Skipafélagið Samskip hf. hefur keypt hollenska flutningafyrirtækið Geest North Sea Line. Þetta var tilkynnt í gær bæði á Íslandi og í Hollandi.

Skipafélagið Samskip hf. hefur keypt hollenska flutningafyrirtækið Geest North Sea Line. Þetta var tilkynnt í gær bæði á Íslandi og í Hollandi. Eins og fram kemur í frétt um kaupin í Morgunblaðinu í dag liggur nærri að velta Samskipa tvöfaldist milli ára og verði nálægt 45 milljörðum króna í ár en kaupverðið er trúnaðarmál. Til samanburðar má nefna að velta Eimskips í fyrra var um 26 milljarðar króna. Eftir kaupin eru Samskip orðin þriðja stærsta gámaflutningafyrirtækið með vöruflutninga til og frá höfninni í Rotterdam, stærstu vöruflutningahöfn Evrópu og eitt stærsta gámaflutningafélag í siglingum innan Evrópu.

Samband íslenskra samvinnufélaga stofnaði Samskip árið 1990 upp úr skipafélagi Sambandsins, sem þá hafði verið í millilandaflutningum í hálfa öld. Landsbankinn eignaðist 85% í Samskipum vegna skuldauppgjörs Sambandsins, en seldi árið 1994 nokkrum kaupendum. Í rekstri Samskipa hefur verið lögð mikil áhersla á að efla starfsemina erlendis og hefur drjúgur hluti veltu fyrirtækisins verið vegna flutninga milli hafna erlendis. Erlenda starfsemin tók mikinn kipp þegar samstarf hófst við þýska skipafélagið Bischof Group, sem Samskip síðan keyptu árið 1998. Velta fyrirtækisins jókst verulega við þetta og var aukningin næstu árin á eftir að meðaltali 22%.

Á blaðamannafundi þar sem tilkynnt var um kaupin á Geest í gær kom fram að eftir þau séu Samskip með 24 skip í föstum áætlunarsiglingum og 15 skip í öðrum verkefnum, þ. á m. frystiflutningum, auk fjölda leiguskipa í tímabundnum verkefnum. Gámaeign Samskipa ríflega tvöfaldist og verði heildarflutningar félagsins um 800 þúsund gámaeiningar á ári. Starfsmönnum fjölgi um fimmtung og þeir verði hátt í 1200 talsins, þar af um 500 erlendis. Skrifstofum félagsins fjölgar um 12 og verða 45 talsins í 19 löndum, auk þess sem umboðsmenn séu starfandi um allan heim.

Staða flutninga milli Íslands og nágrannalandanna er traust um þessar mundir. Það er liðin tíð að eitt skipafélag ráði nánast öllum sjóflutningum til og frá landinu. Milli Eimskipafélagsins og Samskipa ríkir samkeppni þar sem tekist er á um viðskiptavini og í þeim efnum má ekki gleyma þriðja skipafélaginu, Atlantsskipum. Heilbrigð samkeppni í sjóflutningum er mjög mikilvæg í landi, sem þarf að flytja inn margar nauðsynjar.

Það er ánægjulegt að fylgjast með íslenskum fyrirtækjum hasla sér völl á erlendum vettvangi. Samskip hafa nýtt sér tækifæri bæði á Íslandi og í útlöndum og er óhætt að segja að þar hafi erlendi þátturinn vegið mun þyngra. Í raun hefur útrásin eflt starfsemi fyrirtækisins hér á landi. Vöxtur Samskipa hefur verið hraður og augljóst að félagið styrkir stöðu sína með kaupunum á hollenska skipafélaginu.