Frétt Morgunblaðsins sl. mánudag af ráðstefnu um drengjamenningu í skólum hefur vakið talsverða athygli og tímabærar umræður undanfarna daga. Þar kom fram að hvergi væri minnzt á samkynhneigð í aðalnámskrá grunnskóla.

Frétt Morgunblaðsins sl. mánudag af ráðstefnu um drengjamenningu í skólum hefur vakið talsverða athygli og tímabærar umræður undanfarna daga. Þar kom fram að hvergi væri minnzt á samkynhneigð í aðalnámskrá grunnskóla. Haft var eftir Söru Dögg Jónsdóttur, fræðslufulltrúa Samtakanna '78 og grunnskólakennara, að þetta hefði í för með sér að umræða um samkynhneigð í skólanum væri í lausu lofti. Alvarlegast væri að ekki væri talað um þá homma og lesbíur sem væru í skólunum. "Það er í lagi að tala um samkynhneigð og að samkynhneigðir séu til ... en innan grunnskólanna er enginn svona, þeir eru ekki þarna... Hvorki kennarar, skólastjórar né námsráðgjafar eru í stakk búnir til að takast á við það," sagði Sara.

Á sömu ráðstefnu sagði Þorvaldur Kristinsson, formaður Samtakanna '78, að í þögn skólans um samkynhneigð fælust margvísleg skilaboð. "Það sem ekki er talað um er ekki til," sagði Þorvaldur.

Hann benti á að þegar grunnskólinn, þessi mikli áhrifavaldur í lífi barna og unglinga, þegði væri ekki við því að búast að jákvæð skilaboð, um að samkynhneigð væri eðlileg og í góðu lagi, næðu til barna og unglinga. Þorvaldur vakti líka athygli á þeim afleiðingum þagnarinnar, að samkynhneigðir unglingar, sem væru að byrja að átta sig á samkynhneigð sinni, lokuðust af í ótta sínum, íhuguðu jafnvel sjálfsvíg vegna þess að þeir væru öðruvísi.

Í viðtali við Sverri Pál Erlendsson, framhaldsskólakennara, á Akureyri í Víðsjá Rásar 2 sl. þriðjudag kom fram að þrátt fyrir jákvæðar umræður um að taka upp fræðslu um samkynhneigð í lífsleiknikennslu í efri bekkjum grunnskóla hefði ekkert gerzt. Veruleiki homma og lesbía væri ekki til umræðu í skólanum. "Það er ekki talað um þetta. Þessir krakkar, sem þannig er ástatt um, heyra ekki talað um sig sjálf heldur alltaf einhverja sem eru öðruvísi en þau sjálf," sagði Sverrir Páll.

Á tímum "skóla án aðgreiningar", þar sem áherzla er lögð á að skólinn taki á móti öllum á þeirra eigin forsendum og vinni gegn fordómum í garð t.d. fötlunar eða geðraskana, skýtur skökku við að samkynhneigð skuli liggja í þagnargildi allan grunnskólann. Og það þótt samkynhneigðir séu hvorki veikir né afbrigðilegir á nokkurn hátt - bara öðruvísi en meirihlutinn. Vissulega eru til kennarar og skólastjórnendur, sem hafa reynt að rjúfa þögnina og taka upp fræðslu og umræður um samkynhneigð, en þá skortir stuðning og námsefni við hæfi.

Það er full ástæða til að gera breytingu í þessum efnum og setja fræðslu um samkynhneigð inn í námskrá grunnskólans. Sömuleiðis þurfa kennarar að vera í stakk búnir til að standa fyrir slíkri fræðslu og umræðum og auðvelt ætti að vera að fá homma og lesbíur til að mæta í tíma, spjalla við krakkana og segja þeim frá reynslu sinni.

Fræðsla og umræður af þessu tagi eru mikilvægar, bæði til að eyða fordómum hjá gagnkynhneigðum og til þess að ungir hommar og lesbíur finni að þau eru viðurkennd eins og þau eru, eðlilegur hluti af sköpunarverki almættisins og fjölbreytilegu mannlífi.