Þórarinn Brynjólfsson fæddist að Lækjarósi í Dýrafirði 10. maí 1911. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi hinn 26. febrúar síðastliðinn. Hann var fimmti í röð 12 barna hjónanna Sigríðar Guðrúnar Brynjólfsdóttur, f. 20.2. 1881, d. 17.1. 1971, og Brynjólfs Einarssonar, f. 8.8. 1874, d. 4.7. 1953. Sysktkini Þórarins eru: Elsta barnið fæddist andvana árið 1904; Einar, f. 4.6. 1906; Kristján, f. 20.9. 1907; Brynjólfur, f. 22.2. 1909; Ólína, f. 23.3. 1913; Sigríður Ingveldur, f. 24.6. 1914; Ármann, f. 27.5. 1917; Helgi, f. 6.10. 1918; Ingimundur, f. 9.5. 1920; Sveinn, f. 1.3. 1922; og Friðrik, f. 24.12. 1923. Þau eru nú öll látin nema yngsti bróðirinn, Friðrik. Hinn 18. desember 1943 kvæntist Þórarinn Guðrúnu Þurðíði Ingibjörgu Markúsdóttur frá Súgandafirði, f. 24.2. 1915, d. 7.12. 1972. Foreldrar hennar voru Markús Guðmundsson skipstjóri, f. 28.4. 1864 í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði, d. 26.7. 1944, og Vigdís Karvelsdóttir, f. 22.10. 1872 á Krossi, Barðaströnd, d. 24.8. 1939. Börn Guðrúnar og Þórarins eru: 1) Sigurdís Þóra, f. 11.5. 1944, maki: Karl Einarsson, f. 23.9. 1944. Börn þeirra eru: Már, f. 1977, og Sigríður, f. 1979, og á hún eina dóttur. Börn Sigurdísar Þóru og fyrrv. eiginmanns, Sverris Bergþórssonar, eru: Guðrún Björg, f. 1962, og á hún fjóra syni; Kolbrún Þóra, f. 1963, og á hún eina dóttur; Hörður, f. 1969, hann á eina dóttur. 2) Guðrún Þórarna, f. 15.5. 1945. Börn hennar og fyrrv. eiginmanns, Jóns Hauks Hermannssonar, f. 3.2. 1938, eru: Sigurrós Arna, f. 1964, og á hún eina dóttur; Þórarinn, f. 1968, og á hann þrjú börn; Hulda, f. 1972. 3) Eva, f. 12.9. 1948, maki Hafliði Magnússon, f. 16.7. 1935. Dætur hennar eru: Jóna Vigdís, f. 1965, og á hún sex syni; Una Rós, f. 1966, og á hún þrjú börn. 4) Ásta, f. 13.9. 1952, maki Eiríkur Jensson, f. 8.11. 1949. Börn þeirra eru: Vigfús, f. 1972, og á hann þrjár dætur; Orri, f. 1979; Þuríður, f. 1984.

Þórarinn ólst lengst af upp á Þingeyri. Hann vann við sveitastörf og það sem til féll eins og þá tíðkaðist, fór ungur til sjós og tók vélstjóraréttindanámskeið á Flateyri við Önundarfjörð árið 1933, 22ja ára gamall. Eftir það starfaði hann sem vélstjóri á fiskibátum, ýmist frá Flateyri eða Dýrafirði. Árið 1937 var hann á vertíð í Ólafsfirði og var á þeim sama báti í fjögur ár, en báturinn var leigður á fjórða árinu til Sandgerðis og Njarðvíkur. Árið 1941 fór Þórarinn vestur til Ísafjarðar þar sem hann réð sig á mótorbátinn Sædísi. Bjuggu þau Guðrún fyrst á Akranesi, síðan í Hafnarfirði en svo á Suðureyri frá 1947 til 1970 að þau fluttu í Kópavog. Þórarinn starfaði síðast við vélgæslu í Hraðfrystistöðinni í Reykjavík til ársins 1986.

Þórarinn verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

"Við sjáumst svo, afi minn," sagði ég þegar ég kvaddi þig síðast og þú svaraðir að bragði: "Ég veit það nú ekki." En þú vissir það og kannski vissi ég það líka að við vorum að kveðjast þarna í síðasta sinn. Á meðan ég sat hjá þér rifjaðir þú upp gamla tíma, þú hafðir yndi af því að segja sögur af lífinu fyrir vestan þegar þú varst ungur. Þú fórst með vísur og kvæði og lýstir landslagi og staðháttum í Dýrafirðinum. Augljóst var að á þeirri stundu varstu kominn þangað í huganum, á æskuslóðir - kominn heim. Við töluðum um orðatiltækið - heima er best - og komumst að því að þessum orðum fylgir svo mikill sannleikur. Það er gaman að fara að heiman um tíma og stundum nauðsynlegt, en sama hvar maður býr það er alltaf svo gott að koma heim. Ég vil líta á það, afi minn, að nú sértu kominn heim, þú ert kominn til hennar ömmu og hún hefur þurft að bíða lengi eftir þér. Ég vona að óskin þín um himnaríkið hinum megin hafi ræst og þið amma getið notið þess að vera saman á ný í dásamlegu paradísinni þar sem öllum líður vel.

Verið þið sæl. Nú held ég heim,

því hér er mér orðið kalt,

- mér er sama um borgina og blöðin

og bílana - og þess kyns allt.

Heima er miklu hreinna loft,

já, héðan á burt ég fer,

því blessuð sveitin mín bíður,

- hún bíður eftir mér.

(Jóhannes úr Kötlum.)

Jóna.