Fundur Reykjavíkurborgar um áhrifamátt forvarna var afar vel sóttur. Fundurinn var haldinn í Tjarnarsal Ráðhússins. Meðal þeirra sem sjá má í fremstu röð eru Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs, og Marsibil Sæmundsdóttir, formaður forvarnarnefndar borgarinnar.
Fundur Reykjavíkurborgar um áhrifamátt forvarna var afar vel sóttur. Fundurinn var haldinn í Tjarnarsal Ráðhússins. Meðal þeirra sem sjá má í fremstu röð eru Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs, og Marsibil Sæmundsdóttir, formaður forvarnarnefndar borgarinnar. — Morgunblaðið/Jim Smart
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Forvarnarstarf ber marktækan árangur. Þetta er niðurstaða heildarúttektar á forvarnarstarfi Reykjavíkurborgar á árunum 1997-2003, sem unnin var sl.

Forvarnarstarf ber marktækan árangur. Þetta er niðurstaða heildarúttektar á forvarnarstarfi Reykjavíkurborgar á árunum 1997-2003, sem unnin var sl. sumar, og kynnt var á fjölmennum opnum fundi sem forvarnarnefnd, íþrótta- og tómstundaráð, velferðarráð og menntaráð Reykjavíkurborgar stóðu fyrir í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í gær.

Inga Dóra Sigfúsdóttir, hjá Rannsóknum og greiningu og forseti kennslufræði- og lýðheilsudeildar HR, benti í framsögu sinni á að mikið frumkvöðlastarf hefði verið unnið á síðustu árum, en árið 1997 tóku rannsóknaraðilar og þeir sem ábyrgð bera á stefnumótun sig saman og ákváðu að móta stefnu og hefja markvisst starf byggt á traustum rannsóknum með það að markmiði að draga úr neyslu vímuefna meðal unglinga. Minnti Inga Dóra á að á þessum tíma hafi menn staðið frammi fyrir ákveðnum vanda þar sem neyslan hafði aukist allan tíunda áratug síðustu aldar og var svo komið að íslenskir unglingar voru í hópi þeirra sem neyttu áfengis hvað oftast. Þannig var Ísland, samkvæmt rannsóknum ESPAD árið 1995, fimmta hæst á lista yfir hlutfall nemenda í 10. bekk sem höfðu orðið drukknir tíu sinnum eða oftar síðustu tólf mánuði fyrir könnun, mældust 21%, samanborið við 32% hjá Dönum sem voru með hæsta hlutfallið. Hvað hlutfall tíundu bekkinga sem lent höfðu í slysum eða meiðslum vegna áfengisneyslu var það 14% hérlendis, en aðeins Bretar voru með hærra hlutfall, eða 17%.

Að sögn Ingu Dóru var farið í rannsóknarvinnu til að greina helstu áhættuþætti svo hægt væri að vinna markvisst starf í þágu barna og ungmenna. Sérstök áhersla var lögð á að styrkja nærsamfélagið kringum börn og unglinga. Var það m.a. gert með því að ná til foreldra með skilaboðum um mikilvægi þess að þeir verðu meiri tíma með börnum sínum, fylgdust betur með þeim og settu skýrar reglur um útivistartíma.

Samverustundir með foreldrum lykilatriði

Inga Dóra bendir á að samkvæmt úttektinni sem gerð var í sumar kemur í ljós að forvarnarstarf síðustu ára hefur skilað verulegum árangri. Þannig hefur drykkja minnkað úr 44% árið 1998 í 26% árið 2004, reykingar hafa dregist saman úr 23% árið 1998 í 13% árið 2004 og hassneysla minnkað úr 21% árið 1998 í 11% árið 2004. Hvað alþjóðlegan samanburð varðar sýnir ESPAD-könnun frá 2003 að hlutfall tíundu bekkinga sem drekka hefur minnkað úr 21% í 14% og hlutfall sama árgangs sem verður fyrir slysum eða meiðslum vegna áfengisneyslu hefur minnkað úr 14% í 4%. Að sögn Ingu Dóru er þróunin hérlendis marktækt frábrugðin því sem gerist víða erlendis þar sem neyslan hefur ýmist staðið í stað eða aukist.

Í máli Ingu Dóru kom fram að þó að hlutverk foreldra væri greinilega mikilvægt ykist vægi jafningjahópsins með aldri barna og hann væri áhrifamikill þáttur í lífi unglinga. Sagði hún þó greinilegt að eftirlit foreldra dragi úr hættu á neyslu. "Eitt af því sem mikilvægt er að hafa í huga í því sambandi er að magn þess tíma sem foreldrar verja með börnum sínum skiptir miklu máli. Þannig virðist greinilega ekki nóg að hamra á því að eyða gæðatíma með börnum sínum, tímamagnið skiptir ekki síður máli."

Að mati Ingu Dóru gefa niðurstöðurnar til kynna að Reykjavíkurborg hafi með starfi sínu síðustu ár unnið verulegan sigur í baráttunni við vímuefni. Hún tók fram að enn væru þó sóknarfæri. Þannig væri mikilvægt að efla enn frekar faglegt tómstundastarf og huga enn betur að samstarfi foreldra og skóla. "Þetta hefur verið samhent átak fjölmargra aðila sem leiðir í ljós að við getum haft áhrif ef við vinnum þetta vel og byggjum stefnuna á traustum rannsóknum."

Í framsögu Bryndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur, hjá Rannsóknum og greiningu, kom fram að árangur forvarnarstarfsins er mismunandi eftir hverfum borgarinnar. Lagði hún áherslu á að ekkert hverfi væri eins og að mikilvægt væri sem næsta skref að greina styrkleika og veikleika hvers hverfis fyrir sig svo hægt væri að sérsníða áætlun fyrir hvert hverfi. Kom fram að á næstunni er fyrirhugað að kynna niðurstöður hvers hverfis fyrir sig á sérstökum hverfafundum í því skyni að fá gagnlegar ábendingar frá borgarbúum.