Í FRAMTÍÐINNI verður hægt að knýja áfram bíla í Svíþjóð á svonefndum svartlút, efni í fljótandi formi sem að uppbyggingu til er skylt olíu, og verður til sem aukaafurð við pappírsframleiðslu.

Í FRAMTÍÐINNI verður hægt að knýja áfram bíla í Svíþjóð á svonefndum svartlút, efni í fljótandi formi sem að uppbyggingu til er skylt olíu, og verður til sem aukaafurð við pappírsframleiðslu. Nýlega var sett á laggirnar þróunarmiðstöð í bænum Piteå sem rekin er í samstarfi nokkurra sænskra háskóla, Volvo og pappírsframleiðanda. Markmiðið er að framleiða orkugjafa fyrir bíla í þeirri viðleitni að draga úr mengun frá umferð í Svíþjóð. Ef tækni til að vinna úr svartlút orkugjafa fyrir bíla yrði sett upp við allar pappírsverksmiðjur í Svíþjóð gæti þessi nýi orkugjafi komið í stað 30-40% allrar bensín- og dísilnotkunar í landinu. Annar kostur er að útblástur koltvíoxíðs frá bílaumferð myndi minnka um allt að sex milljónir tonna á ári, að því er kemur fram í yfirlýsingu frá Chemrec AB, sem er fyrirtækið sem hefur þróað þessa tækni.

Í Svíþjóð eru framleiddar á hverju ári nálægt 13 milljónir tonna af svartlút. Fram til þess hefur þessi orkuríki vökvi verið brenndur í pappírsverksmiðjunum og orkan sem þannig myndast nýtt til að framleiða rafmagn og hita upp vatn.

Það fæst hins vegar tvöfalt meiri orka úr vökvanum þegar hann er brenndur í brunahreyfli bifreiðar. Kostnaðurinn við að umbreyta svartlút í nothæft eldsneyti er minni en t.d. við etanól. Frá og með 2008 verður svartlútur raunhæfur valkostur við bensín og dísilolíu og verður eldsneytið framleitt á tveimur vinnslustöðvum sem strax á næsta ári munu hvor um sig framleiða 100 tonn á hverjum degi.