— Ljósmynd/Jóhannes Long
KARLAKÓRNUM Fóstbræðrum hefur verið boðið að syngja á tónleikum í tilefni af 60 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna í Royal Albert Hall í London 16. október í haust.

KARLAKÓRNUM Fóstbræðrum hefur verið boðið að syngja á tónleikum í tilefni af 60 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna í Royal Albert Hall í London 16. október í haust. Tónleikarnir eru jafnframt góðgerðartónleikar til styrktar þúsaldarheiti Sameinuðu þjóðanna, um rétt allra barna heims til aðgangs að hreinu vatni. Á tónleikunum kemur fram fjöldi heimsþekktra tónlistarmanna, en búist er við því að meðal gesta verði nær eingöngu efnafólk og konungborið. Þetta er eina afmælishátíðin sem haldin verður af þessu tilefni í Evrópu.

Eyþór Eðvarðsson er formaður Fóstbræðra. "Forstjóri Sony í Evrópu, Chris Deering, er ágætis vinur kórsins, en er jafnframt formaður undirbúningsnefndar fyrir hátíðina. Hann hefur heyrt í okkur nokkrum sinnum, og það var fyrir hans tilstilli að okkur var sýndur sá heiður að vera boðið að vera með. Jón Ólafsson athafnamaður á líka sæti í nefndinni og lagði sitt lóð á vogarskálarnar til að af þessu gæti orðið."

Eyþór segir það í höndum Árna Harðarsonar kórstjóra Fóstbræðra að ákveða verkefni fyrir sönginn í Albert Hall. "Þarna verða listamenn frá öllum heimsálfum, við verðum þarna sem fulltrúar þjóðarinnar. Þeim sem ákváðu þetta finnst saga Íslands merkileg og lega landsins á mótum Ameríku og Evrópu, og þeir vilja að við syngjum íslensk lög."

Eyþór kveðst búast við því að hlutur Fóstbræðra á tónleikunum verði nokkuð stór, þar sem þeir verði fjögurra tíma langir. "Tónleikunum verður sjónvarpað beint um allan heim af BBC, og Sony tekur þá upp og gefur út á DVD diskum, sem verða seldir um allan heim. Ágóðinn af þeim rennur til þessa verkefnis Sameinuðu þjóðanna. Á tónleikunum verða þjóðhöfðingjar alls staðar að, og miðarnir verða seldir efnafólki, sem vill styrkja verkefnið."

Skömmu eftir tónleikana í London verða Fóstbræður gestgjafar eins fremsta karlakórs heims, YL kórsins í Helsinki, sem heldur tónleika hér í októberlok.