ALLS bárust um 140 tillögur víðs vegar að úr heiminum í alþjóðlega hugmyndasamkeppni verkefnisins "Akureyri í öndvegi" um skipulag miðbæjarins en verkefnið er samstarfsvettvangur öflugra fyrirtækja sem vilja efla miðbæ Akureyrar sem miðstöð...

ALLS bárust um 140 tillögur víðs vegar að úr heiminum í alþjóðlega hugmyndasamkeppni verkefnisins "Akureyri í öndvegi" um skipulag miðbæjarins en verkefnið er samstarfsvettvangur öflugra fyrirtækja sem vilja efla miðbæ Akureyrar sem miðstöð menningar, viðskipta og mannlífs á Norðurlandi. Þetta er mun meiri þátttaka en búist var við og á sér enga hliðstæðu hér á landi í keppni af þessu tagi. Endanlegur fjöldi mun liggja fyrir á næstu dögum.

Ragnar Sverrisson, talsmaður "Akureyrar í öndvegi", var að vonum ánægður með þessa miklu þátttöku. "Ég hafði strax í upphafi mikla trú á þessu verkefni og átti von á að það bærust í kringum þrjátíu tillögur í keppnina. Þegar á leið var ég farinn að finna fyrir það miklum áhuga að ég var farinn að gæla við að tillögurnar yrðu fjörutíu. En að þær skuli vera 140 er nokkuð sem menn skilja ekki."

Ragnar sagði að það hefði skipt miklu máli varðandi þessa miklu þátttöku hversu margir Akureyringar tóku þátt í íbúaþinginu sl. haust. "Það tóku 10% bæjarbúa þátt í íbúaþinginu og það vakti mikla athygli meðal arkitekta víða um heim." Ráðgjafarfyrirtækið Alta hefur annast undirbúning keppninnar, þar á meðal samráðsfundi, ritstjórn keppnislýsingar og miðlun gagna á vefnum.

Ragnar sagði að hlutur starfsfólksins hjá Alta væri gríðarlega stór og að það hefði skilað hreint frábæru starfi. "Það var okkar stóra lán að Alta kom að málum strax á fyrstu vikum," sagði Ragnar.

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, er formaður dómnefndar og hann sagði ljóst að mikið starf biði nefndarmanna. Hann hefði þó ekki neinar áhyggjur, þar sem með honum í nefndinni væri öndvegisfólk með mikla þekkingu, eins og hann orðaði það. "Þessi mikla þátttaka er mjög ánægjuleg og hún er mun meiri en hefur verið í svona samkeppnum. Allur undirbúningur hefur verið góður og í ljósi þess er skiljanlegt að þátttakan sé þetta mikil. Menn hljóta því að binda vonir við að út úr þessu komi athyglisverðar og skemmtilegar tillögur," sagði Kristján Þór.

Dómnefndin mun hefja störf um aðra helgi og hefur einn mánuð til að fara yfir tillögurnar. Úrslitin verða tilkynnt 14. apríl en verðlaunaafhendingin fer fram viku síðar, á sumardaginn fyrsta. Í kjölfarð verður haldin sýning á öllum tillögunum sem bárust í keppnina. Að sögn Ragnars er verið að leita að nógu stóru húsi í bænum undir sýninguna.

Keppnin hófst í nóvember sl. eftir umfangsmikla vinnu við skilgreiningu á forsendum keppninnar í samráði við hagsmunaaðila og bæjarbúa. Ber þar hæst fjölmennasta íbúaþing sem haldið hefur verið á Íslandi en þaðan komu margar hugmyndir bæjarbúa sem þátttakendur í samkeppninni gátu kynnt sér.

Keppnin er að ýmsu leyti með nýstárlegu sniði, bæði vegna hins umfangsmikla samráðs við undirbúning hennar og ennfremur vegna þess hvernig veraldarvefurinn var hagnýttur sem aðalupplýsingamiðill. Þannig var þátttaka um víða veröld mun auðveldari og ódýrari en áður enda hafa aldrei borist fleiri tillögur í samkeppni af þessu tagi á Íslandi. Að sögn Ragnars voru heimsóknir á vefsíðuna alls um 180.000 á síðustu mánuðum. Keppnin er haldin í samstarfi við Arkitektafélag Íslands og beinist einkum að fagfólki á sviði byggingarlistar og skipulags þótt þátttaka hafi verið öllum opin.

Auk bæjarstjórans á Akureyri eiga sæti í dómnefndinni: Árni Ólafsson arkitekt, Hlín Sverrisdóttir, skipulagsfræðingur og landslagsarkitekt, Pétur H. Ármannsson arkitekt og Þorvaldur Þorsteinsson, forseti Bandalags íslenskra listamanna.