Margir af eldri kynslóð flugmanna voru á stofnfundinum á Hótel Loftleiðum, menn sem flugu þristinum á árum áður.
Margir af eldri kynslóð flugmanna voru á stofnfundinum á Hótel Loftleiðum, menn sem flugu þristinum á árum áður. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
STOFNFUNDUR nýs félags sem hefur það að markmiði að reka og viðhalda DC-3 flugvél Landgræðslunnar, Páli Sveinssyni, var haldinn í gær, og fékk félagið nafnið DC-3 þristavinir.

STOFNFUNDUR nýs félags sem hefur það að markmiði að reka og viðhalda DC-3 flugvél Landgræðslunnar, Páli Sveinssyni, var haldinn í gær, og fékk félagið nafnið DC-3 þristavinir.

"Það hefur dregið úr áburðarfluginu ár frá ári og legið í loftinu að Landgræðslan þyrfti ekki að nota vélina eins mikið og hún hefur gert. Þá fóru í gang vangaveltur um það hvað yrði um vélina, hvað ætti að gera við hana, hvort hún myndi grotna niður eða fljúga áfram," segir Tómas Dagur Helgason, sem var kjörinn formaður hins nýstofnaða félags.

Þegar ljóst varð að notkun á vélinni færi að minnka varð til hópur sem hafði áhuga á því að vélinni yrði haldið við og flogið, og segir Tómas að svona hópar þristavina séu til víða um heim. Hann hefur heimsótt slíka hópa á Norðurlöndunum undanfarin ár og kynnt sér starfsemi þeirra, en þeir eiga allir DC-3 flugvélar, viðhalda þeim og fljúga.

Taka ástfóstri við vélina

Tómas segir ótalmargt sem geri það að verkum að "þristurinn" sé svona vinsæl flugvélategund. "Það er hönnunin á henni, það er hvernig hún flýgur, og hljóðið í henni er alveg frábært. Sem flugáhugamanni finnst mér allt sérstakt við þessa vél, hún er falleg og hefur mikinn "karakter". Þetta hljómar kannski væmið, en það er erfitt fyrir okkur flugmennina að skýra af hverju við tökum svona ástfóstri við þessa vél."

Tómas segir vissulega kostnað við að halda vélinni við, en vonast til þess að almenningur og fyrirtæki taki þátt í kostnaðinum, enda séu margir víða um land sem hafi taugar til vélarinnar. Einnig mun félagið hafa samstarf við önnur félög á Norðurlöndunum, og segir Tómas að félögin geti m.a. hjálpað hvert öðru um að verða sér úti um varahluti.

Enn er ekki of seint að gerast stofnfélagi, og geta áhugasamir sent tölvupóst á netfangið dc3@land.is.