BRESKA snyrti- og heilsuvörukeðjan Boots hefur greint frá því að sala fyrirtækisins eftir jólaverslunina hafi orðið minni en gert var ráð fyrir og í frétt The Daily Mail segir að aðrar verslunarkeðjur hafi á undanförnum vikum gefið í skyn að nú séu...

BRESKA snyrti- og heilsuvörukeðjan Boots hefur greint frá því að sala fyrirtækisins eftir jólaverslunina hafi orðið minni en gert var ráð fyrir og í frétt The Daily Mail segir að aðrar verslunarkeðjur hafi á undanförnum vikum gefið í skyn að nú séu erfiðir tímar í smásöluverslun.

Blaðið segir að Boots-keðjan, sem um nítján milljónir manna versli í í hverri viku, sé ágætur mælikvarði á neysluhegðun almennings í Bretlandi. Ljóst sé að áhrifa vaxtahækkana í fyrra, sem að öllu jöfnu hefðu ekki átt að koma fram fyrr en eftir hálft ár, sé þegar farið að gæta í smásöluversluninni.

Gengi bréfa í Somerfield hækkaði um eitt pens eða í 190 pens á þriðjudaginn vegna orðróms um að Baugur væri tilbúinn að leggja fram yfirtökutilboð í Somerfield upp á 210 pens hlutinn. Gengið lækkaði hins vegar í 187,5 pens á miðvikudag og enn frekar í gær eða í 186 pens. Daily Mail hefur eftir heimildarmönnum í smásölugeiranum að samdráttur sé í sölu flestra stærstu verslunarkeðjanna, þ.á m. hjá Marks & Spencer, Next, Bhs og Arcadia og að samdrátturinn komi í kjölfar lélegrar jólaverslunar.

"Somerfield - sem Baugur, verðbréfafyrirtæki og fasteignajöfurinn Robert Tchenguiz hafa haft augastað á - getur fyrr en varir lent í þeirri stöðu að enginn sýni fyrirtækinu áhuga.

Neytendur eru að verða stöðugt vandfýsnari hvernig þeir eyða peningunum sínum. Það væri heimskulegt af fjárfestum að fara ekki að dæmi þeirra," segir í fréttinni.

Haft er eftir sérfræðingi á smásölumarkaðinum hjá verðbréfafyrirtækinu Seymor Pierce að tilkynning Boots um minni sölu geti dregið úr áhuga banka á því að fjármagna frekari yfirtökur í smásölugeiranum í Bretlandi.