Of dýrt var fyrir Williams að halda í Ralf Schumacher og Juan Pablo Montoya sem hér ræðir við nýja aðstoðarmenn sína.
Of dýrt var fyrir Williams að halda í Ralf Schumacher og Juan Pablo Montoya sem hér ræðir við nýja aðstoðarmenn sína. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
WILLIAMSLIÐIÐ hafði ekki efni á því að halda í ökuþórana Ralf Schumacher og Juan Pablo Montoya í ár hefðu þeir viljað vera um kyrrt, að sögn Patrick Head, annars aðaleiganda liðsins. Ástæðan er sparnaður hjá mótorsmiðju BMW.

WILLIAMSLIÐIÐ hafði ekki efni á því að halda í ökuþórana Ralf Schumacher og Juan Pablo Montoya í ár hefðu þeir viljað vera um kyrrt, að sögn Patrick Head, annars aðaleiganda liðsins. Ástæðan er sparnaður hjá mótorsmiðju BMW.

Head ljóstrar því upp að liðið fái mun minni greiðslur frá BMW í framhaldi af endurnýjuðum samningi til fimm ára við þýska bílaframleiðandann sem sér liðinu fyrir mótorum í keppnisbílana út árið 2009.

"Í sannleika sagt höfðum við ekki lengur efni á þessum ökuþórum tveimur," segir Head. Ralf fór á vit Toyota og Montoya til McLaren. Gefur Head til kynna að McLaren geti ekki réttlætt ráðninguna á Montoya miðað við styrktarfé sem liðið fær. "Þar er um að ræða afar mikla peninga," segir hann um kaup ökuþóranna tveggja.

Head vísar á bug gagnrýni þess efnis að stórlið Williams tefli fram veiku ökuþórapari í ár í þeim Mark Webber og Nick Heidfeld. "Þeirri skoðun deili ég ekki, " segir hann.

Hvorugur hinna nýju ökuþóra Williams hefur unnið mót. Hæst hefur Heidfeld komist í þriðja sæti og Webber í fimmta sæti í kappakstri. Þeim árangri náði hann í jómfrúarkeppni sinni fyrir þremur árum á Minardibíl.

Head segir að líklega hafi verið kominn tími til að breyta um ökuþóra. Ralf hafi verið búinn að vera hjá liðinu í sex ár og Montoya í fjögur og uppskeran á þeim tíma ekki verið sú sem bæði liðið og ökuþórarnir væntu.

Þotu og þyrlu breytt í vindgöng

Williams varð í fjórða sæti í stigakeppni liða í fyrra og vann liðið aðeins einn mótssigur. Hefur það fjárfest gríðarlega í nýjum vindgöngum og hafa t.a.m. liðsstjórarnir Head og Frank Williams tekið á sig mikla kjaraskerðingu til að liðka fyrir því.

Sir Frank seldi einkaþotu sína og lét féð renna til liðsins og Head ferðast nú milli heimili síns í London og bækistöðva liðsins með lest og á skellinöðru í stað þyrlu áður. "Það má til sanns vegar færa að þota og þyrla hafi umbreyst í vindgöng," segir Head.