HÆSTIRÉTTUR staðfesti í gær 10 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm yfir manni sem var framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Framsýnar á árunum 1970-2000.

HÆSTIRÉTTUR staðfesti í gær 10 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm yfir manni sem var framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Framsýnar á árunum 1970-2000. Var hann sakfelldur fyrir umboðssvik og brot gegn lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með því að hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé sjóðsins í stórfellda hættu.

Að mati Hæstaréttar fór maðurinn út fyrir umboð sitt til fjárfestinga fyrir hönd lífeyrissjóðsins þegar hann keypti skuldabréf fyrir hönd sjóðsins af syni sínum án samþykkis eða vitundar stjórnar lífeyrissjóðsins.

Þá var maðurinn einnig sakfelldur fyrir að hafa fyrir hönd sjóðsins en án vitundar eða samþykkis stjórnarinnar, keypt skuldabréf sem hann sjálfur var útgefandi að. Einnig var hann sakfelldur fyrir að hafa farið út fyrir umboð sitt til fjárfestinga fyrir hönd lífeyrissjóðsins þegar hann veitti fyrir hönd sjóðsins einkahlutafélagi, sem sonur hans var í fyrirsvari fyrir, lán með veði í fasteign sem var langt umfram leyfileg viðmiðunarmörk.

Dráttur á rannsókn

Ákærði lét af störfum sem framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins 1. júlí 2000 en grunur um misferli af hans hálfu vaknaði í árslok. Að lokinni athugun lögmannsins var málið sent Fjármálaeftirlitinu, sem tilkynnti ríkislögreglustjóra um ætlað refsivert brot ákærða með bréfi 10. maí 2002. Ákærði var fyrst yfirheyrður um sakarefnið hjá ríkislögreglustjóra 22. maí 2003.

Líkt og héraðsdómur taldi Hæstiréttur rétt að skilorðsbinda refsinguna og vísaði til þess að dráttur varð í eitt ár á því að lögreglurannsókn hæfist á hendur manninum, sem ekki varð útskýrður.

Mál dæmdu hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason. Sigríður Jósefsdóttir saksóknari sótti málið f.h. ríkissaksóknara en Sveinn Andri Sveinsson hrl. var til varnar.