Giancarlo Fisichella við frumsýningu Renault-bílsins.
Giancarlo Fisichella við frumsýningu Renault-bílsins. — Reuters
RENAULTÞÓRINN Giancarlo Fisichella segist ætla að leggja fyrir sig liðsstjórn að loknum keppnisferli í Formúlu-1. Hefur hann staðfest það m.a. með því að stofna eigið keppnislið í Formúlu-3000 sem tekur þátt í ítölsku mótaröðinni í þeim flokki í ár.

RENAULTÞÓRINN Giancarlo Fisichella segist ætla að leggja fyrir sig liðsstjórn að loknum keppnisferli í Formúlu-1. Hefur hann staðfest það m.a. með því að stofna eigið keppnislið í Formúlu-3000 sem tekur þátt í ítölsku mótaröðinni í þeim flokki í ár.

Fisichella Motor Sport kallast liðið og hefur hann falið öðru og virtu ítölsku liði, Durango-liðinu, að annast rekstur þess fyrst um sinn. Hægur leikur þar sem umboðsmaður hans Enrico Zanarini á það lið og rekur.

Tilgangur Fisichella með liðinu er fyrst og fremst að koma upprennandi ítölskum ökuþórum á framfæri en kynnt verður í lok mars hverjir keppa fyrir liðið í ár og hverjir verða helstu bakhjarlar þess. Hann hyggst síðar stíga næsta skref með stofnun liðs til keppni í GP2-keppninni sem er arftaki heimsmeistarakeppninnar í Formúlu-3000.

Fisichella segir að þrátt fyrir stofnun eigin liðs sé hann fyrst og fremst með hugann við Formúlu-1 og segir ekkert munu draga úr þeim ásetningi hans og einbeitni að vinna heimsmeistaratitil ökuþóra í ár.