Citroën nefnir sinn bíl C1.
Citroën nefnir sinn bíl C1.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞRÍR smábílar eru frumsýndir á alþjóðabílasýningunni í Genf sem framleiddir eru undir merkjum þriggja bílaverksmiðja en byggðir á sameiginlegum undirvagni, fjöðrun og drifbúnaði, sem verksmiðjurnar komu sér saman um.

ÞRÍR smábílar eru frumsýndir á alþjóðabílasýningunni í Genf sem framleiddir eru undir merkjum þriggja bílaverksmiðja en byggðir á sameiginlegum undirvagni, fjöðrun og drifbúnaði, sem verksmiðjurnar komu sér saman um. Þetta eru bílar frá Peugeot-Citroën-samsteypunni, Peugeot 107 og Citroën C1, og sá þriðji er Aygo frá Toyota.

Eins og fyrr segir eru bílarnir byggðir á sama undirvagni en yfirbygging og innrétting eru ólíkar. Fram- og afturendar ólíkir, sömuleiðis sætin, innrétting og mælaborð. Það er kannski það skemmtilega við þessa framleiðslu að sjá á einu bretti hversu ólíkar leiðir hafa verið farnar í útlitinu. Með sameiginlegu átaki sem þessu spara framleiðendur miklar upphæðir við hönnun og ekki síður við fjárfestingu í sameiginlegri verksmiðjunni. Framleidd verða 100 þúsund eintök af hverjum bíl og fer framleiðsla þeirra allra fram í Kolin í Tékklandi. Má segja að hér keppi framleiðendurnir þrír kannski meira um nafn sitt og ímynd en sjálfan bílinn því grunnurinn er hinn sami, aðeins útlit og tilfinning verður ólík en allir eru þeir boðnir tvennra eða fernra dyra.

Toyota leggur mikið pláss á sínum bás undir Aygo og hefur þar að auki fengið þrjá listamenn til að skreyta bílana á mismunandi hátt. Í bílnum er þúsund rúmsentimetra þriggja strokka vél sem er 68 hestöfl og segja forráðamenn þetta léttustu bílvél á markaðnum í dag, 69 kg. Toyota segist stefna þessum bíl að enn yngri kaupendum en fyrirtækið hefur fram til þessa sótt á. Hjá Peugeot tekur 107 við af 106-gerðinni og er 25 sm styttri en hann, alls 3,43 m langur. Peugeot notar sömu vél og er í Aygo og framleidd hjá Toyota. Peugeot býður 1.400 rúmsentimetra og 54 hestafla dísilvél sem Peugeot-Citroën-samsteypan smíðar. Með dísilvélinni er aðeins fáanleg fimm gíra handskipting en með bensínvél er einnig sjálfskipting í boði.

Hjá Citroën C1 verða sömu vélar í boði og í Peugeot-bílnum. Er bensínvélin aðeins sögð eyða 4,6 l á 100 km í blönduðum akstri. Málin eru nánast hin sömu á bílunum nema hvað Citroën er örlítið hærri en hinir, 1,5 m, en hinir 1,46 m. Þá eru allir bílarnir búnir líknarbelgjum fyrir framsætin svo og hliðarbelgjum.