Plaid hjólaði af krafti inn í raftónlistargeirann á sínum tíma og hefur fyrir löngu haslað sér þar völl.
Plaid hjólaði af krafti inn í raftónlistargeirann á sínum tíma og hefur fyrir löngu haslað sér þar völl.
Í KVÖLD verður mikið um dýrðir á Gauki á Stöng þar sem þungvigtarmenn úr raftónlistarheimum munu koma fram, og eru þeir jafnframt af ýmsum þjóðernum.

Í KVÖLD verður mikið um dýrðir á Gauki á Stöng þar sem þungvigtarmenn úr raftónlistarheimum munu koma fram, og eru þeir jafnframt af ýmsum þjóðernum. Helst ber að nefna Plaid frá Bretlandi, sem er einn af hornsteinum virtustu raftónlistarútgáfu í heimi, Warp. Þá kemur og fram okkar eigin Exos og Hea Rannik frá Eistlandi spilar, sem mun bera á borð nýjustu strauma frá Eystrasaltssenunni sem ku nokkuð öflug nú um stundir. Einnig koma fram plötusnúðar úr gus gus, Knob Fidlen (annar helmingur Midijokers) og Sk/um (Skurken og Prins Valium). Massaþétt kvöld eins og maðurinn sagði.

Blaðamaður heyrði stuttlega í Andy Turner, sem skipar Plaid ásamt Ed Handley, af þessu tilefni.

Eins og áður segir eru Plaid-liðar á mála hjá Warp og hafa verið í um fimmtán ár. Um tíma hljóðrituðu þeir ásamt Ken Downie sem Black Dog Productions en frá 1995 hafa þeir einungis sinnt Plaid. Nóg er að gera hjá félögunum, stöðugir túrar og endurhljóðblandanir auk plötuútgáfu sem er stöðug en síðasta breiðskífa, Spokes , kom út haustið 2003.

"Það er allt gott að frétta af okkur," segir Andy aðspurður. "Erum að vinna að nýrri breiðskífu í augnablikinu og erum einnig að vinna að mynddiski."

Hann segir að vissulega sé það óvanalegt að menn hangi svona lengi saman í raftónlistarbransanum.

"Okkur kemur greinilega svona vel saman, við erum góðir vinir og erum enn mjög áhugasamir um þessa tónlist okkar, finnst spennandi að skapa hana og semja." Andy segist eiga erfitt með að sjá einhverja þróun á list þeirra og vonar bara að þeir séu alltaf að bæta sig.

Plaid unnu með Björk á árabilinu 1995 til 1996, voru partur af hljómsveit hennar og unnu með henni tónlist. Andy segir að tildrög þess samstarfs hafi verið fremur óglansvæn, hann hafi einfaldlega hitt Björk á klúbbi í London einhverju sinni, þau hafi farið að spjalla um tónlist og fundið að þau ættu ýmislegt sameiginlegt.

"Við löguðum okkur svo að henni á þessum túr mætti segja. Þetta var skemmtilegt, heimsóttum t.a.m. lönd sem ég efast um að við hefðum nokkurn tíma heimsótt annars."

Andy segist ekki fylgjast grannt með íslenskri raftónlistarsenu en hafi þó fengið veður af því að hún væri ansi kröftug.

"Ég þekki hins vegar vel til Mugison og hans tónlistar. Ég er tengdur inn í fyrirtækið sem gefur hann út, Accidental, og er mjög hrifinn af því sem hann er að gera."

arnart@mbl.is

Höf.: arnart@mbl.is