[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SAMSKIP hafa keypt hollenska flutningafyrirtækið Geest North Sea Line og liggur nærri að velta Samskipa tvöfaldist milli ára og verði nálægt 45 milljörðum króna í ár en kaupverðið er trúnaðarmál.

SAMSKIP hafa keypt hollenska flutningafyrirtækið Geest North Sea Line og liggur nærri að velta Samskipa tvöfaldist milli ára og verði nálægt 45 milljörðum króna í ár en kaupverðið er trúnaðarmál. Til samanburðar má nefna að velta Eimskips í fyrra var um 26 milljarðar króna. Eftir kaupin eru Samskip orðin þriðja stærsta gámaflutningafyrirtækið með vöruflutninga til og frá höfninni í Rotterdam, stærstu vöruflutningahöfn Evrópu og eitt stærsta gámaflutningafélag í siglingum innan Evrópu. Enginn íslenskur banki kom að ráðgjöf eða fjármögnun kaupanna heldur sá viðskiptabanki Samskipa í Hollandi, Fortis Bank, alfarið um ráðgjöf og fjármögnun vegna kaupanna en þau verða raunar einnig fjármögnuð með útgáfu nýs hlutafjár í Samskipum.

Geest verður rekið sem dótturfyrirtæki Samskipa og verður rekstur þess sameinaður gámaflutningastarfsemi Samskipa í Evrópu, undir nafni Geest, og munu allir stjórnendur Geest og starfa áfram hjá félaginu.

Um 60% af veltunni utan Íslands

Geest North Sea Line er með höfuðstöðvar í Rotterdam og rekur tólf skrifstofur á meginlandi Evrópu, í Bretlandi og á Írlandi og eru starfsmenn um 200. Samskip verða með 24 skip í föstum áætlunarsiglingum og 15 skip í öðrum verkefnum auk fjölda leiguskipa í tímabundnum verkefnum. Gámaeign félagsins meira en tvöfaldast við kaupin og mun félagið flytja um 800 þúsund gámaeiningar á ári. Þá fjölgar starfsmönnum um 20%, þeir verða hátt í 1.200, þar af um 500 erlendis og um 60% af heildarveltu Samskipa verða til vegna starfsemi utan Íslands. Skrifstofum félagsins fjölgar um 12 og verða 45 talsins í 19 löndum auk þess sem umboðsmenn eru starfandi um allan heim.

Við kaupin færast gámaflutningar Samskipa að undanskildum Íslandssiglingum til Geest en áfram verður unnið að þróun frystiflutninga hjá Samskipum erlendis.

Stofnað af hollenskum garðyrkjubændum

Geest North Sea Line er einkafyrirtæki sem á rætur að rekja til áranna eftir seinni heimsstyrjöld þegar þrír hollenskir garðyrkjubændur, van Geest-bræður, hófu siglingar yfir Ermarsund með varning sinn. Í áranna rás þróuðust matvælaframleiðsla Geest-fjölskyldunnar og skipasiglingarnar í ólíkar áttir og endanlega var skilið á milli starfseminnar þegar Geest-matvælafyrirtækið var skráð á verðbréfamarkað í Englandi árið 1986 en verið er að gera áreiðanleikakönnun vegna hugsanlegrar yfirtöku Bakkavarar Group á Geest í Bretlandi. Það er einn sona bræðranna, Jakob van Geest, stjórnarformaður Geest North Sea Line, og sá sem rekið hefur fyrirtækið á umliðnum árum, sem nú hefur selt Samskipum reksturinn.

Styrkir rekstrargrundvöllinn verulega

MEÐ kaupunum á Geest styrkir Samskip verulega rekstrargrundvöll félagsins á hinum kröfuharða Evrópumarkaði enda falli starfsemi félaganna vel saman og skörunin sé sáralítil. Þetta segir Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa. Hann segir engin skip vera inni í kaupunum á Geest, það sé rekið á sömu forsendum og Samskip, þ.e. skipin séu leigð. "Við erum að kaupa allan rekstur Geest, eigið fé þess, skrifstofuhúsnæði, fullt af gámum og bíla, tæki og tól, tölvubúnað, viðskiptavild o.s.frv."

Ólafur segir að með kaupunum verði til heildstætt þjónustunet. Samskip sé með sterka stöðu í flutningum til og frá Íslandi, í Skandinavíu og Eystrasaltslöndunum og áfram austur á bóginn en hafi verið að leita leiða til að efla starfsemina á Bretlandi og Írlandi, og einnig sunnar í álfunni.

"Það lá því beint við að hefja viðræður við eigendur Geest því þeir eru markaðsleiðandi í gámaflutningum í Vestur- og Suður-Evrópu til Bretlandseyja og sú starfsemi fellur mjög vel að okkar. Þeir hafa einnig sýnt mikið frumkvæði í þróun gámaflutninga, sem hefur skapað þeim ný sóknarfæri í þeirri hörðu samkeppni sem ríkir í þessum rekstri á meginlandinu."

Meiri sölukraftur

Spurður um samlegðaráhrif bendir Ólafur á að sölukraftur félagsins verði miklu meiri eftir kaupin og um leið vaxtarfyrirtæki Samskipa. Þá verði einnig hægt að fækka umboðsskrifstofum þar sem félögin hafi bæði haft starfsstöðvar.

"Við sjáum strax kostnaðarlækkanir í þessu þar sem við munum ná betri samningum á ýmsum sviðum. Og við sjáum ákveðnar leiðir í að innleiða nýjar lausnir fyrir íslenska markaðinn."

Ólafur segir að uppbygging okkar erlendis hafi verið framkvæmd af Íslendingum og þeir hafi verið frumkvöðlar. "En eftir að viðskiptin fóru að vera meira innbyrðis milli landa Evrópu höfum við ráðið heimamenn til starfa og það voru komnir heimamenn í flestar stjórnunarstöður nema í Hollandi."

Ólafur segir rekstur Geest hafa gengið vel á undanförnum árum, félagið hafi skilað hagnaði og ekki standi til að stokka rekstur þess upp. Hann segir vissulega alltaf einhverja vaxtarverki fylgja kaupum af þessari stærðargráðu. En Samskip hafi alltaf gert þetta í áföngum. "Í fyrra var lítið um uppkaup hjá okkur en árið áður keyptum við þrjú fyrirtæki. Menn þurfa að ná að vinna úr málunum, það þýðir ekki að kaupa bara og kaupa fyrirtæki. Og fyrst og síðast snýst þetta um stjórnendur og fólk. Menn þurfa að vera með gott fólk sem nálgast viðfangsefnin með réttu hugarfari. Og við erum með þannig fólk og gríðarlega kraftmikla stjórnendur."