Loðnulöndun Gunnar Sævarsson og Haukur Hauksson, skipverjar á Bjarna Sveinssyni ÞH, voru ánægðir enda skipið með um 1.150 tonn.
Loðnulöndun Gunnar Sævarsson og Haukur Hauksson, skipverjar á Bjarna Sveinssyni ÞH, voru ánægðir enda skipið með um 1.150 tonn. — Morgunblaðið/Örn Þórarinsson
ÞAÐ var líf og fjör við höfnina í Siglufirði sl. þriðjudag þegar loðnuskipin fóru að koma inn til löndunar.

ÞAÐ var líf og fjör við höfnina í Siglufirði sl. þriðjudag þegar loðnuskipin fóru að koma inn til löndunar. Byrjað var að landa úr Áskeli klukkan sex um morguninn og á eftir fylgdu Súlan EA, Bjarni Sveinsson ÞH og Guðmundur Ólafur ÓF og von var á einu skipi til viðbótar um nóttina. Þetta var kærkomið bæði fyrir Síldarvinnsluna og Siglfirðinga almennt sem þótti sinn hlutur í loðnuvertíðinni, 18.500 tonn, til þessa heldur rýr.

Á löndunargenginu á Óskarsbryggjunni var að heyra að þeir vonuðust eftir að fá nokkra skipsfarma á næstu dögum, a.m.k. meðan loðnan heldur sig út af Vestfjörðum.

Loðnuaflinn á vertíðinni er nú orðinn rúm 490 þúsund tonn, þar af veiddust um 40 þúsund tonn á sumar- og haustvertíð. Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu hafa um 30 þúsund tonn verið unnin úti á sjó á vertíðinni. Auk þess hafa erlend skip landað hérlendis um 32 þúsund tonnum á vertíðinni. Samkvæmt upplýsingum Samtaka fiskvinnslustöðva hefur um þriðjungi loðnuafla vertíðarinnar verið landað á þremur Austfjarðahöfnum; um 59 þúsund tonnum í Neskaupstað, 54 þúsund tonnum á Seyðisfirði og um 53 þúsund tonnum á Eskifirði.