Tinna Traustadóttir
Tinna Traustadóttir
Tinna Traustadóttir fjallar um rektorskosningar í HÍ: "Kristín vill bjóða framúrskarandi starfsskilyrði fyrir hæfustu kennara, vísindamenn og nemendur."

HINN 10. mars nk. verða kosningar til rektors Háskóla Íslands. Í rektorskjörinu er í framboði kona sem hefur allt sem þarf til þess að bera að verða öflugur næsti rektor HÍ. Þessi kona heitir Kristín Ingólfsdóttir og er prófessor í lyfjafræði og gamall kennari minn í þessu fagi.

Af persónulegum kynnum mínum af Kristínu Ingólfsdóttur veit ég að þar fer eldklár manneskja sem jafnframt er mikill dugnaðarforkur, fylgin sér og fær í mannlegum samskiptum svo ber af. Á heimasíðu Kristínar, www.kristiningolfsdottir.is, má sjá glöggt dæmi um þessa kosti í yfirliti yfir vísindagreinar, erindi og veggspjöld auk þess sem þar er einnig að finna yfirlit yfir fjölmargar nefndir og stjórnir innan og utan háskólans sem Kristín hefur setið í.

Á heimasíðu hennar má einnig finna eftirfarandi markmið, í fjórum liðum, sem hún hyggst beita sér fyrir nái hún kjöri sem næsti rektor HÍ.

Að Háskóli Íslands:

Verði í fremstu röð alþjóðlegra rannsóknarháskóla

Bjóði framúrskarandi starfsskilyrði fyrir hæfustu kennara, vísindamenn og nemendur

Meti og þjóni þörfum íslensks samfélags fyrir nám og rannsóknir á 21. öld og vinni að stöðugri endurnýjun í takt við nýjar þarfir

Vinni eftir skýrum reglum um jafnrétti til náms og starfs

Á heimasíðu Kristínar má einnig finna þá stefnu sem hún hyggst framfylgja sem rektor og þar er útlistuð í átta liðum. Í fyrsta lið stefnunnar er lögð áhersla á að skapa þurfi ákveðinn skilning á því að fjárfesting í rekstri Háskóla Íslands sé arðbær fyrir íslenskt samfélag. Í öðrum lið stefnunnar er fjallað um hlutverk HÍ og að eitt mikilvægasta verkið framundan sé að sækja aukin fjárframlög til hans til þess að hann geti staðið undir nafni og eflst enn frekar. Er ég ekki í nokkrum vafa um að Kristín muni ná góðum árangri í viðræðum við þá sem með málið hafa að gera fái hún tækifæri til þess. Enda hefur hún náð góðum árangri í þeim verkefnum sem henni hafa verið falin.

Þá hefur Kristín á stefnuskrá sinni að efna til nýjunga í takt við þarfir samfélagsins fyrir nám og rannsóknir á 21. öldinni og segir á heimasíðu sinni: Háskóli Íslands hefur skyldum að gegna við mat á framtíðarþörfum samfélagsins. Vegna breiddar í starfsemi skólans er hann í einstakri stöðu til að mæta nýjum þörfum með þverfaglegu námi. Meðal þeirra nýjunga sem ég vil beita mér fyrir eru námsbrautir sem taka mið af breytingum í alþjóðahagkerfinu. Ég tel að Háskóli Íslands eigi til dæmis að kanna möguleika á að bjóða nám í greinum sem tengjast viðskiptalífi, stjórnmálalífi og menningu Austur-Asíuþjóða, einkum Kína, með hliðsjón af vaxandi hlut þeirra í alþjóðahagkerfinu og vaxandi pólitískum og menningarlegum áhrifum. Ég tel rétt að kannað verði hvort koma eigi á slíku námi í samvinnu við erlenda háskóla á þessu sviði.

Er þetta gott dæmi um framtíðarsýn Kristínar og það hvernig hún mun geta styrkt Háskóla Íslands og íslenskt samfélag. Úrlausnarefnin sem Kristín hyggst beita sér fyrir sem næsti rektor HÍ eru mun fleiri en hér hafa verið nefnd. Mörg þeirra eru afar brýn eins og t.a.m. nauðsynlegar breytingar á stjórnskipulagi HÍ en núverandi fyrirkomulag eru að mörgu leyti úr sér gengið. Um þessi fjölbreyttu verkefni verður þó ekki fjallað frekar um hér heldur bent á heimasíðuna.

Ég treysti Kristínu best af öllum til þess að leiða Háskóla Íslands í gegnum breytt landslag í íslensku háskólaumhverfi. Eiga mannkostir hennar, góðar gáfur og dugnaður eftir að nýtast vel í embætti rektors. Spillir þar ekki fyrir hvað hún er fylgin sér þegar við á og til fyrirmyndar í öllum mannlegum samskiptum.

Mikið hefur verið rætt um rýran hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja, stjórnmálum og í akademískum störfum. Flestir eru sammála um að fleiri konur ættu þar að komast til æðstu metorða. Í um 100 ára sögu Háskóla Íslands hefur kona aldrei gegnt embætti rekstors. Kristín Ingólfsdóttir prófessor er afar frambærilegur kostur í kjörinu til rektors Háskóla Íslands. Þess vegna er nú lag að konur og karlar standi saman og veiti Kristínu brautargengi í rektorskjörinu sem framundan er.

Tinna Traustadóttir fjallar um rektorskosningar í HÍ

Höf.: Tinna Traustadóttir fjallar um rektorskosningar í HÍ