Mörður Árnason
Mörður Árnason
Mörður Árnason skrifar um nýjan háskóla: "Akademískt frelsi... er háskólunum ekki aðeins eiginlegt heldur nauðsynlegt til að þeir geti náð árangri og gagnast samfélaginu."

NÝR háskóli verður bráðum til úr Háskólanum í Reykjavík og mestum hluta Tækniháskólans. Í raun er um það að ræða að meirihluti ríkisskólans THÍ er afhentur HR. Við vonum öll að þetta verði háskólastarfi á Íslandi til heilla, og þá auðvitað einkum á sviði tækni- og verkmenntunar. Þó getum við Samfylkingarmenn væntanlega ekki stutt það þingmál Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra sem að þessu snýr. Raunar er það einkum framganga ráðherrans sem veldur því að hér skuli ekki hafa skapast sú pólitíska samstaða sem æskileg er við mikilvægar breytingar í menntamálum.

Fernskonar vandi stendur í vegi slíkrar samstöðu.

Háeffaður háskóli

Nýi skólinn á að vera hlutafélag. Það mun vera einsdæmi í okkar heimshluta að velja það rekstrarform fyrir háskóla. Það form hentar vel til að reka fyrirtæki á markaði með hagnaðarvon fyrir augum en síður fyrir skóla og ennþá síður fyrir akademíska stofnun. Þetta hafa meðal annars bent á þeir Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, og Runólfur Ágústsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst. Þeir segja báðir að hlutafélagsformið geti skaðað akademískt frelsi í háskólastarfi. Slíkt frelsi sé háskólunum ekki aðeins eiginlegt heldur nauðsynlegt til að þeir geti náð árangri og gagnast samfélaginu.

Engin almennileg rök hafa komið fram sem sýni að þessum skóla hafi verið hlutafélagsformið svo bráðnauðsynlegt sem haldið er fram. Og hvernig á að draga úr þeirri hættu sem rektorarnir tveir benda á? Svar ráðherrans er að við eigum bara að treysta því góða fólki sem er að stofna skólann.

Við Samfylkingarmenn teljum það ekki alveg nóg. Við höfum því flutt breytingartillögu um að sjálfstætt-starfandi háskóla skuli reka sem sjálfseignarstofnun, og þar með sýnt vilja okkar í þessu efni.

Nemendur og kennarar nei takk

Af því skólinn á að vera hlutafélag hefði maður búist við sérstökum ráðstöfunum og varnöglum í samþykktum fyrirtækisins/skólans í tengslum við akademískt frelsi og áhrif kennara, starfsmanna og nemenda á skólastjórn og stefnu við fræðslu og rannsóknir. Í ljós kemur að ekkert hefur verið hugsað fyrir slíku. Stjórn fyrirtækisins - skipuð fulltrúum Verslunarráðs með 90% hlutafjár, Samtaka atvinnurekenda og iðnaðarins - er jafnframt háskólaráð nýja skólans. Fulltrúar kennara og annarra starfsmanna? Ekki til. Fulltrúar nemenda? Ekki til.

Um þetta hefur verið þráspurt á þingi en svör hvorki borist frá ráðherra né eigendum. Meira að segja menn ráðherrans í menntamálanefnd hafa áhyggjur af þessu en vona í nefndaráliti sínu að fyrir þetta finnist "eðlilegur farvegur". Einhverntíma seinna.

Samkeppni í tækninámi?

Í umræðu um þetta mál hefur margt verið sagt fagurt um nauðsynlega samkeppni háskólanna. Margt til í því - en sú undarlega staða blasir þó við að eftir stofnun hins nýja skóla hefur það gerst í samkeppnismálunum að heildarframboð tæknináms á háskólastigi á Íslandi er flutt frá opinberum háskóla án skólagjalda í ehf.-skóla með skólagjöldum.

Meira að segja Framsóknarflokkurinn rumskaði við þessi tíðindi. Dagný Jónsdóttir, hinn staðfasti talsmaður flokksins í menntamálum, hefur lýst því yfir að tæknigreinarnar eigi að kenna víðar og heldur að það sé í pípunum í ráðuneytinu. Ráðherrann hérumbil hló þá trú þingmannsins út af borðinu í umræðunum á þinginu. Dagný brást við sem sönn Framsóknarhetja: Hún ætlar samt að styðja frumvarpið.

Framtíðarsýn

Hið fjórða sem við höfum spurt sérstaklega eftir á þinginu er framtíðarsýn ráðherrans og ríkisstjórnarinnar í háskólamálum.

Ljóst er að nýi skólinn verður næststærsti háskóli landsins, með um 2500 nemendur strax næsta haust. Fram kom í umræðunum (Sigurður Kári Kristjánsson) að hann á að verða "mótvægi" við Háskóla Íslands. Við spurðum ráðherrann hvernig hann sæi þeta fyrir sér. Annarsvegar hinn nýi háskóli, sem fjársterkir, öflugir og vonandi duglegir eigendur reka með eigin fjármagni, ríkisfé og skólagjöldum (fjármögnuðum frá LÍN). Kenna þær greinar sem þeim sýnist hentugt og hagstætt hverju sinni, láta aðrar eiga sig. Hinsvegar Háskóli Íslands og ættingjar hans, einkum sá á Akureyri, sem búa við einar saman fjárveitingarnar frá skeytingarlítilli ríkisstjórn og meirihluta hennar á þinginu. Án skólagjalda eða annarrar sérstakrar fjáruppsprettu, og skylt að kenna allar hefðbundnar greinar, hvort sem það þykir hagfellt eða í tísku. Hver er líkleg niðurstaða í slíkri samkeppni, hæstvirtur menntamálaráðherra? Og hverjum er þetta eiginlega í hag þegar allt kemur til alls?

Svör ráðherrans voru einkar málefnaleg: Samfylkingarmenn eru asnar og þar að auki er allt í hassi hjá Reykjavíkurlistanum.

Bjartar vonir vakna

Þetta eru höfuðástæður þess að Samfylkingarmenn styðja ekki frumvarp ráðherrans við núverandi aðstæður. Ég vil hinsvegar óska hinum nýja skóla alls hins besta. Vonandi er síðar hægt að laga ýmsa þá ágalla sem einkenna nú stofnun skólans. Um það heitum við góðu samstarfi, bæði úr núverandi stjórnarandstöðu og ekki síður þegar fólkið í landinu hefur falið okkur forystu menntamála í ríkisstjórn.

Mörður Árnason skrifar um nýjan háskóla

Höf.: Mörður Árnason