Ingólfur S. Ingólfsson fæddist á Akranesi 31. desember 1928. Hann lést laugardaginn 26. febrúar síðastliðinn. Faðir hans var Ingólfur Sigurðsson, f. í Nýjabæ í Innri-Akraneshreppi 2. nóvember 1891, d. 6. febrúar 1954. Móðir hans var Kristín Ingunn Runólfsdóttir, f. í Króki í Flóa í Árn. 14. nóv. 1894, d. 12. desember 1975. Systkini Ingólfs eru: Ragnheiður Arnfríður, f. 1920, látin; Jón, f. 1925, látinn; Guðrún, f. 1927; Inga, f. 1929; Ingólfur Arnar, f. 1931, látinn; Svandís, f. 1932, látin; Runólfur Viðar, f. 1933, látinn; Lóa, f. 1934; og Ragnar, f. 1936.

Hinn 13. nóvember 1954 kvæntist Ingólfur Vilhelmínu Sigríði Böðvarsdóttur, f. 13. júní 1932. Börn þeirra eru: 1) Ragnhildur, f. 12. október 1954, klæðskeri, búsett í Danmörku, sambýlismaður Peter W. Petersen, f. 15. september 1949, dóttir Sædís Ragnhildardóttir, f. 10. janúar 1975, nemi, búsett í Danmörku, dóttir hennar Martina Agrillo, f. 18. mars 1998. 2) Ingólfur, f. 13. desember 1955, vélfræðingur á Akranesi, kona hans er Ragnheiður Björg Björnsdóttir, f. 9. október 1956, hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra eru: Ingólfur, f. 24. júní 1979, háskólanemi í Danmörku, í sambúð með Fjólu Jóhannsdóttur; Berglind, f. 24. nóvember 1981, nemi í Listaskólanum á Akureyri; Arnar, f. 30. ágúst 1988, framhaldsskólanemi. 3) Ásdís, f. 6. september 1958, framhaldsskólakennari í Reykjavík, eiginmaður hennar er Haraldur Jónsson, f. 15. júní 1960, verslunarmaður. Börn þeirra: Steindór, f. 22. apríl 1986, framhaldsskólanemi, Laufey, f. 4. apríl 1992. 4) Bergþóra, f. 4. mars 1962, héraðsdómslögmaður. Börn hennar eru Kormákur, f. 22. mars 1983, háskólanemi, Iðunn, f. 13. október 1989. 5) Stefán, f. 23. nóvember 1965. Börn hans eru: Matthías, f. 24. febrúar 1986, framhaldsskólanemi, Stefán Laurence, f. 28. júní 1988, Vaka, 24. janúar 2000. Dóttir Ingólfs með Jónheiði Petru Björgvinsdóttur, f. 25. janúar 1922, d. 23. desember 2001, er Inga Stefanía, f. 6. nóvember 1951. Börn hennar eru: A) Heiðar Már, f. 18. febrúar 1971, dóttir hans er Bissan Inga, f. 3. október 1997. Sambýliskona Heiðars Más er María Jónsdóttir. B) Brynja Eir, f. 22. október 1973, sambýlismaður Guðmundur Snær Guðmundsson, synir þeirra eru: Andri Snær, f. 24. júní 1995, Snæþór Ingi, f. 2. september 2000, og Tristan Már, f. 13. nóvember 2003. C) Ingólfur Þór, f. 2. desember 1974. Sambýliskona hans er Sigurlína Freysteinsdóttir. D) Ingi Anton, f. 3. mars 1986.

Ingólfur lauk námi frá Iðnskólanum í Keflavík árið 1949 og stundaði síðan nám í vélsmíði í vélsmiðju Ó. Ólsen í Ytri-Njarðvík. Hann lauk sveinsprófi í vélvirkjun árið 1950 og námi úr Vélskóla Íslands árið 1953. Hann starfaði sem vélstjóri í Rafstöðinni við Elliðaár frá árinu 1953 til 1968. Ingólfur var forstöðumaður skrifstofu Vélstjórafélags Íslands árin 1968-70 og formaður félagsins frá 1970 til 1983. Hann var forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins eitt kjörtímabil, sat í verðlagsráði sjávarútvegsins og í stjórn lífeyrissjóðsins Hlífar. Ingólfur var kjörinn heiðursfélagi í Vélstjórafélagi Íslands árið 1984 og heiðraður á sjómannadegi árið 1997.

Ingólfur hafði nokkur afskipti af stjórnmálum og var félagi í Alþýðubandalaginu.

Ingólfur verður jarðsunginn frá Háteigskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Frá því ég var lítil hefur hann verið hetjan mín. Sterkur, fyndinn, skjóthuga og snjall. Hugsjónamaður sem vildi bæta kjör, auka jafnrétti, vernda náttúruna og bæta heiminn. Kröfuharður við sjálfan sig og aðra en oftast réttsýnn.

Hann tók á móti öllum opnum örmum. Stundum orðmargur í sögunum af systkinunum í Björk sem léku sér á háaloftinu. Í sögunum af mannlífi á Akranesi og í Njarðvíkum þar sem voru bakaðar heimsins þynnstu pönnukökur.

Hann var virtur fyrir störf sín í þágu sjómanna. Þótti snjall samningamaður og fastur fyrir. Vinstrisinnaður baráttumaður. Á hverju ári skyldi farið í kröfugöngu á 1. maí. Sem unglingur var ég stolt af því að eiga slíkan föður.

Síðla árs 1982 fær hann áfall, hjartað stoppar og honum er vart hugað líf. Liggur í dái dögum saman en hefur betur og snýr til nýs lífs. Breyttur, skaddaður en ekki bugaður hélt hann áfram, teinréttur á nýjum vettvangi. Batinn var ótrúlegur. Hann lærði allt að nýju, fann í huga sér minningar sem höfðu týnst. Rifjaði upp bátaflotann einn daginn og hluta úr æsku sinni annan dag. Æfði sig í að baka og elda og bætti við fyrri þekkingu. Gekk til vinnu sinnar hvern morgun. Í byggingarvinnu í nokkur ár og síðar í Múlalundi. Snyrtilegur eins og ætíð sinnti hann sínu, vann fram yfir sjötugt.

Þegar barnabörnin komu í heimsókn tókst hann á loft af gleði. Hann fylgdist stoltur með skólagöngu þeirra og áhugamálum. Brýndi fyrir þeim að menntun væri mikilvæg. Hvatti þau og var þeim yndislegur afi.

Fyrir tæpum tveim árum fluttu þau mamma í nýja íbúð í Hafnarfirði. Eins og ævinlega var pabbi jákvæður. Nú var farið í strætó til Reykjavíkur eða fótgangandi í Fjörðinn. Hann var ánægður að vera í grennd við Hrafnistu þar sem hann hitti gamla félaga og nýtt fólk.

Ævi hans skiptist í tvo ólíka kafla, tvö líf. Hann stóð af sér áföll án þess að brotna, án þess að missa virðinguna og handtakið var traust allt þar til meðvitund þvarr.

Ég er stolt af því að hafa átt slíkan föður.

Hvíl þú í friði, pabbi minn.

Ásdís.

Ingólfur Sigurðz Ingólfsson, mágur minn, fæddist í Skaganum, nú Akraneskaupstað, 31. desember 1928 og ólst þar upp í tíu systkina hópi fram yfir fermingu en fluttist 14 ára gamall suður í Njarðvíkur og stundaði þar iðnnám í vélsmiðju Ol. Olsens 1946-1950 og bóklegt nám í Iðnskóla Keflavíkur 1948-1949.

Að loknu sveinsprófi í vélvirkjun 1950 hóf Ingólfur nám í Vélskólanum í Reykjavík. Vélstjóraréttindi hlaut hann tveim árum síðar og lauk loks prófi úr rafmagnsdeild 1953. Prófaárangur reyndist lofsamlegur og jafnframt þótti Ingólfur traustur og vandaður fagmaður.

Lífsbaráttan krafðist allrar atorku mannsins svo enginn tími vannst til tómstundaiðkunar ellegar slórs.

Tengsl við ættingja og vini á Akranesi rofnuðu að mestu er Ingólfur gerðist Suðurnesjamaður og öðru sinni er hann flutti til Reykjavíkur vegna vélstjórnarnámsins.

Árið 1953 hóf Ingólfur störf í rafstöðinni við Elliðaár og á næsta ári festi hann ráð sitt, kvæntist Vilhelmínu Sigríði Böðvarsdóttur húsmæðrakennara 13. nóvember 1954. Þau eignuðust fimm börn á röskum áratug, 1954-65. Fyrir átti Ingólfur dóttur sem fæddist 1951.

Auk fastavinnu í rafstöðinni vann Ingólfur aukastörf sem til féllu og vann að smíði íbúðar í Safamýri 13 sem varð heimili fjölskyldunnar meðan börnin uxu úr grasi.

Ingólfur vann í Rafstöðinni fram á ár 1968 og á þeim tíma hófust félagsmálaafskipti hans. Hann sat í stjórn Vélstjórafélags Íslands 1961-1967, varð forstöðumaður á skrifstofu félagsins 1968-1970 og í kjölfar þess formaður Vélstjórafélags Íslands 1970-1983.

Á því skeiði hlóðust á hann önnur félagsstörf. Hann var forseti Farmanna- og fiskimannafélags Íslands eitt kjörtímabil og átti um árabil sæti í stjórn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, Verðlagsráði sjávarútvegsins og stjórn lífeyrissjóðsins Hlífar. Hann var kjörinn heiðursfélagi Vélstjórafélags Íslands 1984.

Á starfsvettvangi Ingólfs var löngum snarplega deilt. Þung orð voru oft látin falla. Ingólfur var maður skapríkur og hefur án efa á fundum fylgt málstað sínum fram af hörku og rökvísi. En hann kunni bæði að gera mun á málefnum og mönnum og að halda hverri deilu innan þess vettvangs sem hún varðaði.

Fyrir kom að ég heyrði Ingólf mæla hnjóðsyrði um mál honum mótdræg - en aldrei um mótstöðumennina.

Streita hefur fylgt ýmsum átakamálum sem Ingólfur glímdi við á formannsárum sínum en hann duldi svo að fáum var um kunnugt.

Bjart virtist framundan, fjárhagsáhyggjur engar og barnauppeldi að mestu að baki þegar ógæfan brast á. Ingólfur fannst meðvitundarlaus við bifreið sína þar sem hann hafði verið að skipta um dekk. Maður, sem ekki vildi upplýsa heiti sitt, blés í hann lífi. Við tók löng sjúkdómssaga. Fyrst var tvísýnt um líf en síðan tók við áralöng barátta um heilsu - líkamlega sem andlega. Líkamlegur bati kom fyrr. Ingólfur varð ásýndum sem áður og öðlaðist fyrri reisn meðan andleg skemmd hélst og herjaði. Smám saman rofaði þó svo til að fyrir rösku ári virtist hann hafa endurheimt minni sitt - en ekki mátti hann ástunda neitt sem reyndi á heilastarfsemi né aka bifreið.

Flestir töldu heilsu hans góða fyrir rúmu ári þegar annað heilablóðfall lamaði hann skamma hríð - en hið þriðja varð að næturlagi fyrir röskri viku og Ingólfur lést á sjúkrahúsi að morgni laugardags 26. febrúar.

Ingólfur S. Ingólfsson var meðalmaður á hæð, þéttvaxinn og sterklegur, bjartleitur og fríður sýnum. Hann var hæglátur í fasi, hæverskur og kurteis, fremur alvörugefinn, vinsæll og hafði góða nærveru.

Blessuð veri minning hans.

Jón Böðvarsson.

Elsku afi minn, það eru ekki margir sem fá annað tækifæri til þess að lifa, en það fékkst þú, og fyrir það erum við öll ákaflega þakklát. Ég mun sakna þín ósköp mikið, ég á eftir að sakna þess að þú segðir mér sögur frá því að þú varst lítill, þó að það hafi alltaf verið sömu sögurnar aftur og aftur þá gladdi það mig hvað það gladdi þig að rifja þær upp. Ég á líka eftir að sakna þess hvað þér þótti vænt um allt og alla og að þú reyndir virkilega að fylgjast með því sem var að gerast í lífi barna þinna og líka hvað við barnabörnin höfðum fyrir stafni.

Guð blessi minningu þína, afi minn.

Laufey Haraldsdóttir.

Ingólfur S. Ingólfsson, fyrrverandi formaður Vélstjórafélags Íslands, er fallinn frá aðeins 77 ára gamall. Ingólfur var formaður félagsins frá 1970 til 1983, er hann lét af störfum sökum heilsubrests. Hann var einnig forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands eitt kjörtímabil.

Á þeim árum sem Ingólfur var í forystusveit sjómanna voru mikil umbrot á íslenskum vinnumarkaði, verðbólgan virtist ósigrandi, sem leiddi til endalausra víxlhækkana verðlags og kaupgjalds. Á þessum árum voru kjarasamningar launafólks gerðir til skamms tíma og yfirleitt með svokölluðum rauðum strikum til þess að reyna eins og kostur var að tryggja kaupmátt launanna. Ingólfur var í forsvari fyrir kjarasamningum vélstjóra á meðan hann var formaður félagins. Hann lét mikið að sér kveða í kjaramálum sjómanna sem og annarra launþega. Lífeyrismál almennt voru honum sérlega hugleikin. Hann var fremstur í hópi þeirra, sem börðust fyrir því að sjómenn, sem höfðu að baki 25 ára sjómennsku og náð höfðu 60 ára aldri, gætu þá þegar hafið töku lífeyris, sem nægði til eðlilegrar framfærslu.

Á starfstíma sínum gegndi Ingólfur fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir hönd launþega, en mörg þeirra lutu að hagsmunabaráttu sjómanna. Alkunna er, að fiskverðið á hverjum tíma ræður mestu um kjör sjómanna á fiskiskipum. Ingólfur var fulltrúi sjómanna í verðlagsráði sjávarútvegsins og sat þar bæði í yfir- og undirnefnd; verðlagsráðið ákvarðaði verð á einstökum tegundum upp úr sjó. Um hver áramót voru yfirleitt mikil átök í ráðinu þar sem tekist var á um kjör sjómanna. Átökum lyktaði yfirleitt með verulegri hækkun fiskverðs eða svipaðri og orðið hafði á kjörum launafólks á sama tímabili. Á tímum ófyrirsjáanlegra breytinga frá degi til dags var erfitt að vera í fremstu víglínu þeirra, sem höfðu það hlutverk að tryggja sjómönnum og öðrum launþegum viðunandi kjör. Þetta tókst Ingólfi afburða vel. Hann var afar minnugur og fljótur að setja sig inn í mál og öðlast á þeim heildstæðan skilning. Hann var sérlega vel máli farinn, talaði góða íslensku og gat talað og skýrt út hin flóknustu mál án þess að hafa við höndina skrifaðan texta eða sérstök minnisatriði og án þess að fipast eða endurtaka sig. Sannast sagna var það hrein unun að hlusta á Ingólf tala fyrir málum, hvort sem það voru kjarasamningar eða önnur hagsmunamál, sem hann vildi fá afgreidd á viðkomandi fundi. Á slíkum stundum naut Ingólfur sín mjög vel vegna yfirburða þekkingar á málaflokknum og sinna einstöku hæfileika til að koma efninu frá sér á skýran og lifandi hátt með orðfæri sem greyptist inn í hugarheim þeirra sem á hlýddu hverju sinni.

Nú er Ingólfur horfinn yfir móðuna miklu. Við sem eftir stöndum handan hennar þökkum honum störf hans í þágu launafólks um leið og við óskum honum góðrar heimkomu. Við vottum eftirlifandi eiginkonu, börnum og barnabörnum okkar dýpstu samúð.

F.h. stjórnar Vélstjórafélags Íslands,

Helgi Laxdal.