í tekjustofnanefndinni, er allt annað en ánægður með þær tillögur sem liggja á borðinu og segist ekki koma til með að standa að þeim. Hann segir að afstaða sín til einstakra atriða muni koma fram þegar endanlegar tillögur verða birtar, en hann telur að það skorti verulega á að tillögurnar séu nægilega heilsteyptar. Þær endurspegli miklu frekar skammtímalækningu.

Lúðvík segir að ríkið hafi verið búið að lofa um tveimur milljörðum króna til sameiningar sveitarfélaga. Þeir fjármunir hafi átt að fara í að tryggja að sveitarfélögin héldu óskertum tekjum sínum í nokkur ár eftir sameiningu. Engin svör hafi hins vegar fengist við því hvað eigi að taka við þegar því tímabili ljúki.

egol@mbl.is