ADÓLF Friðriksson, forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands ses., segir að það verði mjög spennandi að rannsaka tóftir í væntanlegu lónsstæði Kárahnjúkavirkjunar, ekki síst vegna þess að þar séu mannvistarleifar undir öskulagi frá árinu 1158.

ADÓLF Friðriksson, forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands ses., segir að það verði mjög spennandi að rannsaka tóftir í væntanlegu lónsstæði Kárahnjúkavirkjunar, ekki síst vegna þess að þar séu mannvistarleifar undir öskulagi frá árinu 1158. Rústirnar séu elstu þekktu mannvistarleifar á hálendi Íslands.

Fornleifastofnun Íslands átti lægsta tilboð í uppgröft á rústum á Hálsi í væntanlegu lónsstæði Kárahnjúkavirkjunar. Tilboðið var upp á 11,5 milljónir en tvö önnur tilboð bárust; frá Skriðuklaustursrannsóknum, upp á 24,2 milljónir, og langhæst bauð Fornleifafræðistofan Eldstál, 58,4 milljónir.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu fann Páll Pálsson frá Aðalbóli þessar rústir í smalamennsku haustið 2003. Telur hann þær koma við sögu í Hrafnkelssögu Freysgoða sem selið Reykjasel við Jökulsá. Reiknað er með að vettvangsrannsókn hefjist í sumar og henni ljúki í haust. Verkefninu á að vera lokið að fullu ári síðar, um það leyti sem vatn byrjar að safnast fyrir í Hálslóni.

Adólf sagðist gera ráð fyrir að uppgröfturinn tæki nokkrar vikur, en um er að ræða tvær tóftir og ofan á þeim er fokjarðvegur. Í annarri tóftinni væru vísbendingar um mannvistarleifar undir gjóskulagi frá árinu 1158, en það þýddi að um væri að ræða mannvistarleifar frá upphafi Íslandsbyggðar. Þetta gerði þessa rannsókn afar spennandi því mjög óvenjulegt væri að finna svo gamlar rústir í þetta mikilli hæð, þ.e. í 580 metra hæð yfir sjávarmáli. Adólf sagði óljóst hvers konar mannvirki þetta væri. Þetta gæti verið bústaður eða sel sem notað var til að nýta afréttinn.

"Ef fyrirliggjandi vísbendingar úr forathugun Fornleifaverndar ríkisins s.l. sumar er rétt, þ.e. að rústirnar séu eldri en gjóskulagið frá 1158, þá gætu þarna verið minjar frá tímabilinu 9. til 11. aldar. Þessar minjar benda til að menn hafi þegar í upphafi byggðar verið farnir að nýta sér hálendið, reisa þar mannvirki og skilið eftir sig spor - sem nú eru síðustu forvöð að rannsaka, til að bæta þekkingu okkar á lítt þekktum kafla í menningarsögu fornþjóðarinnar."