Kjartan Henry Finnbogason fæddist á Látrum í Aðalvík 28. maí 1928. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja föstudaginn 25. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Finnbogi Friðriksson, sjómaður og verkamaður frá Látrum í Aðalvík, f. 1.12. 1901, d. 9.11. 1968, og kona hans Guðrún Jóna Jónsdóttir frá Látrum, f. 10.12. 1900, d. 27.12. 1967. Systkini Kjartans eru: Karitas Jóna, f. 29.10. 1926, Grétar, tvíburabróðir Kjartans, f. 28.5. 1928, d. 9.12. 2002, Ragna Stefanía, f. 12.1. 1930, d. 10.9. 2003, og Þóra Guðbjörg, f. 6.7. 1933.

Kjartan bjó á Látrum í Aðalvík með fjölskyldu sinni til 14 ára aldurs en flutti þá með sínu fólki í Hnífsdal, þar sem hann bjó um tíma á unglingsárum sínum. Þaðan fluttist hann til Keflavíkur ásamt fjölskyldu sinni og foreldrum og bjó þar til æviloka.

Hinn 3. febrúar 1951 kvæntist Kjartan Gauju Guðrúnu Magnúsdóttur, f. 12.7. 1931. Hún er dóttir hjónanna Eyrúnar Eiríksdóttur húsmóður, f. 23.8. 1912, d. 2.4. 1988, og Magnúsar Sigurðssonar vélstjóra, f. 11.10. 1905, d. 21.1. 1932. Börn Kjartans og Gauju eru: 1) Magnús Jón, f. 1951, kvæntur Sigríði K. Oddsdóttur. Börn þeirra eru a) Davíð Vignir, búsettur í Montreal í Kanada, maki Guðný Ísaksen, þau eiga tvö börn, b) Margrét Gauja, sambýlismaður Davíð Arnar Stefánsson, þau eiga eitt barn, og c) Oddur Snær, búsettur í Kaupmannahöfn. 2) Finnbogi Gunnar, f. 1952, kvæntur Þuríði Hallgrímsdóttur. Börn þeirra eru a) Ása Lind, hún á eitt barn, b) Hallgrímur, búsettur í Kaupmannahöfn, c) Kjartan Henry, búsettur í Glasgow, og d) Fjóla. 3) Sigrún, f. 1955, gift Bjarna Jóhannesi Guðmundssyni. Dætur þeirra eru a) Helga, gift Stefáni Ström, þau eiga tvo syni, b) Guðrún Ýr, í sambúð með Sævari Jóhannessyni, þau eiga eina dóttur, og c) Karen Henný. 4) Ingvi Jón, f. 1956, kvæntur Þórlaugu Ernu Ólafsdóttur. Börn þeirra eru a) Lísa, gift Teiti Örlygssyni, þau eiga tvö börn, b) Ólafur Aron og c) Róbert Már. 5) Kjartan Már, f. 1961, kvæntur Jónínu Guðjónsdóttur. Börn þeirra eru Guðjón, Sonja og Lovísa. 6) Viktor Borgar, kvæntur Ásu Sigurjónsdóttur. Börn þeirra eru Sigurjón Freyr, Alexía Rós og Kamilla Sól.

Kjartan Henry starfaði lengst af sem lögreglumaður og varðstjóri í Lögreglunni á Keflavíkurflugvelli. Þegar starfsferli hans þar lauk árið 1988 starfaði hann við ýmis störf á Bifreiðaverkstæði Steinars í Keflavík, Bílasprautun Suðurnesja og síðast hjá Ratsjárstofnun á Miðnesheiði, allt þar til hann hætti störfum sökum aldurs á 70 ára afmælisári sínu, 1998.

Útför Kjartans verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku hjartans pabbi minn.

Á undanförnum dögum hafa rótast upp tilfinningarnar og minningar frá liðinni tíð. Líka um það sem ekki var sagt en átti að segja, og það sem ekki var gert en átti að gera.

Ég vildi að ég hefði sagt þér miklu oftar hversu mikið ég elskaði, dáði og virti þig.

Ég vildi að ég hefði gefið mér meiri tíma til að vera með þér og njóta samvista við þig.

Ég á enga ósk heitari en þá að geta tileinkað mér lítillæti þitt og umburðarlyndi og þann mikilvæga hæfileika að geta glaðst yfir litlu.

Ég vildi geta tileinkað mér húmor þinn fyrir sjálfum þér og tilfinningu fyrir því sem gat létt lífið í kringum þig, án þess þó að alvörunni væri ekki sinnt af nákvæmni og ríkri tilfinningu fyrir smáatriðum.

Ég vildi að ég ætti svo ríka ást og virðingu fyrir átthögum mínum og frændgarði sem þú áttir.

Ég veit ekki neina betri gjöf til afkomenda en þá sem þú gafst með fordæmi þínu og æðruleysi.

Nú hin síðustu ár fjarlægðist þú okkur ögn af völdum Alzheimer-sjúkdómsins. Það var erfið staðreynd að kljást við fyrir þig og ekki síst þá sem þráðu náið samband við þig. Þú barst þig þó alltaf vel og tókst á málum af æðruleysi.

Við þökkum góðum Guði fyrir að hafa tekið þig til sín með þeim hætti sem hann gerði, og að það skyldi gerast áður en þú misstir hæfileikann til að gleðjast og njóta.

Samstarfsmenn þínir í gegnum tíðina tala undantekningarlaust um að þeir sakni samvista við þig og hversu gott og létt hafi verið að vinna erfið og alvarleg störf undir þinni stjórn og leiðsögn.

Allt það sem hér hefur verið sagt bætir þó ekki missinn, þótt það veiti okkur huggun að trúa því að vel hafi verið tekið á móti þér hinum megin.

Þar hefur ugglaust beðið stór og myndarlegur hópur sem ekki vildi bíða lengur eftir því að geta leitt þig um og leikið við þig í hinni stærstu og tignarlegustu Aðalvík.

Elsku pabbi, ég ætla ekki að hafa þessar línur fleiri, enda veit ég að þú munt áfram fylgjast með hvernig og hvort við náum settum markmiðum í þroska og vexti. Far þú í friði.

Magnús Jón Kjartansson.

Það er nær ógerlegt fyrir okkur, sem höfum alist upp í allsnægtum síðustu áratuga, að ímynda sér þær gríðarlegu breytingar sem foreldrar okkar, afar og ömmur hafa gengið í gegnum á sinni ævi. Í bernsku bjó pabbi ásamt foreldrum sínum og systkinum við þröngan kost norður í Aðalvík á Hornströndum. Leit hans að betri kjörum og aðbúnaði bar hann suður til Keflavíkur á unglingsárum. Þar var mikið um að vera, uppbygging Keflavíkurflugvallar hafin og allir höfðu nóg að gera. Þar kynntist pabbi móður okkar og börnin urðu samtals 6, fimm synir og ein dóttir.

Heimili pabba og mömmu var í senn dæmigert og óvenjulegt. Dæmigert fyrir þær sakir að á meðan pabbi vann var mamma að mestu heimavinnandi, hugsaði um börnin en vann úti þegar aldurssamsetning barnahópsins leyfði. Óvenjulegt að því leytinu að pabbi var hvort tveggja í senn hin harðduglega fyrirvinna, sem fór á sjóinn eða í múrsteinagerð í vakta- og sumarfríum í lögreglunni, en var á sama tíma mjúki maðurinn heima fyrir, eldaði, vaskaði upp og strauk af á Kirkjuteig 13, sem var ekki algengt að karlmenn af þessari kynslóð gerðu. Allur tími og orka fór í að sjá fyrir heimili og fjölskyldu og lítill tími gafst fyrir frístundir eða tómstundaiðju.

Það var því sem foreldrar okkar hefðu himin höndum tekið þegar þau ákváðu að kaupa lítið sumarhús suður á Spáni fyrir hálfum öðrum áratug. Sumarhúsið fékk nafnið Framnes og Grétar tvíburabróðir pabba, og Stína kona hans, eignuðust húsið við hliðina. Þarna dvöldu þeir bræður langdvölum ásamt mömmu og Stínu, og einstökum fjölskyldumeðlimum af og til, og eignuðust í raun annað líf sem greinilega átti hug þeirra og hjarta. Yfirleitt dvöldu þau þar nokkra mánuði í senn og þá sögðum við í gamni að árinu hjá pabba mætti skipta í 3 hluta; nokkurra mánaða dvöl á La Marina, nokkurra mánaða frásagnartíma hér heima eftir síðustu ferð og nokkurra mánaða undirbúningstíma fyrir næstu. Í þessu samfélagi eignuðust mamma og pabbi marga af sínum bestu vinum og erum við þakklát öllum þeim sem gerðu þeim þennan hluta ævinnar jafneftirminnilegan og ánægjulegan og raun ber vitni.

Þótt pabbi hafi, fljótt á litið, ekki borið það með sér var hann mikill húmoristi. Hann átti það til að smella inn hnyttnum tilsvörum og athugasemdum sem allir hlógu að nema hann sjálfur. Í því fólst snilldin. Hann átti það líka til að ranghvolfa í sér augunum þegar hann vildi láta í ljós að nú væri hann að grínast og þá hlógum við oft mikið. Hann gerði oft grín að sjálfum sér og nú síðustu misserin, þegar hann hafði greinst með Alzheimer-sjúkdóminn á fyrstu stigum, sagði hann stundum; ,,Það veit ég ekkert um, ég er víst orðinn svo gleyminn. Talaðu við mömmu þína..." Afabörnunum fannst gaman að koma til ömmu og afa og spjalla. Hann átti það til að taka úr sér tennurnar, setja í brýrnar og gretta sig, þeim til mikillar skelfingar þegar þau voru pínulítil en mikillar gleði og kátínu þegar þau urðu eldri.

Á sjötugsafmæli mömmu sumarið 2001 vildi mamma fara til London. Við Magnús bróðir tókum okkur þá til og fórum með. Þar lék pabbi á als oddi, þóttist þekkja borgina út og inn eftir einn dag og vera sérfræðingur í lestarkerfinu. Hann var misfljótur að lesa umhverfið þegar við gengum um hin ýmsu hverfi miðborgarinnar en þegar við gengum í gegnum SoHo hnippti hann í okkur bræðurna um leið og hann las á skilti á einum næturklúbbnum sem á stóð "Swedish Girls" og sagði; ,,þetta er greinilega heimsborg, þarna vinna nokkrar sænskar". Þetta var ánægjuleg ferð sem skilur eftir sig margar góðar minningar.

Í gegnum árin fór pabbi nokkrum sinnum í heimsókn á æskustöðvarnar norður í Aðalvík í tengslum við skipulögð ættarmót, síðast 1984. Þá var ekið á 1-2 dögum vestur á Ísafjörð og siglt með Fagranesinu í 3-4 klst. út Ísafjarðardjúpið, fyrir Ritinn og inn á Aðalvíkina. Síðastliðið vor fór hann að tala um að hann langaði að fara einu sinni enn í víkina sína og tókum við Sigrún systir okkur til og fórum, ásamt mökum okkar Jónu og Jóa, með pabba og mömmu norður. Þessi ferð var ólíkt þægilegri og fljótfarnari en hinar fyrri. Við borðuðum morgunmat í Keflavík, flugum vestur á Ísafjörð, fórum beint af flugvellinum á Ísafirði um borð í bát, sem nú flytur fólk um Djúpið og er miklu hraðskreiðari en gamla Fagranesið, og borðuðum hádegismat í Aðalvík. Þetta fannst pabba ótrúlegt; að borða morgunmat í Keflavík og hádegismat í Aðalvík á sama degi. Já, svona höfðu nú tímarnir breyst. Er skemmst frá því að segja að í Aðalvíkinni dvöldum við í einn og hálfan sólarhring í besta veðri sumarsins, 18 stiga hita og blankalogni. Við gengum um svæðið, fundum staðinn þar sem Jónshús stóð, en þar bjó fjölskylda pabba, gengum eftir sandströndinni að Stakkadalsósnum, fórum út að Básum og lögðumst í grasið og nutum þess að vera til. Þarna var pabbi í essinu sínu. Þarna var hann foringinn, sá sem allt vissi og sagði sögur.

Í þessari ferð heyrði ég pabba í fyrsta og eina sinn syngja. Við vorum nýbúin að borða kvöldmat þegar honum varð litið út um eldhúsgluggann á Ólafshúsi, þar sem við gistum, og kvöldsólin sló gullnum geislum sínum á fjöllin hinum megin í víkinni. Þá gerði pabbi sér lítið fyrir og söng fyrir okkur fyrsta erindið úr laginu Aðalvík. Það hefst á orðunum ,,Sól að hafi hnígur hamra gyllir tind" og mátti sjá blika á tár á hvarmi þegar hann söng. Sem betur fer náðum við þessu tilfinningaþrungna augnabliki á myndband ásamt mörgum öðrum og munum verma okkur við yndislegar minningar úr skemmtilegri ferð það sem eftir lifir.

Pabbi minntist oft æskunnar í Aðalvík. Hann dreymdi líka oft að hann væri þar staddur og sagði stundum við mömmu á morgnana; ,,Ég var norður í Aðalvík í nótt" þegar hann vaknaði. Nokkrum dögum fyrir andlátið varð honum enn hugsað norður og hann spurði mömmu hvort hún héldi að þau ættu eftir að fara þangað aftur. Hún efaðist um það en líklega eru þeir komnir þangað núna bræðurnir ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum sem gengnir eru og búa við betri kost en áður.

Ég gæti haldið lengi áfram að minnast pabba og skrifa sögur en vona að aðrir muni gera öðrum þáttum í lífi hans einhver skil. Pabbi var mér góður faðir, Jónu góður tengdafaðir og börnunum okkar góður afi.

Um leið og við kveðjum elskulegan föður, tengdaföður og afa biðjum við Guð að blessa minningu pabba og vaka yfir mömmu.

Kjartan Már, Jóna og börn.

Elsku besti afi minn.

Við föðmuðumst mikið við jarðarför Odds afa og það veitti mér svo mikla huggun að vita til þess að ég ætti nú ennþá einn stórkostlegan afa eftir. Ég hélt að ég myndi fá að eiga þig að lengi en stutt er á milli högga og áður en maður náði áttum, þá flýgur þú burtu líka.

Þú varst merkilegur maður, hlýr, góður, hnyttinn og hugsaðir vel um fjölskylduna þína. Elskaðir að deila með okkur ættaróðalinu, Framnesi á La Marina, og varst alltaf í skýjunum ef þú vissir af fjölskyldumeðlimum í Framnesi. Ég kíkti þarna eina nótt og þurfti að gefa ítarlega skýrslu um stöðuna og hvernig mér nú hefði liðið. Það er nú ekki hægt að líða betur nema í afaholu sagði ég.

Lífið er stundum skrýtið og ég hef stundum hlegið að því að stelpuskjáta eins og ég skuli leggja sig fram við það að feta í fótspor afa sinna, ekki foreldra. Daginn sem ég hóf störf hjá lögreglunni hringdirðu í mig og gafst mér góð ráð. Ég var nú montnasti lögreglumaður sem til var á þessum tíma - "Kjartan varðstjóri er sko afi minn" - og þeir sem höfðu fengið að starfa með þér báru þér vel söguna og fannst mér yndislegt að heyra hversu vel liðinn þú varst í starfi, fyrir manngæsku og kímnigáfu.

Þín verður sárt saknað, við munum hugsa vel um ömmu Gauju, eins vel og þú hugsaðir um hana og okkur öll.

Hvíl í friði, elsku afi.

Þín

Margrét Gauja.

Elsku afi Kjartan, það er skrítið að hugsa til þess að þú sért farinn og komir ekki aftur. En við, ásamt ömmu, áttum margar góðar stundir saman. Það síðasta var símtalið okkar á miðvikudaginn, pulsupartýið þar síðasta laugardag, og í gegnum tíðina öll skiptin sem ég fékk að gista hjá ykkur ömmu, öll skutlin á íþróttaæfingarnar og lengi mætti telja en núna eru mér efst í huga ófáu stundirnar sem við áttum saman í að gera lokaritgerðina mína í sögu síðasta vor þar sem ég fjallaði um ævi þína. Þetta voru æðislegar stundir og ég valdi svo sannarlega rétt ritgerðarefni. Við, ég, þú og amma, vorum öll líka svo montin með ævisöguna þar sem ég fékk hæstu einkunn sem í boði var, enda ekki skrítið því söguleg ævi var þar á ferð hjá þér.

En elsku afi, ég vildi óska þess að ég gæti þakkað þér fyrir allt og gefið þér eitt stórt knús að lokum eins og ég var vön að gera í hvert skipti sem ég kom í heimsókn. Minningin um góðan og hressan afa mun fylgja mér um ókomna tíð. Guð blessi ömmu Gauju og alla fjölskylduna.

Elsku afi Kjartan, takk fyrir allt, þín

Sonja.

Elsku afi.

Þetta er svo skrítið allt saman og lífið svo ótrúlega fljótt að líða. Mér finnst svo stutt síðan að við systurnar vorum á Kirkjuteignum í einhverri af sumarheimsóknunum hjá ykkur ömmu og fyllist hugurinn af svo mörgum skemmtilegum minningum. Sérstaklega kemur upp í huga minn hvað það var gott að fara upp í hlýju holuna þína þegar þú varst að fara á vakt og kúra hjá ömmu. Þegar við fórum í sunnudagsrúnta þegar þú varst búinn að þrífa bílinn og þú settir upp hattinn. Tala nú ekki um þegar sagt var við krakkana að afi væri nú lögga og við fengum þig til þess að koma út og setja upp svipinn. Þegar við fengum að fara í heimsókn til þín í vinnuna uppá völl. Aldrei varstu spar á hrós og fékk maður oft að heyra eitthvað gott frá þér og í seinni tíð eftir að þú kynntist Spáni líktir þú okkur systrunum stundum við senjorítur á góðum stundum fjölskyldunnar. Mjög varstu hrifinn af fyrsta barnabarnabarninu honum Alex og sagðir oft að hann væri svo skýr til augnanna og myndarlegt barn. Svo kom Fjölnir og ekki var hann síðri. Þótt minnið væri eitthvað farið að bila á síðustu árum varstu með þennan lúmska húmor fyrir því sjálfur, sem flestir í fjölskyldunni hafa að einhverju leyti erft enda með eindæmum skemmtileg fjölskylda.

Þú varst fallegur maður með fallegt hjarta og skilur eftir góðar minningar í mínu hjarta.

Ég veit að þú ert kominn á góðan stað og líður vel með Grétari tvíburabróður þínum.

Við Stebbi, Alex og Fjölnir kveðjum þig og þökkum fyrir allar samverustundirnar sem við fengum að njóta með þér, elsku afi.

Helga.

Elsku afi minn.

Andlát þitt kom skjótt upp en ég hélt alltaf í vonina þegar ég kvaddi þig í ágúst, þegar ég flutti til Kanada, að ég myndi hitta þig aftur. Kannski innst inni vissi ég að af því myndi ekki verða. Ég hálfpartinn ólst upp hjá ykkur á Kirkjuteig og á yndislegar minningar þaðan. Ég sat oft á tröppunum og beið eftir að þú kæmir heim af vakt, þú varst svo stór og mikill í búningnum og leyfðir mér að leika mér með hattinn þinn. Þú varst svo heimakær og gast endalaust verið að dútla með okkur barnabörnunum og leyfðir okkur að hjálpa þér. Við fundum síðar það út að við áttum sameiginlegt áhugamál, þrifin á Framnesi í La Marina. Það var mikið hlegið að okkur en okkur fannst það nú bara allt í lagi. Það lítur allt út fyrir að sonur minn, Magnús, hafi sömu tilhneigingar og það að hann líkist þér gerir mig stoltan.

Far þú í friði, elsku afi minn, og takk fyrir allt.

Þinn

Davíð.