Herdís L. Storgaard
Herdís L. Storgaard
HERDÍS Storgaard, verkefnisstjóri Árvekni hjá Lýðheilsustöð, segist kannast við fleiri dæmi þar sem börn hafa sprautað hættulegum efnum í andlit eða á jafnaldra sína.

HERDÍS Storgaard, verkefnisstjóri Árvekni hjá Lýðheilsustöð, segist kannast við fleiri dæmi þar sem börn hafa sprautað hættulegum efnum í andlit eða á jafnaldra sína. Á mánudag varð tólf ára drengur fyrir fólskulegri árás þegar tveir strákar á líku reki sprautuðu startvökva í augu hans og andlit, eins og fram kom í blaðinu í gær.

Hún segir að dæmi séu þess að hreingerningarbrúsum hafi verið stolið af ræstivögnum í grunnskólum og þeir notaðir til þess að sprauta á önnur börn. Einnig séu dæmi um að börn hafi nálgast frostlög sem hafi verið notaður í sama tilgangi. Herdís bendir þó á að slíkt sé ekki mjög algengt hérlendis.

Hún segir að 12 ára börn eigi að vera orðin það skynsöm að þau eigi að gera sér grein fyrir afleiðingum gjörða sinna. Í tilfelli drengjanna tveggja hafi þeir kannski ekki gert sér grein fyrir efninu sem þeir sprautuðu á viðkomandi dreng.

Kvartað undan Strákunum

Hún segir í tengslum við þessa umræðu að foreldrar og kennarar hafi hringt í hana linnulaust og kvartað undan sjónvarpsþættinum Strákarnir, sem er sýndur á Stöð 2. "Fólk er að kvarta undan afbrigðilegri hegðun barna," segir Herdís en bætir því við að kennarar segist verða varir við meiri villimennsku í leikjum barnanna.

Hún segir einn kennarann hafa tjáð henni að þátturinn Strákarnir hafi verið mikið auglýstur áður en hann fór í loftið. Í einni auglýsingunni hafi einn strákanna verið tekinn kverkataki og þóttist hann falla í yfirlið. "Næsta dag var þetta gert í einum grunnskóla með þeim afleiðingum að viðkomandi hneig niður, missti meðvitund og fór í krampa. Og það þurfti að hringja á neyðarbílinn," segir Herdís og bætir því við að einnig hafi verið sýndar sjónvarpsauglýsingar, sem nú er búið að banna, þar sem hvatt hafi verið til prakkarastrika.

Afleiðingar prakkarastrikanna hafi verið þær að annars vegar hafi bifreið með konu innanborðs sprungið í loft upp og hinsvegar hafi kviknað í manni. Hún bendir á að ekki sé hægt að rekja þessa hegðun barnanna beint til sjónvarpsþáttarins eða auglýsinganna, en það sé þó ljóst að sjónvarpið sé gífurlega áhrifaríkur miðill og börn séu afar áhrifagjörn eins og ofangreint dæmi sýnir. Börnunum finnist þetta vera sniðugt en geri sér ekki almennilega grein fyrir afleiðingunum.

Þarf að endurskoða reglur varðandi sjónvarpsefni

Hún segir þörf á auknum umræðum um áhrif sjónvarpsefnis á börn og að það þurfi að endurskoða reglur varðandi sjónvarpsefni.

T.d. sé ekki hægt að banna sjónvarpsefni sem hafi áhrif á börn þannig að þau fari að herma eftir einhverri óæskilegri hegðun. Það sé hinsvegar hægt með sjónvarpsauglýsingar og vekur það furðu hjá Herdísi.