Kristskirkja í Landakoti.
Kristskirkja í Landakoti.
ALÞJÓÐLEGUR bænadagur kvenna hefur verið árviss viðburður innan kristinna safnaða á Íslandi í á fimmta áratug. Hann er jafnan haldinn fyrsta föstudag í mars, eins og í 180 löndum öðrum víðsvegar í heiminum.

ALÞJÓÐLEGUR bænadagur kvenna hefur verið árviss viðburður innan kristinna safnaða á Íslandi í á fimmta áratug. Hann er jafnan haldinn fyrsta föstudag í mars, eins og í 180 löndum öðrum víðsvegar í heiminum.

Tilgangur bænadagsins er að koma saman til að biðja fyrir konum í mismunandi löndum og fræðast um aðstæður þeirra, svo bænin sé byggð á þekkingu.

Að þessu sinni kemur efni Alþjóðlegs bænadags kvenna frá Póllandi. Yfirskriftin er: "Látum ljós okkar skína". Eins og við gerum á hverju ári munum við einnig nú tendra lampa okkar til að fræðast, að þessu sinni um sögu Póllands, menningu, trúarlegar hefðir, félagsleg og stjórnarfarsleg vandamál og leggja fram land og þjóð í bæn.

Um allt Ísland munu konur og karlar koma saman til að biðja hinn 4. mars 2005. Í Reykjavík verður bænadagurinn haldinn hátíðlegur með samkomu í Dómkirkju Krists konungs, Landakoti, og eru það systur okkar í kaþólsku kirkjunni sem eru gestgjafar að þessu sinni. Í landsnefnd Alþjóðlegs bænadags kvenna á Íslandi eru fulltrúar ellefu kristilegra félaga og kirkjudeilda: Aðventista, Fríkirkjunnar í Reykjavík, Fríkirkjunnar Vegarins, Hjálpræðishersins, Hvítasunnukirkjunnar, Íslensku Kristskirkjunnar, Kaþólsku kirkjunnar, KFUM/K, Kristniboðsfélags kvenna, Óháða safnaðarins og Þjóðkirkjunnar.

Bænadagssamkoman hefst kl. 20 og verður dagskrá fjölbreytt að vanda. Væntum við þátttöku Pólverja sérstaklega og eru bæði karlar og konur velkomin.