Nýsköpunarverðlaun 2005 Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra afhenti Hilmari Veigari Péturssyni, framkvæmdastjóra CCP, verðlaunin.
Nýsköpunarverðlaun 2005 Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra afhenti Hilmari Veigari Péturssyni, framkvæmdastjóra CCP, verðlaunin. — Morgunblaðið/Jim Smart
FYRIRTÆKIÐ CCP hlaut nýsköpunarverðlaun Rannís og Útflutningsráðs árið 2005 en það hefur náð afar góðum árangri með fjölþátttökuleikinn EVE-Online sem kom út í maí í fyrra og eru virkir áskrifendur að leiknum á Netinu nú orðnir liðlega 55 þúsund talsins...

FYRIRTÆKIÐ CCP hlaut nýsköpunarverðlaun Rannís og Útflutningsráðs árið 2005 en það hefur náð afar góðum árangri með fjölþátttökuleikinn EVE-Online sem kom út í maí í fyrra og eru virkir áskrifendur að leiknum á Netinu nú orðnir liðlega 55 þúsund talsins um allan heim. Viðskiptahugmyndin gengur út á það að selja spilurum leikinn og rukka eftir það mánaðarlegt áskriftargjald fyrir að viðhalda og þróa áfram þennan leikjaheim. EVE-online mun vera áttundi stærsti leikurinn á Vesturlöndum á eftir leikjum frá Electronic Arts, Sony, Microsoft og Blizzard.

Þróunin kostaði 750 milljónir

CCP var stofnað um mitt ár 1997 en það tók fyrirtækið ekki nema um þrjú ár að þróa leikinn og koma honum á markað, sem er ákaflega skammur tími í þessum geira. Að sögn Hilmars Veigars Péturssonar framkvæmdastjóra fóru um 167 mannár í að þróa leikinn en um 30 manns unnu að því í þessi þrjú ár. Hann segir mjög algengt að um 80 manns vinni að þróun slíkra leikja í um fimm ár í fyrirtækjum erlendis enda sé þetta flókið ferli og fá fyrirtæki ráði yfir tækni og þekkingu til þess að ljúka slíku verkefni. Kostnaður við að þróa EVE-Online nam um 750 milljónum króna.

Tekjur CCP stórjukust í fyrra og námu 586 milljónum og eins var taprekstri snúið í hagnað. Í erindi sínu benti Hilmar á að allar tekjur félagsins væru í bandaríkjadölum og evrum frá viðskiptavinum í um 90 löndum. Virðisaukinn sem myndaðist hér heima vegna starfsemi fyrirtæksins væri mjög mikill, nær engin erlend aðföng væru keypt heldur notaði CCP nær eingöngu hugvit starfsmanna sinna, sem það greiddi fyrir í formi launa auk rafmagns til að keyra búnað. Margfeldisáhrifin af þeim gjaldeyristekjum sem fyrirtækið aflaði væru því mjög mikil.

Hilmar segir stanslaust unnið við endurbætur á EVE-Online. "En nú erum við komnir með þetta á þann stað að við erum farnir að horfa til næstu verkefna, að endurtaka þetta og þannig tvö- eða þrefalda umfangið á þessu öllu saman."

Hilmar segir að hvað fjármögnun snerti hafi CCP frekar haldið sig til hlés hér á innanlandsmarkaði. "Við höfum svolítið verið að halda aftur af okkur svona þangað til að þessum tímapunkti kom að við erum komnir með hagnað og allt í höfn. Nú förum aðeins að auka það að koma út úr skápnum með þetta."