TINDASTÓLL sigraði Snæfell með 96 stigum gegn 94, í Intersport-deildinni, í Stykkishólmi í gærkvöldi.

TINDASTÓLL sigraði Snæfell með 96 stigum gegn 94, í Intersport-deildinni, í Stykkishólmi í gærkvöldi. Strákarnir úr Skagafirðinum mættu í Hólminn afslappaðir og yfirvegaðir, liðið fallið úr úrvalsdeildinni fyrir nokkru, svo leikinn gátu þeir leikið fyrir stoltið og ánægjuna. Ekki var hægt að segja það sama um Hólmarana, liðið sem er öruggt í öðru sæti deildarinnar, það vantaði allan vilja og einbeitingu. Í Hveragerði lagði ÍR lið heimamanna að velli og tryggði sér sjötta sæti deildarinnar.

Það sást strax á upphafsmínútum leiksins í hvert stefndi, leikmenn Snæfells voru með hangandi hendi og greinilegt vanmat á andstæðingunum var í hugum þeirra.

Gestirnir skoruðu fyrstu stigin og höfðu forustuna frá upphafi til enda ef undanskilin er forusta heimamanna 11:8. Varnarleikur Snæfells var á stórum köflum mjög dapur og það notfærðu gestirnir sér að fullu með mjög góðri hittni. Tindastóll náði góðum spretti í lok fyrri hálfleiks, þar sem Svavar Birgisson fór á kostum, og gestirnir höfðu 16 stiga forustu í leikhléi.

Í þriðja fjórðungi hélt áfram sami léttleikinn hjá gestunum sem náðu mest tuttugu stiga forskoti og enn var Svavar Birgisson fremstur í flokki með fjórar þriggja stiga körfur í leikhlutanum. Í lokaleikhlutanum reyndu heimamenn allt sem þeir gátu til að jafna leikinn, hertu á vörninni og keyrðu upp hraðann og tókst að minnka muninn niður í eitt stig þegar hálf mínúta var eftir. Tindastóll reyndist þó eiga meira eftir í lokin, í þessum hraða fjórðungi og unnu með tveggja stiga mun.

Það verður eftirsjá af Tindastól úr úrvalsdeildinni á næsta ári, en það eru að nálgast tveir áratugir síðan liðið kom upp í efstu deild. Snæfell hinsvegar þarf að hysja upp um sig buxurnar eftir þennan leik og fara að undirbúa sig af krafti fyrir úrslitakeppnina sem hefst í næstu viku, ef liðið ætlar sér eitthvað meira, sem er ekki nokkur vafi á. Liðið hefur alla burði til að fara langt í úrslitakeppninni, en til þess þurfa leikmennirnir að þjappa sér saman og láta þennan leik sér að kenningu verða.

Í lið Snæfells stóðu Sigurður Á. Þorvaldsson og Pálmi F. Sigurgeirsson upp úr, báðir með ágætan leik. Hlynur Bæringsson drjúgur að vanda en vantar að taka að sér meira forustuhlutverk í liðinu. Miklu meira þarf að koma út úr Ingvaldi Magna Hafsteinssyni, Calvin Clemmons og Mike Ames í úrslitakeppninni. Helgi Reynir Guðmundsson átti þokkalega spretti í leiknum.

Hjá Tindastól lék Svavar Birgisson skínandi vel og réðu heimamenn ekkert við hann. Svavar skoraði alls átta þrista í leiknum og var með frábæra nýtingu. Tindastóll var með alls 15 þriggja stiga körfur í leiknum. Bethuel Fletsher lék mjög vel, stjórnaði sóknarleik liðsins og var mjög ógnandi. Brian Thompson og David Aliu léku prýðilega, seigir bæði í vörn og sókn.

ÍR tók á því í lokin

ÍR lagði Hamar/Selfoss, 87:89 í æsispennandi leik á Selfossi í gærkvöldi. Heimamenn byrjuðu þó mun betur og í hálfleik leit út fyrir að þeir myndu landa sigri, en þá var staðan 56:39 fyrir Hamar/Selfoss. ÍR tók síðan öll völd í seinni hálfleik og snerist taflið algerlega við. ÍR hafnaði í 6. sæti með 24 stig og mun því mæta Njarðvík í úrslitakeppninni. Hamar/Selfoss endaði hins vegar í 10. sæti með 16 stig en liðið kemst nú í fyrsta sinn ekki í úrslitakeppnina síðan það komst upp í úrvalsdeildina.

"Þetta leit ekki vel út hjá okkur í fyrri hálfleik en það var um klárt vanmat að ræða hér í kvöld. Það var eins og menn teldu sig ekki þurfa að taka á því, við settum í hlutlausan og ætluðum að rúlla okkur í gegnum leikinn. Það verður hins vegar að taka á því til að vinna leiki, hvort sem liðin, sem spilað er gegn, eru í neðri hluta deildarinnar eða þeim efri. Þegar við gerðum það fórum við að saxa á forskotið. Við sýndum tvær hliðar á okkur í kvöld, þá lélegu og þá góðu. Við þurfum að eiga fleiri hálfleiki eins og þann seinni hér í kvöld," sagði Eggert Maríusson, þjálfari ÍR, eftir leikinn.

Spurður um úrslitakeppnina sagði hann að hún yrði erfið. "Við eigum Njarðvíkinga, en ég var bara að heyra að þeir hefðu rekið Kanana í gær og núna gætu komið tveir nýir til þeirra og þeir leikmenn eru algert spurningarmerki. Við höfum núna viku til að skoða Njarðvíkingana vel og finna veikleika þeirra."

Hjá ÍR var Grant Davis hrikalega öflugur með 21 stig, 16 fráköst og 3 stoðsendingar. Eiríkur Önundarson hrökk í gang í seinni hálfleik, en Theo Dixon lenti í villuvandræðum og var ekki með síðari hluta fjórða leikhluta.

"Við spiluðum glimrandi vel í fyrri hálfleik en ekki í seinni hálfleik. Þetta er í fyrsta sinn sem liðið kemst ekki úrslitakeppnina, en það er nú enginn heimsendir," sagði Pétur Ingvarsson, þjálfari.

Ríkharður Hrafnkelsson skrifar