Fernando Alonso leggur af stað í æfingarakstur á Renault-bílnum sem komið hefur betur undan vetri en bílar flestra annarra liða. Fyrir vikið beinist athyglin að Renault-þórunum í Melbourne.
Fernando Alonso leggur af stað í æfingarakstur á Renault-bílnum sem komið hefur betur undan vetri en bílar flestra annarra liða. Fyrir vikið beinist athyglin að Renault-þórunum í Melbourne. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
RENAULTLIÐIÐ hefur fundið hjá sér ástæðu til að vara við of mikilli bjartsýni á gengi liðsins í Melbourne um helgina.

RENAULTLIÐIÐ hefur fundið hjá sér ástæðu til að vara við of mikilli bjartsýni á gengi liðsins í Melbourne um helgina. Þar sem ökuþórar þess voru oft meðal þeirra hraðskreiðustu við bílprófanir undanfarna mánuði og slógu jafnvel brautarmet eru þeir nú taldir sigurstranglegastir í kappakstri helgarinnar.

Bæði sérfræðingar um Formúlu-1 og keppinautar Fernando Alonso og Giancarlo Fisichella hafa útnefnt þá sem einkar sigurstranglega um helgina. Það er gert á grundvelli góðs og jafns árangurs keppnisbíla liðsins við vetrarprófanirnar.

R25-bíll Renault hefur ekki aðeins verið afburða fljótur á einum hraðahring heldur reynst fara einkar vel með dekkin í langakstri - en það er atriði sem getur átt eftir að ráða úrslitum í mótum vegna nýrrar dekkjareglu. Samkvæmt henni má ekki skipta um dekk í kappakstri sem hingað til; sami dekkjagangurinn verður að duga bæði seinni tímatökurnar og kappaksturinn.

Sakir reynslu þess fyrrnefnda og færni þess síðarnefnda eru Fisichella og Alonso af mörgum taldir eitt öflugasta ökuþórapar formúlunnar - ef til vill sagðir sem sveit standa aðeins að baki ökuþórapari McLaren.

Báðir ökuþórarnir hafa sagst einkar ánægðir með keppnisbílinn. Fara fullir sjálfstrausts til Melbourne og gera sér vonir um gott gengi þar. "R25-bíllinn er mikil framför frá bíl síðasta árs að öllu leyti. Einkum þó er jafnvægi að aftanverðu betra og stöðugra í langakstri sem þýðir að mun auðveldara er að halda stöðugum hraða keppnisleiðina út í gegn. Í fyrsta sinn á ferlinum fer ég til Melbourne með þá von í brjósti að ég keppi þar til sigurs," segir Fisichella.

Og Alonso bætir við: "Sjálfstraustið er miklu meira með þennan bíl milli handa miðað við bíl síðasta árs. Hann er auðveldur í meðförum og það er hægt að þenja hann til hins ýtrasta án þess að hann gerist hrekkjóttur í aksturhegðan í langakstri. Hann breytir sér lítið."

Eina óvissan sem þykir ríkja um Renault-bílinn varðar endingu hans. Liðið hefur orðið margsinnis fyrir bilunum við bílprófanir og tæknistjórinn Bob Bell játar við upphaf keppnistíðarinnar að þar gæti verið um brest að ræða í vígabrynju liðsins. "Við erum bjartsýnir á að okkur takist að brúa bilið í Ferrari. Þeirra hugsanlega góða forskot er endingartraust bílsins þar sem þeir tefla reyndum bíl fram í Melbourne," segir Bell.