"Skriftir Sturlu." Olíumálverk eftir Einar Þorláksson.
"Skriftir Sturlu." Olíumálverk eftir Einar Þorláksson. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Opið mánudag til föstudags kl. 8-16. Sýningu lýkur 18. mars.

FÓLKSFÆÐ hefur löngum háð myndlistinni á Íslandi og svigrúm lítið fyrir margar áherslur í senn. Hópefli innan módernismans hefur oft verið einstefnt svo að listamaður sem féll ekki inn í strauma og stefnur síns tíma og hafði sig kannski lítið í frammi kann að gleymast í listumræðu og yfirliti. Einn slíkur er Einar Þorláksson sem er nú kynntur í nemendagalleríi Listaháskóla Íslands, Kubbnum. Einar sem er á áttræðisaldri ku hafa fyrstur íslenskra myndlistarmanna sótt nám til Niðurlanda árið 1954, en allnokkrir seinni tíma listamenn hafa fetað í þau fótspor hans. Í Niðurlöndum varð Einar undir áhrifum af Cobra-listamönnunum og innleiddi stefnu þeirra í eigin verk. Einnig sótti listamaðurinn í súrrealískan myndheim, til listamanna á borð við Andre Masson og Roberto Matta.

Verkin sem sýnd eru í Kubbnum spanna 26 ár. Elst er myndröðin "Blátt postulín" frá árinu 1976 en þær yngstu, myndröðin "Barátta", eru gerðar árið 2002. Hvort tveggja þurrpastel á pappír. Þær eldri eru nokkuð húmorískar en þær yngri öllu alvarlegri myndrannsóknir. Vinnuferlið sýnist sjálfrátt og ekki ýkja mikill munur að sjá á þurrpastelmyndum, akvarellum og olíumálverkum. Efnið notað líkt og þekjulitur, eða hreinn litur, í öllum tilfellum nema helst í myndinni "Skriftir Sturlu" frá árinu 1983, sem jafnframt er stærsta verkið á sýningunni eða um 3 metrar á lengdina. Samspil lita þykir mér kræsilegt. Oft frekar væmnir litir eins og ljósgulur og lillablár sem eru sjaldséðir í íslensku abstraktmálverki en ganga vel upp í svo til formlausum olíumyndum Einars.

Er sýningin vel hengd, framtakið flott af hálfu skólans og ástæða til að endurtaka leikinn. Þeir eru vafalaust fleiri listamennirnir sem mætti kynna svo að framlag þeirra falli ekki í gleymsku.

Jón B.K. Ransu