Mark Webber hafði hafnarbrúna í Sydney út af fyrir sig er hann ók um hana í kynningarskyni fyrir ástralska kappaksturinn.
Mark Webber hafði hafnarbrúna í Sydney út af fyrir sig er hann ók um hana í kynningarskyni fyrir ástralska kappaksturinn. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MARK Webber hefur nánast gefið upp alla von um sigur í Ástralíukappakstrinum, upphafsmóti vertíðarinnar um komandi helgi, þrátt fyrir gríðarlegar væntingar í heimalandi hans og mikla umfjöllun um möguleika hans á sigri eftir að hann fór frá Jagúar til...

MARK Webber hefur nánast gefið upp alla von um sigur í Ástralíukappakstrinum, upphafsmóti vertíðarinnar um komandi helgi, þrátt fyrir gríðarlegar væntingar í heimalandi hans og mikla umfjöllun um möguleika hans á sigri eftir að hann fór frá Jagúar til Williams.

Að fá tækifæri til að kljást um sigur í heimakappakstri sínum hefur verið draumur Webbers lengi. Vænti hann þess að sú staða væri komin upp með ráðningunni til Williams eftir eitt ár hjá Minardi og tvö hjá Jagúar. En vegna straumfræðilegra galla í yfirbyggingu Williamsbílsins telur hann möguleika sína litla. Það sagði hann fréttamönnum í Melbourne á sunnudag eftir að hafa ekið Williamsbíl fram og aftur um hafnarbrúna í Sydney - herðatréð eins og heimamenn kalla hana - sl. sunnudag.

Tæknimenn Williams hafa unnið sólarhringum saman undanfarnar vikur að því að slípa gallana af bílnum svo hann kæmist hraðar. Þeir játa að tíminn sé hlaupinn frá þeim til að slá í gegn í Melbourne. Ástæða gallans er rakin til rangra útreikinga á mælingum í tilraunum í vindgöngum Williams í verksmiðjum liðsins.

"Okkur er ljóst að vandi okkar er mikill og að við munum ekki vera í fremstu röð frá fyrsta móti," segir tæknistjórinn Sam Michael, sem einnig er Ástrali, við sýningaraksturinn í Sydney sem sjónvarpað var um heim allan í auglýsinaskyni fyrir kappaksturinn í Melbourne. "Vertíðin er löng - 19 mót - og við verðum sáttir þótt við vinnum bara nokkur stig hér."

Webber fangaði athygli stóru liðanna er hann ók Minardibíl sínum til fimmta sætis í Melbourne í jómfrúarkeppni sinni í Formúlu-1 fyrir þremur árum. Hann gat ekki leynt vonbrigðum sínum með stöðu mála. "Við erum ekki ánægðir. Ég er keppnismaður og þoli ekki að verða undir. Og það er enn meira svekkjandi þegar það á sér stað í Ástralíu og við getum við engan sakast nema okkur sjálfa. Staða okkar hefði getað verið önnur og miklu betri og við höfum engar afsakanir," sagði hann eftir aksturinn í Sydney.

Þrátt fyrir svekkelsið segir Webber að ekki sé allt svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott. Þannig sé bíllinn endingarbetri en forverinn frá í fyrra. Og hann kveðst ánægður að vera í herbúðum Williams. "Ég er búinn að vera í ýmiss konar liðum og Williams er lið af þeirri gerð sem ég hef lengi viljað komast í. Það er í mótlætinu sem Williams sýnir styrkleika og starfar sem úrvalssveit og það vita keppinautar okkar.

Bíllinn okkar er tvímælalaust endingarbetri en bílar annarra liða. Það er uppörvandi þótt það sé fyrst og fremst meiri kraftur sem maður vill fá. Ég vildi frekar vera á tæpum bíl og hraðskreiðum en skotheldum hægari bíl," segir Webber. Hann er þeirrar skoðunar eftir tilraunaakstur á spænskum brautum undanfarna mánuði að Renault og McLaren verði liðin sem láti að sér kveða í ár þótt Ferrari verði áfram sigurstranglegir með Michael Schumacher undir stýri.

Ferraribíllinn hefur virst hæggengari við tilraunaakstur en bílar annarra liða en Webber segir að menn leggi ekki mikið útaf því. "Renault-bíllinn virðist viðkvæmur en afar hraðskreiður. Svo virðist sem McLaren hafi gert góða hluti með sínum bíl og svo er ekki hægt að vanmeta Michael," segir Webber. "Michaels bíður hörkupúl. Við vitum hversu kappsfullur fagmaður hann er. Hann er goðsögn og það er undir okkur hinum ökuþórunum komið að gera honum lífið eins leitt og hugsast getur," sagði Webber sem af mörgum fræðingum hefur verið talinn líklegur eftirmaður hans sem heimsmeistari ökuþóra í Formúlu-1.