Guðrún Ólafía Helgadóttir fæddist á Mel á Norðfirði 16. maí 1918. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 26. feb. síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Jón Helgi Bjarnason, f. 25. maí 1888, d. 6. sept. 1953, og Soffía Guðmundsdóttir, f. 30. nóv. 1893, d. 29. jan. 1925. Systkini Ólafíu voru Guðmundur, f. 12. feb. 1913, d. 1974; Björg Ólöf, f. 4. mars 1915, d. 2003; Bjarni, f. 27. okt. 1919, d. 1999; Soffía, f. 23. jan. 1925, d. 2001. Einnig ólu Helgi og Soffía upp systurdóttur Soffíu, Aðalbjörgu Guðnadóttur, f. 15. apríl 1918, d. 2003.

Ólafía gifttist eftirlifandi eiginmanni sínum, Ólafi Gunnari Sigurðssyni, 1. jan. 1944, f. 20. ágúst 1922. Ólafur er sonur hjónanna Guðjónínu Sæmundsdóttur, f. 19. nóv. 1892, d. 18. júlí 1960, og Sigurðar Kristjánssonar, f. 31. des. 1886, d. 5. ágúst 1983. Þau eignuðust eina dóttur, Soffíu Guðjónínu, f. 30. nóv. 1943. Maður hennar er Sæmundur Kristinn Klemensson, f. 29. júlí 1941. Börn þeirra eru: 1) Ólafur Gunnar, f. 10. sept. 1961, kvæntur Hjálmfríði Kristinsdóttur, f. 2. jan. 1961. Börn þeirra eru Kristinn, f. 26. ágúst 1993; Sæmundur, f. 2. okt. 1995; Ólafur, f. 5. ágúst 1999, d. 5. ágúst 1999; og Soffía, f. 18. júlí 2001. 2) Klemenz, f. 4. sept. 1963, kvæntur Katrínu Sigurðardóttur, f. 20. apríl 1963. Börn þeirra eru Elín Óla, f. 28. júní 1991; Soffía, f. 18. jan. 1993; og Þóra Kristín, f. 25. sept. 1998. 3) Hlíðar, f. 12. okt. 1964, kvæntur Valdísi Eddu Valdemarsdóttur, f. 20. okt. 1963. Börn þeirra eru Birgitta Jóna Gunnarsdóttir, f. 27. des. 1984, í sambúð með Jóni Þór, f. júní 1984, og eiga þau tvö börn, Róbert Snæ, f. 17. apríl 2001, og Söndru Ýri, f. 12. júní 2002; Sindri Fanndal Júlíusson, f. 14. ágúst 1986; Ólafur Ágúst, f. 2. ágúst 1990; Ólavía Mjöll, f. 24. ágúst 1991; Gunnþór, f. 2. mars 1993; og Anna Eygló, f. 29. jan. 1997. 4) Guðjónína, f. 9. sept. 1970, gift Bergi Sigurðssyni, f. 7. jan. 1971. Börn þeirra: Kristinn, f. 21. ágúst 1992; Pálína Björg, f. 19. nóv. 1998; og Sigurður Ingi, f. 2. sept. 2000.

Ólafía byrjaði ung að vinna eins og títt var í þá daga og var hún ásamt uppeldissystur sinni Aðalbjörgu að hjálpa til í beitingaskúrunum hjá föður hennar átta ára gamlar við beitningu og fiskvinnslu. Ólafía fór sem ráðskona til Hornafjarðar og svo seinna til Keflavíkur og Sandgerðis. Í Garðinn kom hún í kringum 1940 og vann sem vinnukona þar og einnig við fiskvinnslu. Ólafía og Ólafur bjuggu í ein 15 ár í Ásgarði við Garðskaga og voru þar með búskap, en fluttu svo 1959 í Garðinn að Lyngholti, og 1972 fluttu þau í einbýlishús sem Ólafur byggði á Heiðarbraut 7 og bjuggu þau þar til þau festu kaup á íbúð á Melteig 7 í nóvember 2003.

Ólafía verður jarðsungin frá Útskálakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku mamma, nú er komið að kveðjustund. Ég sé fyrir mér litla ljóshærða stúlku með sítt slegið hár, hún er sjö ára, hún er ósköp döpur því hún er nýbúin að missa mömmu sína. Það tekur í hjartað að hugsa til þess að hafa ekki móður sér við hlið, en hún átti góðan föður sem hún var mjög hænd að og hann leiddi litlu stúlkuna sína áfram í lífinu. Þú sagðir mér oft hvað þér fannst gott að kúra hjá honum pabba þínum enda var hann hjartahlýr maður og því fékk ég að kynnast á mínum yngri árum en afi dvaldist oft hjá okkur í Ásgarði þegar hann kom suður á vertíð eins og það hét hér í eina tíð.

Þetta voru erfiðir tímar fyrir afa og ykkur börnin þegar mamma þín féll frá í blóma lífsins og nýbúin að eignast yngsta barnið, en það var samheldnin í fjölskyldunni sem gerði ykkur kleift að halda áfram og gott fólk sem hljóp undir bagga með Helga afa.

Mamma byrjaði ung að vinna eins og öll hennar systkini. Hún var víst ekki gömul þegar hún fór að vaska fisk og beita.

Um 18 ára aldurinn fór mamma suður með sjó og var þar ráðskona við vertíðarbáta en sjómennirnir bjuggu í verbúðum. Þarna var nóg að gera og var mamma hörkudugleg í vinnu og mjög þrifin enda var það oftast í hennar verkahring að þrífa gólf og stiga sem voru úr timbri og þetta skrúbbaði hún svo vel að eftir var tekið, og ég hef heyrt að það hafi enginn vogað sér inn á skónum eftir að hún var búin að skrúbba.

Nokkrum árum seinna kynnist hún pabba og þau byrja að búa í Garðinum að Garðstöðum uppi á lofti, en þegar ég kem í heiminn voru þau flutt að Esjubergi. Pabbi og mamma flytja að Ásgarði við Garðskaga þegar ég er svona þriggja til fjögurra ára og þar voru þau með kúabú og hænsni og þar var yndislegt að vera og nóg að sýsla. Mér verður oft hugsað til þess þegar þvottur var þveginn á þessum tíma en þá var þvegið úti í bala með þvottabretti og allt undið í höndum, vatn sótt í brunn og borið heim. Það er ekki svo ýkja langt síðan, já tímarnir breytast.

Mamma og pabbi hættu búskap í kringum 1959, settust að í Garðinum og unnu ýmis störf þar. Mamma og pabbi hafa verið lánsöm í lífinu. Þau hafa leiðst áfram í gegnum lífið og ég var svo heppin að eignast þessa góðu foreldra sem alltaf vöktu yfir mér. Ég varð þeirra eina barn og elska þeirra og umhyggja hafa alltaf umvafið mig frá fyrstu tíð. Þegar ég eignaðist fjölskyldu var sama ástúðin í þeirra garð og þau voru alltaf boðin og búin að hugsa um barnabörnin þegar við hjónin þurftum á því að halda.

Eftir að mamma og pabbi komust á eftirlaunaaldur komu þau sér upp húsbíl sem pabbi innréttaði. Bíllinn fékk nafnið Krían. Þau hafa ferðast undanfarin ár vítt og breitt um landið og mikið með félögum sínum í Húsbílafélaginu. Þar hafa þau eignast marga góða vini sem hafa stutt þau í hvívetna. Við hjónin erum líka komin í þennan félagsskap og einn sonur okkar svo það má segja að þetta sé smitandi.

Mamma var mikil barnakerling og vildi helst alltaf hafa börn í kringum sig enda fóru mín börn oft með þeim í ferðalög hér áður fyrr. En foreldrar mínir voru mikið fyrir að fara um landið og heimsóttu þá ósjaldan ættingja og vini. Og svo komu barnabarnabörnin og voru það aðallega Óli og Ólavía sem fóru í margar húsbílaferðir með þeim.

Elsku mamma mín, síðastliðið ár var þér erfitt en þú lést ekki deigan síga, fórst í allar ferðir með Húsbílafélaginu síðastliðið sumar og meira að segja til Færeyja. Þér fannst mjög gaman og þú talaðir um að þú sæir sko ekki eftir því. Þú varst svo dugleg og ert sönnun þess að við eigum að lifa lífinu lifandi á meðan við getum. Með það að leiðarljósi kveð ég þig og þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Elsku pabbi minn, ég þakka þér fyrir hvað þú hugsaðir vel um hana mömmu, þú varst hennar stoð og stytta í lífinu, megi guð blessa þig og styrkja og við fjölskyldan erum hér til staðar fyrir þig.

Að lokum vil ég þakka Ólafi Ágúst og Ólavíu Mjöll hvað þau hafa verið góð við langömmu sína og langafa og, Ólavía mín, hvað þú varst dugleg að hjálpa langömmu með húsverkin. Einnig eru henni Jennýju frænku færðar innilegar þakkir fyrir hennar góðvild í þeirra garð. Starfsfólki Heimahjúkrunar á Suðurnesjum og starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja þökkum við frábæra umönnun í veikindum Ólafíu.

Ég sendi þér kæra kveðju,

Nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir

Ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

Þá sælt er að vita af því

Þú laus ert úr veikinda viðjum,

Þín veröld er björt á ný

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Hinsta kveðja og guð þig blessi, elsku mamma.

Þín dóttir.

Soffía.

Kæra tengdamamma, nú er komið að kveðjustund. Mig langar í nokkrum fátæklegum orðum að þakka þér samfylgdina en það var á vormánuðum árið 1960 að ég fór að venja komur mínar suður í Garð. Þá áttuð þið heima í Lyngholti, nýflutt í það hús. Ástæða komu minnar til þíns heimilis var heimasætan á bænum, einkadóttirin. Ég held ég hafi nú verið frekar feiminn og óframfærinn í fyrstu en það fór fljótt af því þið tókuð mér mjög vel, svo vel að fljótlega varð ég einn úr fjölskyldunni og flutti alfarið til ykkar. Seinna innréttuðum við Soffía íbúð uppi á loftinu hjá ykkur og bjuggum þarna saman í sátt og samlyndi í átta ár. Í þessu húsi eru strákarnir okkar þrír fæddir og það var gott til þess að vita að hafa ykkur til að hjálpa Soffíu þar sem ég vinnu minnar vegna var mikið fjarverandi á þessum árum og alltaf voruð þið tilbúin að gæta barnanna hvenær sem við báðum, aldrei sagt nei.

Það er margs að minnast þessi ár sem við höfum verið saman. Ekki áttum við Soffía bíl en þið áttuð Chevrolett og á honum fór allur skarinn í ferðalög þegar færi gafst, sjö manns. Ótrúlegt hvað komst í bílinn, því alltaf var haft með sér matur, kökur og viðlegubúnaður s.s. tjald, svefnpokar o.fl. Það var endalaust troðið. Við höfum oft rifjað upp ferðalögin okkar, sérstaklega þegar við vorum að leita að tjaldstæði. Oftast fannst ekkert "almennilegt" tjaldstæði fyrr en farið var að rökkva, því undirlagið þótti aldrei nógu slétt. En þegar rökkva tók sáust þúfurnar ekki vel, fundust þeim mun betur þegar lagst var til hvíldar.

Eftir 1980 var farið að ferðast til útlanda og keyrðum við þar vítt og breitt og var þá yngsta barnið okkar oft með í för. Þá var farið í mörg söfn og ég sé fyrir mér þig og Ínu dóttur mína sitja á bekk. Ykkur hálfleiddist þessi söfn!

Nú á seinni árum hafið þið ferðast á Kríunni ykkar, haldist hönd í hönd og ástin skinið úr augum ykkar.

Ollý var afskaplega gjafmild og hafði stórt hjarta. Henni leið vel í návist sér yngra fólks þar sem léttleikinn var í fyrirrúmi. Hún elskaði fjölskyldu sína og gerði allt fyrir hana sem hún gat og fyrir það er þér þakkað, Ollý mín, enda er þín sárt saknað af fjölskyldunni.

Ollý mín, ég þakka þér samfylgdina og alla þá góðvild sem þú hefur sýnt mér í gegnum árin. Guð blessi þig. Ég bið algóðan Guð að styrkja tengdaföður minn sem nú sér á eftir eiginkonu sinni eftir rúma 60 ára samfylgd.

Hinsta kveðja.

Þinn tengdasonur

Sæmundur.

Elsku amma. Þá hefur þú loksins fengið hvíldina en mikið var sárt að horfa upp á veikindi þín síðustu mánuði en að sama skapi aðdáunarvert að verða vitni að þeim sálarstyrk og æðruleysi sem þú sýndir. Það má fullyrða, elsku amma, að þú hafir átt góða og gjöfula ævi og hornsteinn þess er án efa farsælt og ástríkt hjónaband ykkar afa í meira er 60 ár. En þó við kveðjum þig formlega í dag munum við afkomendur þínir ylja okkur í framtíðinni við góðar minningar. Við munum minnast ótal skemmtilegra fjölskylduferðalaga hérlendis sem erlendis. Og hugsa sér að síðasta ferðalag sem þú tókst á hendur var í október á síðasta ári þegar farin var helgarferð í Þjórsárver með Félagi húsbílaeiganda og það þrátt fyrir að heilsu þinni væri mikið farið að hraka. Við munum minnast þeirra stunda þegar við fengum dvalið til lengri eða skemmri tíma á heimili ykkar afa og fengum þar notið hágæða þjónustu! En heimili ykkar afa, elsku amma, hefur alla tíð staðið okkur systkinunum opið og á stundum verið okkar annað heimili. Við munum minnast mikillar gjafmildi en níska var hugtak, elsku amma, sem þér var ekki hugleikið enda veittir þú oft um efni fram. Við munum minnast hve kröftuglega þú gekkst til verka við að halda öllu hreinu og fáguðu og við munum að þegar við vorum á unglingsaldri fannst okkur stundum nóg um þetta "hreingerningaræði" en síðar meir lærðum við að meta hreinlætisástríðu þína að verðleikum! Við munum minnast orðskrípisins "lygimál" sem þú greipst gjarnan til þegar þér fannst einhver fara með rangt mál. Okkur systkinunum fannst alltaf jafn sniðugt þegar þú greipst til þessa orðs og héldum lengi vel að um nýyrði væri að ræða. En þegar flett er upp í orðabók kemur fram að lygimál merkir einfaldlega lygi eða ósannindi.

Við munum minnast þeirrar fölvskalausu gleði sem þú upplifðir þegar fjölgaði ört í litlu fjölskyldunni þinni á tiltölulega fáum árum. En örlögin höguðu því þannig að þér og afa varð aðeins eins barns auðið þó áhugi til frekari barneigna hafi verið til staðar. Við munum minnast bakstursstunda ykkar afa þegar þið unnuð saman í að hnoða og baka rúgbrauð, lagatertur og jólakökur eða þegar þú bakaðir pönnukökur sem ávallt brögðuðust svo fádæma vel. Við munum þó umfram allt minnast yndislegrar ömmu sem naut þess að lifa og umvafði okkur með ást og kærleika alla tíð.

Allt hefur sinn tíma, stund sem og stað

stundum er glaðst, stundum beygt af.

Á skilnaðarstundu þökkum við það

árin öll amma sem áttum þig að.

(Ó.S.)

Ólafur, Klemenz, Hlíðar, Guðjónína.

Kæra Ollý amma. Okkur langar að kveðja þig með nokkrum orðum. Þú varst okkur góð og börnunum okkar kær langamma og umvafðir okkur með kærleik þínum og hlýju. Þú hafðir sterkar skoðanir á öllu sem viðkom fjölskyldunni og lést þær óspart í ljós. Það er skemmtileg minning þegar þú slóst á lær þér og sagðir: "Þetta er nú meiri vitleysan!" Samt varst þú ekki kona sem vildir hafa þig mikið í frammi.

Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir vegna veikinda þinna en þú stóðst þig eins og hetja allan tímann. Óli afi var þín stoð og stytta í veikindum þínum. Samband ykkar einkenndist alla tíð af ást og virðingu og gagnkvæmu trausti.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt og hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sig.)

Við þökkum þér samfylgdina.

Hjálmfríður og Katrín.

Elsku langamma mín, þá er þessi tími kominn, að þú þurfir að kveðja okkur.

Seinustu mánuðir þínir hafa verið erfiðir fyrir þig og jafnframt okkur. Að sjá þig svona veika var mjög erfitt, en þú varst alltaf svo dugleg og þú fylgdist með okkur alveg fram á síðustu stund. Þú hafðir svo mikinn áhuga á því sem við vorum að gera og svo á ég að fermast núna í mars, og þú spurðir mig hvort væri búið að kaupa fermingarfötin og hvernig veislan ætti að vera. Við mamma fórum einn daginn og keyptum fermingarfötin og komum upp á sjúkrahús til að sýna þér fötin en þú varst þá orðin svo veik að þú sást þau ekki, en ég veit langamma mín að þú fylgist með mér sem og öðrum fjölskyldumeðlimum þar sem þú ert núna.

Þú kenndir mér margt, langamma mín, eins og að strauja, þrífa, o.fl. Enginn straujaði betur en þú, allt svo slétt og fínt, og ég held ég hafi bara náð góðum tökum á þessu enda vildir þú að ég straujaði fyrir þig, þú varst mjög ánægð með mig.

Það eru margar minningar sem koma upp í hugann núna. Þegar þið áttuð heima á Heiðarbrautinni komum við Óli til ykkar á hverjum degi eftir skólann. Þá sast þú við að prjóna eða varst að þrífa, en þú gafst þér alltaf tíma fyrir okkur og spilaðir við okkur og gafst okkur að borða, það var alltaf eitthvað til hjá þér sem okkur langaði í. Við Óli fórum líka í margar húsbílaferðirnar með ykkur á Kríunni ykkar, þá voruð þið langafi í essinu ykkar, og við vorum svo ánægð að eiga svona flotta langömmu og langafa.

Elsku langamma, ég vil þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman og mér þykir ótrúlega vænt um þig og takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur. Og þú hefur verið ótrúlega sterk og hress kona. Ég elska þig, langamma mín. Nú á langafi erfitt en við munum gæta hans og passa upp á hann.

Hið göfugasta í lífi okkar er

ást, sem móðir ber til barna sinna

Hún fórnar, gefur helft af sjálfri sér

og sækir styrk til lífsins dýpstu kjarna.

Hún veitir ljós, sem ljómi bjartra stjarna.

(Ágúst Böðvarsson.)

Hvíl í friði, langamma mín.

Þín nafna

Ólavía Mjöll.

Jæja, elsku Ollý mín, þá er komið að kveðjustund. Ég kveð þig með miklum trega og söknuði. Þessir seinustu mánuðir og vikur hafa verið sérstaklega erfið fyrir þig, elsku Ollý mín. Það var nú ekki á hverjum degi sem þú lást í rúminu. Það var eitthvað mikið að ef það var. Er þú hafðir heilsuna, varstu alltaf að þrífa, baka og strauja allan daginn. Það var alveg sama á hvaða tíma börnin mín komu til þín eftir skóla, alltaf varstu tilbúin að steikja hamborgara fyrir hann Óla litla þinn þó klukkan væri tvö eða þrjú á daginn. Það var það ekki málið fyrir þig.

Ég kynntist þér fyrir um 16 árum er ég hóf sambúð með Hlíðari, barnabarni ykkar, alveg yndislegum manni en ég átti tvö börn áður og vil ég þakka þér, Ollý mín, hvað þú tókst Birgittu og Sindra strax eins og þínum eigin og met ég það mikils. Betri barnapíu höfum við ekki haft en ykkur Óla, alltaf tilbúin að hjálpa okkur Hlíðari og er hann Gunnþór okkar var sem mest á spítala þá bjargaðir þú öllu, svo að Hlíðar gæti unnið því einhver varð að bera björg í bú enda fjögur önnur börn heima fyrir hjá okkur þá. Já, ég get skrifað endalaust um þig. Það er svo margt sem flýgur um kollinn á manni á svona stundu. En mikið áttirðu nú góðan eiginmann, Ollý mín, hann vék ekki frá rúmi þínu frá því að þú veiktist. Svo mikið hefur hann setið við hlið þér og klappað þér og strokið.

Það var okkur Hlíðari, Óla og Ólavíu nöfnu þinni mikils virði að hafa getað verið með þér er þú kvaddir. Afskaplega voru erfið þessi seinustu andartök áður en þú skildir við. Síðan færðist mikill friður yfir þig. Ég er viss um að þú vissir af okkur öllum þarna hjá þér.

Elsku Óli, Soffía og Sæmi, missir okkar allra er mikill og bið ég góðan guð að varðveita okkur öll.

Ollý mín, þakka þér fyrir samveruna og góðar stundir í öll þessi ár og góðvildina í okkar garð. Þú átt alltaf stórt pláss í hjarta mér sem ég mun varðveita vel og lengi. Takk fyrir allt.

Valdís.