SAMSKIP hafa keypt hollenska flutningafyrirtækið Geest North Sea Line en velta Samskipa nær tvöfaldast við kaupin og verður velta félagsins eftir kaupin nálægt 45 milljörðum króna í ár en til samanburðar má nefna að velta Eimskips í fyrra var um 26...

SAMSKIP hafa keypt hollenska flutningafyrirtækið Geest North Sea Line en velta Samskipa nær tvöfaldast við kaupin og verður velta félagsins eftir kaupin nálægt 45 milljörðum króna í ár en til samanburðar má nefna að velta Eimskips í fyrra var um 26 milljarðar króna. Geest er fjölskyldufyrirtæki og er kaupverðið trúnaðarmál að ósk seljenda.

Eftir kaupin eru Samskip orðin þriðja stærsta gámaflutningafyrirtækið með vöruflutninga til og frá höfninni í Rotterdam, stærstu vöruflutningahöfn Evrópu og eitt stærsta gámaflutningafélag í siglingum innan Evrópu.

Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa, segir engin skip vera inni í kaupunum en Samskip kaupi allar eignir Geest, s.s. gáma, skrifstofur, tæki og viðskiptavild. Hann segir Samskip hafa leitað leiða til að efla starfsemina á Bretlandi, Írlandi og sunnar í Evrópu og því hafi legið beint við að ræða við eigendur Geest sem séu leiðandi í gámaflutningum í Vestur- og Suður-Evrópu til Bretlandseyja.

Um 60% af heildarveltu Samskipa verða vegna starfsemi utan Íslands eftir kaupin á Geest en það er með höfuðstöðvar í Rotterdam og rekur tólf skrifstofur á meginlandi Evrópu, í Bretlandi og á Írlandi. Samskip verða með 24 skip í föstum áætlunarsiglingum og 15 skip í öðrum verkefnum auk fjölda leiguskipa í tímabundnum verkefnum. Gámaeign félagsins meira en tvöfaldast við kaupin og mun félagið flytja um 800 þúsund gámaeiningar á ári. Þá fjölgar starfsmönnum Samskipa um 20%, þeir verða hátt í 1.200, þar af um 500 erlendis.

Vildi 3,5 milljarða

"VIÐ höfum skoðað félagið í þrjá mánuði og töldum það ekki áhugavert á því verði sem um var að ræða," segir Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips, og bætir við að hugmyndir seljanda um verð hafi verið 3,5 milljarðar króna. Hann segir enn fremur að vöxtur félagsins verði að skila arði en ekki hafi verið talið að svo yrði í þessu tilfelli.