Reykjavík | Borgarstjóri gaf það ótvírætt til kynna að það væri hennar vilji að flugvöllurinn færi, sagði Guðrún Jónsdóttir, formaður Samtaka um betri byggð, eftir að hafa átt fund með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur á miðvikudag.

Reykjavík | Borgarstjóri gaf það ótvírætt til kynna að það væri hennar vilji að flugvöllurinn færi, sagði Guðrún Jónsdóttir, formaður Samtaka um betri byggð, eftir að hafa átt fund með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur á miðvikudag. Sagði hún að tilefni fundarins hefði verið misvísandi skilaboð stjórnmálaflokka, sem m.a. stæðu að R-listanum, um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Nauðsynlegt hefði verið að fá skýr svör borgarstjóra um þetta mikilvæga mál.

Guðrún sagði að borgarstjóri hefði ekki nefnt neinar tímasetningar hvenær flugvöllurinn færi allur. Fulltrúar Samtaka um betri byggð, sem væru grasrótarsamtök sem berjast með því að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni, hefðu verið ánægðir með fundinn.

Í yfirlýsingu frá samtökunum er hins vegar lítil ánægja með nýja höfuðborgarstefnu Framsóknarflokksins, sem samþykkt var á flokksþinginu um síðustu helgi. Í ályktun flokksins segir að miðstöð innanlandsflugs eigi að vera áfram í Reykjavík.

Hagsmunum borgarbúa vikið til hliðar

"Framsóknarflokkurinn fótumtreður lýðræðið og gerir að engu niðurstöður kosningar um flugvöllinn árið 2001 þar sem niðurstaðan var að flugvöllurinn færi allur árið 2016," segir í yfirlýsingunni sem send var fjölmiðlum. Mikilvægum hagsmunum höfuðborgarbúa sé vikið til hliðar fyrir minni hagsmuni farþega í innanlandsflugi, og Framsóknarflokkurinn efni til skaðlegs ósættis milli íbúa á landsbyggð og í höfuðborg með það að markmiði að efla völd sín.

Guðrún sagði að með yfirlýsingunni væru samtökin að andmæla því hvernig Framsóknarflokkurinn, sem ætti aðild að R-listanum, tæki á þessu flugvallarmáli.