Miðhálendi | Tillögur um breytingar á svæðisskipulagi miðhálendisins liggja nú frammi til kynningar og tillaga að aðalskipulagi fyrir Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Tillögurnar fela í sér að náttúruverndarsvæðum er breytt í iðnaðar- og orkuvinnslusvæði.

Miðhálendi | Tillögur um breytingar á svæðisskipulagi miðhálendisins liggja nú frammi til kynningar og tillaga að aðalskipulagi fyrir Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Tillögurnar fela í sér að náttúruverndarsvæðum er breytt í iðnaðar- og orkuvinnslusvæði. Gert er ráð fyrir Norðlingaöldulóni í allt að 567,5 m y.s. og setlóni með veitu við Þjórsárjökul, við friðlandsmörkin austan við Arnarfell. "Verði þessar tillögur samþykktar er ljóst að náttúruverndargildi svæðisins verður spillt og fótunum verður kippt undan hugmyndum um stækkun friðlandsins og skráningu þess á heimsminjaskrá," segir í frétt frá Áhugahópi um verndun Þjórsárvera. Hópurinn boðar til fundar í Félagsheimilinu Árnesi næstkomandi sunnudag 6. mars kl. 13.

Áhugahópurinn vill með þessum fundi upplýsa um stöðu mála og hvetja einstaklinga til að senda athugasemdir til stjórnvalda vegna svæðis- og aðalskipulagstillaganna. Jafnframt verður á fundinum gerð grein fyrir stefnum vegna úrskurðar Jóns Kristjánssonar.

Á fundinum í Árnesi verður greint frá framþróun málsins og stöðu, sýndar verða myndir Jóhanns Ísberg úr Þjórsárverum og greint verður frá athugasemdum við auglýsta skipulagstillögu sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Nánari upplýsingar og hjálpargögn til að gera athugasemdir má finna á vefnum www.thjorsarverfridland.is.