Skottið er drjúgt í GTS og stækkanlegt upp í rúma 1.000 lítra.
Skottið er drjúgt í GTS og stækkanlegt upp í rúma 1.000 lítra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
OPEL hefur alla tíð boðið upp á aflmiklar útfærslur af helstu sölubílunum sínum, eins og t.d. Astra Coupe Turbo, og nú er að koma á markað 240 hestafla útgáfa af Astra OPC. Síðast en ekki síst býðst Vectra í GTS-gerð, með fimm mismunandi vélum.

OPEL hefur alla tíð boðið upp á aflmiklar útfærslur af helstu sölubílunum sínum, eins og t.d. Astra Coupe Turbo, og nú er að koma á markað 240 hestafla útgáfa af Astra OPC. Síðast en ekki síst býðst Vectra í GTS-gerð, með fimm mismunandi vélum. Ekki má heldur gleyma hreinræktuðum sportbílnum Speedster, sem skoða má þessa dagana í sal Ingvars Helgasonar hf.

Aflmesta gerð GTS er með 3,2 lítra V6-vél, sem skilar 211 hestöflum. Í þessari gerð er um að ræða aflmesta bílinn í vörulínu Opel enn sem komið er. Við prófuðum hins vegar á dögunum GTS-gerðina af Vectra með 2,0 l Turbo-vélinni.

Vectra er ekki alveg nýr bíll. Hann kom hins vegar gerbreyttur á markað árið 2002. GTS-gerðin er samt nýrri og kemur í fimm dyra útfærslu, þ.e.a.s. sem hlaðbakur. Prófunarbíllinn var á 18 tommu álfelgum og lágum en breiðum hjólbörðum, en staðalbúnaður með bílnum er hins vegar 16 tommu stálfelgur.

Sportlegur og mikið notagildi

Bíllinn er sportlegur á að líta í þessum búningi og þegar sest er inn í hann finnst að sportleg uppsetning er útgangspunkturinn. Sætin eru stíf og skorða líkamann vel þannig að manni finnst óhætt að fara hratt í beygjur. Kúplingin er samt ekki mjög sportleg og sennilega aðeins of mjúk, en sex gíra handskiptur kassinn er liðugur og frekar stutt er á milli gíra.

Miðað við venjulegan Vectra er GTS með 20 mm minni veghæð og sömuleiðis er stýringin nákvæmari. Vectra GTS er valkostur þeirra sem aðhyllast kraftmikinn og sportlegan akstur en gera um leið kröfu um mikið notagildi. Þetta er jú fimm manna fólksbíll í grunninn og með miklu og aðgengilegu farangursrými.

Nákvæm stýring - mikið afl

Vélin er tveggja lítra og fengin að láni frá systurfyrirtækinu Saab þar sem hana er að finna í Saab 9-3. Hún skilar 175 hestöflum og er hjartað í þessari sportlegu útfærslu af Vectra. Vélin er afar þýðgeng og lágvær hvinurinn frá túrbínunni er traustvekjandi. Aflið fer allt til framhjólanna sem gerir að verkum að það finnst fyrir því í gegnum stýrið, ekki síst þegar stigið er á inngjöfina í beygjum. Vandamál af þessu tagi finnast ekki í dýrari keppinautum, eins og t.d. BMW 3. Aflmiklir og sportlega uppsettir bílar ættu, að mati undirritaðs, helst vera afturhjóladrifnir en að öðrum kosti fjórhjóladrifnir. Vectra GTS er líka fremur léttur í stýringu en stýringin er engu að síður mjög nákvæm. Þá er það auðvitað mikill kostur að bíllinn er fremur stífur í fjöðrun og veggripið mikið. Þar nýtur hann góðs af IDS-kerfinu (Interactive Driving System), sem samræmir aðgerðir mismunandi hluta undirvagnsins, en kjarninn í kerfinu er þó nýjasta kynslóð stöðugleikakerfis Opel, sem kallast ESPPlus. Kerfið beitir hemlun á allt frá einu og upp í þrjú hjól til að draga úr hættu á undirstýringu og auka stöðugleika bílsins í beygjum.

Í heild eru aksturseiginleikar Vectra GTS virkilega góðir og það er alltaf spennandi að setjast undir stýrið í þessum bíl.

Ekki eftirtektarvert upptak

Vectra GTS 2.0 vegur 1.375 kg og því bara í meðallagi þungur miðað við stærð og búnað. Engu að síður er upptakið ekki nema 9,1 sekúnda úr kyrrstöðu í 100 km, sem náttúrulega hlýtur að teljast fremur svifaseint af sportútfærslu af stórum millistærðarbíl. Þetta er reyndar tala sem kemur nokkuð á óvart því bíllinn virkar mun sprækari í allri notkun. Engu að síður virðist það vera fylgifiskur Opel-bíla að vera fremur hægir upp en þeim mun skemmtilegri í millihröðun og togi. Hins vegar má til sanns vegar færa að það er millihröðunin sem er aðal þessa bíls enda er vélin togmikil, 265 Nm við 2.500 snúninga. Hún skilar jafnri og þéttri vinnslu í gegnum alla gírana og bíllinn er hinn vakrasti jafnt í þéttri borgarumferð sem úti á þjóðvegunum.

Að innan er bíllinn fremur hefðbundinn en þó með skemmtilega sportlegum mælum og ökumaður finnur sig vel undir stýri. Stefnuljós eru með akreinaljósi (með því að snerta stefnuljósaarminn létt blikkar stefnuljósið þrisvar og fer síðan af). Innbyggð hljómtæki með geislaspilara eru í bílnum og í prófunarbílnum voru líka MP3-spilari, aksturstölva og skjár fyrir miðstöðina. Þetta er þó ekki meðal staðalbúnaðar bílsins.

Fremur hagstætt verð

Skemmst er frá því að segja að viðmót þessa kerfis var með þeim hætti að undirritaður gafst upp á að nota það. Þrátt fyrir ítrekaða leit og tilraunir komst hann ekki inn í aksturstölvuna og þarna er fólgin gestaþraut sem varasamt getur verið að reyna að leysa meðan á akstri stendur. Einfaldara kerfi er það sem Opel ætti að huga að þegar bíllinn verður endurnýjaður.

Þrátt fyrir þessa annmarka er Opel Vectra GTS bíll sem gleymist ekki svo auðveldlega þegar menn hafa einu sinni prófað hann. Hann hefur aflið og útlitið með sér og jafnframt sportlega fjöðrun og mikið grip. Síðast en ekki síst er bíllinn á fremur hagstæðu verði miðað við afl. Hann kostar 2.680.000 kr., að vísu ekkert sérstaklega mikið búinn; fremur hrár en aflmikill.

gugu@mbl.is