Félagarnir Dave Poston, með verðlaunagrip í hendi, og Þorsteinn Högni Gunnarsson í pontu á verðlaunahátíðinni í London.
Félagarnir Dave Poston, með verðlaunagrip í hendi, og Þorsteinn Högni Gunnarsson í pontu á verðlaunahátíðinni í London.
ÍSLENDINGARNIR Róbert Viðar Bjarnason og Þorsteinn Högni Gunnarsson voru í hópi frá Ideaworks3D, sem hreppti BAFTA-leikjaverðlaunin á þriðjudagskvöldið.

ÍSLENDINGARNIR Róbert Viðar Bjarnason og Þorsteinn Högni Gunnarsson voru í hópi frá Ideaworks3D, sem hreppti BAFTA-leikjaverðlaunin á þriðjudagskvöldið. Verðlaunin eru fyrir framleiðslu leiksins Colin McRae Rally 2005, útgefinn af Nokia og Codemasters á síðasta ári. Þau voru í flokknum besti lófatölvuleikurinn (Best Handheld Game) en í fyrra vann Ideaworks3D til sömu verðlauna fyrir leikinn Tony Hawk's Pro Skater í flokknum besti farsímaleikurinn (Best Mobile Game).

Verðlaunin eru nýlegt afsprengi "evrópska Óskarsins" í kvikmyndaheiminum og eru almennt talin virtustu verðlaun sinnar tegundar í leikjabransanum í Evrópu.

Róbert leiðir tæknihóp fyrirtækisins og Þorsteinn Högni leiddi framleiðslu leiksins en hann er jafnframt markaðsstjóri og stjórnarmaður Ideaworks3D. Vegur Íslendinga fer vaxandi hjá fyrirtækinu en nýlega gekk Hlynur Johnsen forritari til liðs við hópinn og að auki er yfirmaður rannsóknar og þróunardeildar Vestur-Íslendingur að nafni Brian Pearson.

Hafa fengið fleiri verðlaun

Þorsteinn Högni upplýsir að samkeppnin hafi verið gríðarlega hörð og það hafi komið mörgum á óvart að leikurinn skyldi hafa betur á móti stærstu framleiðendum tölvuleikja á borð við Electronic Arts, Nintendo, LucasArts og Ubisoft.

Fyrirtækið hefur jafnframt verið sigursælt á fleiri verðlaunahátíðum. "Þessi verðlaun koma í kjölfar fjölda verðlauna sem hafa fallið okkur í skaut síðastliðið ár en þeirra á meðal eru þrenn Mobies-verðlaun í Bandaríkjunum, Best N-Gage Game 2004 hjá Gamespot.com, og Best Mobile Game hjá Mobil Magasin í Svíþjóð," segir Þorsteinn Högni, sem er að vonum ánægður með þennan góða árangur.

Fjöldi starfsmanna hefur vaxið verulega síðastliðið ár en nú starfa hjá Ideaworks3D í London 47 manns, og vinna nú að nokkrum stórverkefnum fyrir leikjaframleiðendur á borð við Nokia, Electronic Arts og JAMDAT Mobile.

Engin tilviljun

Róbert, tæknistjóri Ideaworks3D, er búinn að vinna hjá fyrirtækinu í tæp þrjú ár. "Þetta var nálægt því að vera hálfsárs verkefni. Það komu að þessu á milli tíu og fimmtán manns en þó mismunandi mikið," segir hann um verðlaunaleikinn.

Hann segir verðlaunin hafa heilmikil áhrif. "Áhrifin eru mjög mikil. BAFTA-verðlaunin eru vel þekkt í Evrópu. Núna erum við búin að vinna tvö ár í röð. Það sýnir líka að það var engin tilviljun að við fengum þessi verðlaun í fyrsta skiptið. Þetta er heilmikil viðurkenning og eykur veg okkar í þessum iðnaði. Það verður gaman að sjá hvað kemur útúr þessu," segir hann.

Helsti sigurvegarinn á BAFTA-leikjaverðlaunahátíðinni í ár var Half-Life 2, sem fékk sex verðlaun, þar á meðal fyrir besta leikinn og besta netleikinn.

Stjórnarmaður verðlaunahátíðarinnar, Grant Dean, sagði á hátíðinni í London á þriðjudag að þetta hefði verið gott ár fyrir gagnvirka skemmtanaiðnaðinn. "Verðlaunin endurspegla gífurlegan árangur, framfarir og fjölbreytni á þessu tímabili," sagði hann.

ingarun@mbl.is

Höf.: ingarun@mbl.is