Björn Þórarinn Þórðarson læknir fæddist í Hvítanesi í Skilamannahreppi í Borgarfjarðarsýslu 22. febrúar 1925. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 25. febrúar síðastliðinn. Björn var sonur Þórðar Guðnasonar, bónda í Hvítanesi, f. 8. nóvember 1897, d. 5. maí 1975, og konu hans Guðmundínu Þórunnar Jónsdóttur, húsfreyju í Hvítanesi, f. 10. mars 1899, d. 13. mars 1973. Systkini Björns eru Guðni, f. 24. maí 1923, Sturlaugur, f. 5. ágúst 1928, og Eva, f. 29. ágúst 1933, og eru þau öll á lífi.

Björn kvæntist 22. febrúar 1950, Lilju Ólafsdóttur, f. í Reykjavík 22. ágúst 1926, d. 11. desember 2004. Foreldrar hennar voru hjónin Sigríður Jónína Tómasdóttir frá Skammadal í Mýrdal, f. 12. júlí 1894, d. 7. mars 1982, og Ólafur Bjarnason frá Hörgsdal á Síðu, f. 19. apríl 1889, d. 17. júní 1968. Börn Björns og Lilju eru: 1) Þórunn Bára, f. 24. maí 1950, gift Pálma V. Jónssyni, f. 14. október 1952. Börn þeirra eru: Lilja Þyrí Björnsdóttir, f. 18. desember 1970, Jón Viðar Pálmason, f. 27. september 1979, Vala Kolbrún Pálmadóttir, f. 5. febrúar 1982, og Björn Pálmi Pálmason, f. 7. febrúar 1988. 2) Sigurður Hafsteinn, f. 15. september 1953, kvæntur Þórunni Ólafsdóttur, f. 14. mars 1954. Börn þeirra eru: Snorri Páll Sigurðsson, f. 13. nóvember 1979, og Hólmfríður Björk Sigurðardóttir, f. 6. október 1985. 3) Bryndís Anna, f. 31. desember 1956, gift Darrel Bender, f. 27. mars 1947 (skilin). Sonur þeirra er Björn Kafka Bender, f. 28. ágúst 1978. Dóttir Björns og Evu Lindar Eyþórsdóttur, f. 15. desember 1980, er Snædís Birta, f. 2. ágúst 2001. Dóttir Björns og Arnfríðar Rutar Jónasdóttur, f. 9. desember 1985, er Jóna Katrín, f. 15. júní 2003. 4) Edda, f. 23. febrúar 1959, gift Jakobi Þór Péturssyni, f. 5. maí 1956. Börn þeirra eru: Björn Jakobsson, f. 3. september 1978, kvæntur Valdísi Sigurgeirsdóttir, f. 11. júní 1973, börn þeirra eru Edda Berglind, f. 25. apríl 2002, og tvíburar, f. 14. janúar 2005, Hanna Birna og Bjarki Viðar; Ragnheiður Karen Jakobsdóttir, f. 20. ágúst 1981, og Pétur Þór Jakobsson, f. 22. janúar 1991. 5) Páll, f. 16. júlí 1963, kvæntur Lilju Jónasdóttur, f. 2. ágúst 1963. Börn þeirra eru: Aðalsteinn Pálsson, f. 11. júlí 1990, Jónas Björn Pálsson, f. 15. mars 1994, Tómas Páll Pálsson, f. 12. ágúst 1999, og Eiríkur Pálsson, f. 9. desember 2002.

Björn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1946 og lauk prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1954. Björn varð sérfræðingur í háls-, nef- og eyrnalækningum á Íslandi 1959. Eftir læknapróf var Björn eitt ár héraðslæknir í Höfðahéraði. Björn var kandídat í læknisfræði á Roskilde Amts og Bys Sygehus og Ringsted sygehus í Danmörku á árunum 1955-6. Síðan lá leiðin til Svíþjóðar, þar sem Björn var við framhaldsnám í háls-, nef- og eyrnalækningum til 1960, á Avesta lasarett, Norrköping lasarett, á sjúkrahúsunum í Kristianstad og Sundsvall og háskólasjúkrahúsinu í Lundi. Björn starfaði sem sérfræðingur í háls-, nef- og eyrnalækningum á eigin stofu í Reykjavík og Hafnarfirði frá nóvember 1959 til desember 1995. Þá var hann starfandi sérfræðingur við St. Jósefsspítala í Hafnarfirði frá 1962 til janúar 1996. Björn sat um árabil í Ekknasjóði lækna. Björn var mikill safnari og safnaði mynt, frímerkjum og bókum. Björn og Lilja stunduðu hestamennsku á tímabili og ferðuðust vítt um heiminn. Björn lifði og hrærðist í myndlist og stundaði hana sjálfur af kappi frá miðjum aldri. Hann hélt eina sýningu á verkum sínum og tók þátt í samsýningum. Naut Björn leiðsagnar m.a. Hafsteins Austmanns og Einars G. Baldvinssonar.

Björn verður jarðsunginn frá Neskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Björn, tengdafaðir minn, var aldurslaus. Hugurinn var leiftrandi virkur og það var svo margt sem fangaði hann. Nærvera hans var sterk og hlý. Þess vegna var auðvelt að láta blekkjast, líta fram hjá staðreyndum um líf og dauða, haga sér eins og lífið væri óendanlegt og gera áætlanir um framtíðina með honum. Ekki lengur. Björn sjálfur vissi sennilega betur. Lengstu vaktinni í lífi hans lauk við andlát Lilju, ástarinnar í lífi hans, fyrir aðeins sjötíu og sex dögum. Sprakk hjartað úr harmi?

Mér barst andlátsfréttin til Hróarskeldu, þangað sem Björn og Lilja höfðu flutt æskuglöð réttum fimmtíu árum áður. Björn hafði brotist til mennta með einbeittum vilja en litlum efnum. Það var gott að íhuga lífið og tilveruna í dómkirkjunni í Hróarskeldu. Mannsævin er eins og öreind í eilífðinni, sandkorn á strönd. Lífið er óskiljanlegt, stórkostlegt og dýrmætt. Ég sakna Björns eftir aldarþriðjungs kynni. Björn var lifandi og skemmtilegur, samt dulur og tjáði tilfinningar sínar fremur í verki en orði. Hann var bæði læknir og listamaður.

Læknirinn Björn gekk örugglega til verks og beitti egg og nál af snerpu og lagni. Þegar þannig verkfæri áttu ekki við sýndi Björn samhygð og hlýju, stakk á sálinni og hleypti út áhyggjum og vanlíðan. Björn var traustur vinur og félagi.

Björn var orkubolti. Í honum bjó frumkraftur, sem hann beislaði á miðjum aldri. Þá brutust ólgandi víddir sálarinnar út í myndlistarsköpun. Þar tókust á gleði og sorg, birta og myrkur í mikilli litadýrð. Myndirnar og minningarnar eru fjársjóður.

Björn varð áttræður en aldrei gamall. Hann var eins og slípaður demantur með glitrandi litbrigði. Okkur þótti óskaplega vænt um hann. Björn er ekki lengur vængbrotinn. Nú leiðast Björn og Lilja, hönd í hönd, inn í eilífðina. Guði sé lof og þökk fyrir Björn og Lilju.

Pálmi V. Jónsson.

Tengdafaðir minn fagnaði áttræðisafmæli sínu í febrúar. Það sópaði að honum á þessum tímamótum, enda naut hann þess að hafa skýran hug og ágæta heilsu allt að leiðarlokum. En enginn má sköpum renna.

Mér bárust sorgartíðindin til útlanda. Þegar maður er einn á ferð kalla slík tíðindi sennilega á enn sterkara minningaflóð en ella. Við áttum saman margar góðar samverustundir. Lilja Ólafsdóttir, eiginkona Björns, lést í desember eftir nokkra vanheilsu. Líf Björns hin síðari ár gekk út á að hjúkra Lilju og vera henni stoð og stytta. Hann stóð sig með eindæmum vel í þessu hlutverki. Þau Lilja voru samrýnd hjón og hjörtun slógu í takt, Viðskilnaðurinn varð ekki langur.

Tengdafaðir minn var gæddur ríkri samúð og studdi ævinlega lítilmagnann. Hann var skarpgreindur og víðsýnn og kunni skil á hvers konar málum. Björn nam læknisfræði og stundaði framhaldsnám í Danmörku og Svíþjóð. Sérsvið hans var háls-, nef- og eyrnalækningar, sem hann sinnti af ástríðu framyfir sjötugsaldur. Hann var góður og farsæll læknir, en að auki mikill málamaður, heimspekingur og listunnandi. Það er til marks um fróðleiksfýsn tengdaföður míns að það varð fljótt siður okkar Eddu að lána honum strax á jólum bækurnar sem við fengum í jólagjöf. Þetta voru oft tvær til fjórar bækur, stundum fleiri. Fjölskyldan gantaðist oft með það hvenær hann myndi skila þeim; það var nærri undantekningarlaust 2 dögum síðar. Björn var líka mikill áhugamaður um ættfræði. Þegar fjölskyldan mín bauð til veislu vissi hann nánast undantekningarlaust um ættir vina okkar hjóna langt aftur í aldir. Hann spurði gjarnan um vini okkar eða barna okkar og var stálminnugur á svörin.

Björn hafði ævinlega nóg að gera í frístundum. Hann var mikill safnari, safnaði frímerkjum og myntum. Hann hafði líka miklar mætur á málverkum, málaði líka mikið sjálfur í ein 15 ár og hélt einkasýningu. Ástríða hans og smekkur í listum varð áhrifavaldur og gæfa í lífi fjölskyldunnar. Verk hans á heimili okkar, barna okkar og afkomenda halda uppi merki Björns og minningu. Tengdafaðir minn var líka hestamaður og hafði mjög gaman af alls kyns ferðalögum. Þau Lilja ferðuðust mikið til framandi landa á meðan heilsa hennar leyfði. Á ferðalögum var Björn ævinlega á heimavelli og kunni skil á flestu sem fyrir augu bar. Björn frumburður okkar Eddu heitir eftir afa sínum og eignaðist tvíbura nú í janúar með konu sinni Valdísi Sigurgeirsdóttur. Í augum barnanna speglast sú guðsgjöf að hafa heilsu og eiga góða að, og vissulega það að lífið heldur áfram, en lífið gefur og lífið tekur.

Björn tengdafaðir minn kveður sáttur við menn og málefni. Nú eru þau Lilja saman á ný. Við sem eftir stöndum drúpum höfði og þökkum fyrir góða samveru.

Kæri vinur. Góða ferð og megi Guð blessa þig á hinum eilífu lendum. Takk fyrir allt og allt.

Jakob Þór Pétursson.

Björn Þ. Þórðarson, tengdafaðir minn, varð áttræður 22. febrúar síðastliðinn. Var honum haldin veisla af því tilefni. Í þeirri veislu ríkti gleði, hlýja og væntumþykja sem einkenndi Björn. Björn leit vel út og naut hann þess að vera innan um fjölskyldu sína. Þrátt fyrir að Björn væri orðinn áttræður var hann ekki gamall maður í neinum skilningi þess orðs og kom því fréttin um andlát hans eins og þruma úr heiðskíru lofti. Björn fór allra sinna ferða, keyrði bíl, sá um heimili fyrir sig, umgekkst vini og fjölskyldu. Hann var reyndar veill fyrir hjarta en hafði einhvern veginn þannig fas og framkomu að það hvarflaði ekki að nokkrum manni annað en að hann ætti mörg ár eftir ólifuð. Eiginkona Björns, Lilja Ólafsdóttir, tengdamóðir mín, andaðist 11. desember sl. eftir langvarandi veikindi og hafði Björn annast hana af einstakri virðingu og natni frá því hún veiktist. Saknaði Björn hennar mikið.

Björn var einstakur maður. Hann var litríkur ef svo má að orði komast. Hann hafði áhuga á öllu umhverfi sínu og það var hægt að tala við hann um allt milli himins og jarðar. Hann var sérstaklega fróður og skemmtilegur og hafði mikla kímnigáfu. Björn hafði skilning og næmi á líðan fólks og var hann ávallt áhugasamur um líðan allra sinna nánustu og vina þeirra. Mér fannst oft sem hann gæti lesið hugsanir fólks, sérstaklega þegar einhver átti um sárt að binda. Björn var í rauninni mikill mannvinur og tók hann að sér, klæddi og fæddi ýmsa sem ekki áttu í önnur hús að vernda. Björn hafði einnig ótrúlegt minni. Myndlist átti ávallt stóran sess í lífi Björns og voru margir af hans bestu vinum myndlistarmenn. Hann málaði sjálfur til margra ára við góðan orðstír. Björn var áberandi vel lesinn maður. Hann hafði gaman af fólki, ættfræði og stjórnmálum og var auðvelt að gleyma tímanum í samtölum við hann, hann kunni að hlusta. Björn var ekki einungis mannvinur, hann var einnig mikill dýravinur og virtist hann skilja hugarheim dýranna og ná við þau sérstökum tengslum. Allir þessir þættir gerðu hann að einstökum félaga barna/tengdabarna og barnabarna sinna, hvers um sig.

Björn starfaði alla tíð sem háls-, nef- og eyrnalæknir og sem slíkur veit ég að hann naut mikillar virðingar bæði samstarfsfélaga og sjúklinga. Hann var einstaklega bóngóður og eru þau óteljandi skiptin sem ég hringdi í hann eða fór til hans með einhvern af fjórum strákunum okkar Palla. Hann hafði alltaf svör á reiðum höndum og var tilbúinn til þess að aðstoða hvort heldur var að nóttu eða degi. Í þau ófáu skipti sem einhver þeirra veiktist fylgdist hann með af mikilli árvekni allt þar til viðkomandi hafði náð fullum bata.

Björn kom öðru hverju í mat til okkar Palla og var þá ávallt mjög gaman þótt hann sæti aldrei mjög lengi. Hann tefldi og spjallaði við strákana, strauk hundinum, naut matarins og áttum við alltaf innihaldsrík samtöl, sem létu mér líða vel og þurfti aldrei að hafa fyrir þeim samskiptum. Hann hafði áhuga á öllu því sem við vorum að gera. Hann tók öllum eins og þeir eru, með virðingu, án þess að dæma eða reyna að breyta viðkomandi eða skoðunum hans. Í hans huga voru allir jafnir, menn og málleysingjar. Hann hafði skoðanir á mönnum og málefnum en ég man ekki til þess að hann hafi farið niðrandi orðum um nokkra manneskju.

Maður eins og Björn fer ekki í gegnum lífið án þess að skilja eftir sig stórt tómarúm, sem enginn getur fyllt og mun því minningin um hann lifa. Hans er sárt saknað af okkur öllum. Blessuð sé minning hans.

Lilja Jónasdóttir.

Elskulegur tengdafaðir minn Björn Þ. Þórðarson varð bráðkvaddur á heimili sínu föstudaginn 25.2. sl. þremur dögum eftir 80 ára afmæli sitt. Það er skammt þungra högga á milli, því 11. desember sl. lést tengdamóðir mín Lilja Ólafsdóttir eftir erfið veikindi. Björn hafði sinnt Lilju síðastliðin 12 ár af einstakri umhyggju og ósérhlífni.

Ég var aðeins 17 ára þegar ég kynntist Birni fyrst og bar ég ótakmarkaða virðingu fyrir þessum myndarlega, gráhærða lækni sem var í forsæti fjölskyldunnar í Sörlaskjóli 78. Við vorum þó ekki alltaf sammála á þessum árum.

Björn var einstakur maður og einstaklega sjarmerandi persónuleiki. Hann var vel að sér í nær öllu sem bar á góma. Listunnandi og listamaður, mikill lestrarhestur og bókaunnandi, frímerkjasafnari, ættfræðingur, tónlistarunnandi og mikill áhugamaður um menn og málefni.

Björn var fær og vel metinn í starfi sem háls-, nef- og eyrnalæknir og starfaði sem slíkur í yfir 30 ár. Hann var fljótur að sjá skoplegu hliðarnar á hlutunum og stutt í húmorinn. Hann var hlýr og umhyggjusamur um sína nánustu og fylgdist vel með heilsufari barna og barnabarna. Það var alltaf hægt að leita til hans varðandi alla hluti, hvort sem um var að ræða veikindi eða annað sem þurfti að leysa.

Þrátt fyrir árin 80 fannst mér Björn aldrei verða gamall í þeim skilningi orðsins. Hann var eldklár, fljótur að hugsa og mjög minnugur og sá um sig og sína. Samband okkar varð nánara eftir því sem árin liðu og fyrir kom að við sátum í Sörlaskjólinu og ræddum landsins gagn og nauðsynjar. Ég hafði einstaklega gaman af því að ræða við hann um menn og málefni þar sem hann lét sig miklu máli skipta hvað um var að vera í samfélaginu. Með árunum óx líka aðdáun mín á þessum manni sem sinnti eiginkonu sinni af slíku ástríki og umhyggju að eftir var tekið og bar hag barna sinna og barnabarna stöðugt fyrir brjósti. Hann var mikil og stór sál og ég og börnin mín eigum eftir að sakna hans óumræðilega mikið.

Kæri vinur, komið er að leiðarlokum og bið ég góðan Guð að varðveita þig og vaka yfir þér og Lilju minni um ókomna tíð. Elsku Þórunn, Siggi, Bidda, Edda og Palli. Guð geymi ykkur öll og veiti styrk í ykkar miklu sorg.

Þórunn Ólafsdóttir.

Elsku afi minn í Sörla.

Maður með stórt hjarta, geislandi og glaðlyndur, prakkari, fullur af fjöri, lífsreyndur og næmur. Hann elsku afi var enginn venjulegur afi. Maður vissi aldrei hverju maður átti von á frá honum næst. Hann stundaði ekki innihaldslítið kurteisishjal. Allt sem hann sagði var fyllt meiningu, misalvarlegt þó, þá fylgdi bros á vör. Stundum ögraði hann viðmælandum með hnyttnum ummælum eða skrýtnum skoðunum. Hann brýndi fyrir manni það sem skiptir máli í lífinu, gjarnan með því að kenna málshætti. Þessi hjartahlýi og lífsreyndi maður þekkti lífið í sínum margvíslegu myndum.

Afi var fjársjóður fróðleiks um sögu heimsins en einnig um samtímann. Hann hafði sérstakan áhuga á öllu sem tengist mannfólkinu og gjörðum þess. Hann virtist geta rakið ættartölu annars hvers Íslendings og yfirleitt sagt skemmtilegar sögur af persónunum. Ég hafði sérstaklega gaman af því að nefna fólk, tilviljunarkennt, sem varð á vegi mínum og biðja afa um áhugaverðar sögur. Kom ég sjaldnast að tómum kofanum.

Afi var góður við þá sem minna máttu sín og áttu í erfiðleikum. Ekki á áberandi hátt, heldur á snjallan hátt sem hentaði aðstæðum og einstaklingum. Hann hafði nefnilega einstakt innsæi og listamannseðli sem maður skynjaði oftar en í myndunum hans.

Kisurnar hans afa voru ofdekraðar. Þeim þótti jafnvænt um hann og honum um þær. Þegar afi fór í göngutúra þá elti Gissi hann alltaf, báðum til gleði. Eftir að afi varð einn pössuðu Gissi, Skotta og Pési vel upp á hann.

Elsku afi minn. Ég veit að nú ertu hjá henni ömmu Lilju sem þú elskaðir heitt og annaðist á einstakan hátt eftir að hún veiktist. Mér finnst fallegt hvað þú varst góður við hana, sýndir raunverulega ást og virðingu. Þú ert fyrirmynd fyrir mig í leik og starfi. Ég veit að þú heldur áfram að senda mér strauma, sérstaklega ef lífið verður mér erfitt. Ég mun alltaf minnast þín og hugsa til þín sem mikillar manneskju, sem ég var svo lánsöm að eiga að, þín

Vala.

Dauðinn er það fyrirbæri í tilverunni, sem allra bíður og enginn fær umflúið. Tómarúmið hjá ættingjum og vinum er eins og endalaus eyðimörk í tilverunni.

Tveimur sólarhringum áður en kallið kom sátum við saman fjölskyldan í glaðværu afmælisboði hjá Eddu dóttur Björns bróður í tilefni af áttræði afmæli hans Hann var þá hress og kátur, og næsti fundur bræðra var ákveðinn innan fárra daga. En "sá sem stýrir stjarna her" spyr ekki um stað eða stund, þegar kallið á að koma.

Við bræðurnir ólumst upp við þær óvenjulegu aðstæður, að við áttum aldrei sameiginlegt heimili undir sama þaki. Hann var alinn upp í faðmi fjölskyldu föður og móður ásamt öðrum bróður og yngri systur, en eg hjá góðri trúaðri og umhyggjusamri ömmu í næsta húsi.

Utandyra áttum við hins vegar margar sameiginlegar stundir við leik og sýslan Á skólaárum, þegar engir voru sjóðir til stuðnings þeim sem vildu nema af bókum, fundum við upp á eigin atvinnurekstri til að efla fjárhaginn. Ræktuðum kartöflur, tókum upp mó til að selja og tókum að okkur að plægja kartöflugarða, sem þá voru heima við flest íbúðarhús á Skipaskaga Við áttum það sem til þurfti, hest og plóg, sem þurrabúðarfólkið á Skaganum vantaði.

Síðan skildu leiðir á vettvangi lífs og athafna. Björn gerðist læknir, en eg gekk á vit svartlistarinnar og gerðist ungur að árum blaðamaður Entist í áratugi við að koma skilaboðum um tilveruna til lands og þjóðar, eða þar til mér varð ljóst, að ég gat ekki læknað þau þjóðfélagsmein sem hugsjónin kallaði á.

Eg sá hins vegar að Björn bróðir minn náði betri árangri við að græða og bæta hin mannlegu mein. Minnisstæður er mér atburður frá héraðslæknis árum hans á Skagaströnd. Eg var á ferð í Húnavatnssýslum til að skrifa um réttir og glaða daga í lífi fólksins og ákvað að gista hjá héraðslækninum. Þegar þangað kom var eldhúsið í læknisbústaðnum tekið til annarra nota en veislufagnaðar. Hurð hafði verið tekin af stöfum og lögð á eldhúsborðið. Þar lá helsærður maður eftir umferðarslys. Hnífar, skæri og saumatæki, ásamt lyfjum og búnaði var þar allt um kring og læknirinn sjálfur með blóðslettur á hvítum klæðnaði við störf sín til bjargar mannslífi, sem reyndar tókst. Það var víst skömmu eftir þessa lífsreynslu að ég missti trúna á að ég gæti bjargað heiminum með því að fylla síður dagblaðsins.

Eg ætla ekki að rekja starfssögu Björns bróður míns. Það munu aðrir gera. Fjölskyldan naut auðvitað lengi og vel lækniskunnáttu hans. Stundum með afdrifaríkum hætti. Þetta kom sér oft vel, áður en mikil gróska og fjölgun lækna varð með tímanum í fjölskyldunni. Nú er svo komið að ekki þarf, út af fyrir sig, að leita út fyrir fjölskylduna hvort sem um er að ræða sérfræðinga læknislista frá vöggu til grafar, og sérgreininga frá lyfjum til saumaskapar í æðum og heilabúum.

Þetta getur komið sér vel nú á tímum kerfisþróunar þegar venjulegt fólk án prívat sambanda þarf stundum að bíða vikum saman eftir því einu að geta náð tali af lækni.

Nú hlaðast minningar upp, þegar við stöndum á þeim vegamótum, sem enginn fær umflúið Við stöndum ráðþrota frammi fyrir spurningunni miklu um landamæri lífs og dauða.

Sumir halda að læknar geti umgengist dauðann sem hversdagslegan hlut, vegna þess að þeir starfa oft í nálægð hans. Eg held og veit að góðir og vel þenkjandi læknar umgangast dauðann af sömu virðingu og spurn, sem við hin.

Í raun og veru eigum við engin svör við neinu þegar dauðinn er annars vegar. Eitt af virtustu dagblöðum veraldar " Christian Sience Monitor" hefir það að keppikefli að birta aldrei neitt sem ekki er örugglega sannleikanum samkvæmt.

Það segir aldrei að neinn sé "dáinn", heldur aðeins að viðkomandi sé horfinn á braut.

Amma mín sáluga las daglega bænir sínar og leitaði leiðsagnar í sálmum og kvæðum séra Hallgríms Péturssonar, sálmaskáldsins okkar í Saurbæ í næstu sveit. Hún lét meira að segja grafa sig með Passíusálma hans á brjóstinu.

Líklega hafa ritstjórar Christian Science Monitor ekki notið leiðsagnar séra Hallgríms. En óneitanlega eru viðhorf stórblaðsins gagnvart dauðanum líkar kenningu séra Hallgríms, þegar Saurbæjarklerkurinn sagði fyrir nærri fjögur hundruð árum

Dauðinn því orkar enn til sanns,

út slokkna hlýtur lífið manns,

holdið leggst í sinn hvíldarstað.

Hans makt nær ekki lengra en það;

sálin af öllu fári frí

flutt verður himna sælu í.

(Hallgrímur Pétursson.)

Guðni Þórðarson.

Fáein orð vil ég setja á blað til að minnast góðs vinar, Björns Þórðarsonar læknis. Trygglyndi hans við mig var ómetanlegt, bæði sem læknis og félaga í listinni. Björn var einlægur áhugamaður um þá myndlist, sem mín kynslóð iðkaði og gerir enn. Hann kunni hins vegar lítt að meta nýlistina svonefndu, sem gjarnan varpar fyrir róða þeim gildum, sem myndlistin hefur byggt á í gegnum aldirnar. Sjálfur málaði Björn talsvert, einkum á efri árum sér til ánægju. Þeir vinirnir Björn og Einar G. Baldvinsson þrömmuðu gjarnan saman á sýningar og nutu oftast vel. Má geta þess að læknirinn reyndist Einari afar vel til síðasta dags. Þótt starf Björns sem læknis væri ærið og fjölskyldan stór lét hann aldrei undir höfuð leggjast að njóta menningar á hvaða sviði sem var. Okkar vinskapur er orðinn gamall. Aldrei fór ég nema ríkari af okkar fundum í Sörlaskjóli og má segja að við áttum kannski hvor öðrum skuld að gjalda í þeim samskiptum. Það lýsir vel hjartalagi Björns hve fallega hann annaðist Lilju konu sína í löngum og erfiðum veikindum hennar. Hún fékk hvíldina fyrir skömmu og sendum við Guðrún, frænka Lilju, okkar innilegustu samúðarkveðjur til barna þeirra hjóna við foreldramissinn.

Hafsteinn Austmann.