Eins og góðum gestgjafa sæmir fór Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra með listamennina Sjón og Hauk Tómasson í skoðunarferð út á svalir hins sögufræga Ráðherrabústaðar við Tjarnargötu.
Eins og góðum gestgjafa sæmir fór Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra með listamennina Sjón og Hauk Tómasson í skoðunarferð út á svalir hins sögufræga Ráðherrabústaðar við Tjarnargötu. — Morgunblaðið/Þorkell
ÞORGERÐUR Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hélt samsæti í Ráðherrabústaðnum í gær til heiðurs þeim Sjón og Hauki Tómassyni, sem báðir eru nýbúnir að fá verðlaun Norðurlandaráðs.

ÞORGERÐUR Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hélt samsæti í Ráðherrabústaðnum í gær til heiðurs þeim Sjón og Hauki Tómassyni, sem báðir eru nýbúnir að fá verðlaun Norðurlandaráðs. Sjón hlaut þau fyrir bókina Skugga-Baldur en Haukur fyrir óperuna Fjórði söngur Guðrúnar.

"Þetta var bara móttaka fyrir vini og fjölskyldu og kollega okkar í stéttinni, afskaplega látlaust og skemmtilegt fyrst og fremst og lögð áhersla á að maður væri manns gaman," sagði Sjón. Aðspurður sagðist hann hafa hlustað á óperu Hauks Tómassonar og fundist hún stórkostleg. "Ég hef mikið álit á Hauki þannig að ég varð mjög ánægður með, og þykir vænt um, að við skyldum vera þarna saman," sagði hann.

Haukur skemmti sér ekki síður vel. "Það var afskaplega skemmtilegt fyrir mig að fá að hitta rithöfunda, marga á einu bretti. Þarna var líka tónlistarfólk sem ég þekki og hitti auðvitað oftar," sagði Haukur. Sjón hafði heyrt óperuna og því lá beint við að spyrja hvort Haukur hefði lesið bókina. Kvað hann já við því. "Ég las hana fyrir þó nokkru og fannst hún mjög skemmtileg," sagði hann.

Þess má geta að eiginkona Sjóns, Ásgerður Júníusdóttir, mun syngja eitt hlutverkanna þegar óperan verður flutt á tónleikum í bænum Båstad í Svíþjóð í sumar. Um það var þó ekki samið í gær heldur var það löngu ákveðið.