Steinn Logi Björnsson
Steinn Logi Björnsson
STEINN Logi Björnsson hefur verið ráðinn forstjóri Húsasmiðjunnar. Hann tekur við starfinu hinn 11. mars næstkomandi af Árna Haukssyni, sem hefur verið forstjóri Húsasmiðjunnar síðastliðin þrjú ár.

STEINN Logi Björnsson hefur verið ráðinn forstjóri Húsasmiðjunnar. Hann tekur við starfinu hinn 11. mars næstkomandi af Árna Haukssyni, sem hefur verið forstjóri Húsasmiðjunnar síðastliðin þrjú ár. Steinn Logi er núverandi framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Icelandair og stjórnarformaður Loftleiða Icelandic.

Félag í eigu Hannesar Smárasonar, stjórnarformanns Flugleiða, keypti 18,3% hlut í Eignarhaldsfélagi Húsasmiðjunnar í síðasta mánuði, en Húsasmiðjan er að fullu í eigu Eignarhaldsfélagsins.

Hlakkar til samkeppninnar

Í tilkynningu frá Húsasmiðjunni er haft eftir Steini Loga að honum lítist mjög vel á að ganga til liðs við Húsasmiðjuna. "Ég hlakka líka til að taka þátt í þeirri samkeppni sem þegar ríkir og er framundan. Slíkt heldur öllum á tánum og vel vakandi. Út úr slíku umhverfi spretta bestu lausnirnar," segir Steinn Logi m.a.

Í tvo áratugi hjá Flugleiðum

Steinn Logi er 45 ára gamall og hefur starfað hjá Flugleiðum og Icelandair í tæp tuttugu ár. Hann hefur gegnt núverandi starfi sem framkvæmdastjóri hjá félaginu síðan 1996.

Hann er með BA-gráðu í hagfræði frá Drew University í New Jersey í Bandaríkjunum og MBA-gráðu frá Columbia University Business School í New York. Hann er kvæntur Önnu H. Pétursdóttur og eiga þau þrjú börn.