José Mujica, þingforseti og fyrrverandi leiðtogi tupamaro-skæruliða, faðmar Tabaré Vázquez að sér eftir að sá síðarnefndi hafði svarið embættiseið forseta Úrúgvæ á þriðjudag. Athöfnin var afar tilfinningaþrungin.
José Mujica, þingforseti og fyrrverandi leiðtogi tupamaro-skæruliða, faðmar Tabaré Vázquez að sér eftir að sá síðarnefndi hafði svarið embættiseið forseta Úrúgvæ á þriðjudag. Athöfnin var afar tilfinningaþrungin. — Reuters
Fréttaskýring | Tabaré Vázquez sór á þriðjudag embættiseið forseta Úrúgvæ og batt þar með enda á tæplega 180 ára valdatíð íhaldsmanna. Ásgeir Sverrisson segir frá forsetanum og þessum sögulegu umskiptum í stjórnmálum landsins.

ÖNNUR eins hátíðahöld hafa ekki sést í landinu. Fyrir liggur enda að algjör umskipti hafa orðið í stjórnmálum Úrúgvæ, sem lengstum hefur staðið einna best ríkja Suður-Ameríku í efnahagslegu tilliti. Á þriðjudag fögnuðu landsmenn ákaft er sósíalistinn Tabaré Vázquez sór embættiseið forseta fyrstur vinstrimanna; rúmlega 170 ára einokun íhaldsmanna á forsetaembættinu hafði verið rofin.

Fagnaðarlætin í höfuðborginni, Montevideo, þar sem um helmingur landsmanna býr, ætluðu engan enda að taka. Innsetningarathöfnin þótti einnig sérlega tilfinningaþrungin og áhrifamikil og trúlega náði hún hámarki er José Mujica, forseti þingsins, lét forsetann nýkjörna hafa eftir sér eiðstafinn. Mujica er fyrrverandi leiðtogi tupamaro-skæruliða sem risu upp gegn stjórnvöldum á sjöunda áratugnum. Sjálfur eyddi Mujica tíu árum innan fangelsismúra eftir valdarán hersins í Úrúgvæ árið 1973. "Ég þakka lífinu fyrir að hafa gefið mér þetta tækifæri," sagði Mujica er forsetinn hafði svarið eiðinn.

Vázquez var kjörinn forseti 31. október í fyrra en tók fyrst við embættinu á þriðjudag. Vázquez var frambjóðandi kosningabandalags stjórnarandstæðinga er nefnist "Alianza del Frente Amplio" eða "Bandalag breiðfylkingarinnar". Vázquez hlaut 50,45% greiddra atkvæða. Helsti keppinautur hans var Jorge Larrañaga, frambjóðandi Nacional-flokksins. Hann fékk 34,06% atkvæðanna.

"Sviss Rómönsku-Ameríku"

Vázquez tekur við embættinu af Jorge Batlle sem var kjörinn forseti árið 1999 og er leiðtogi Colorado-flokksins. Batlle mátti ekki bjóða sig fram á ný samkvæmt stjórnarskrá landsins en hefði ekki átt neinn möguleika á sigri. Í forsetatíð hans riðu gríðarlegir erfiðleikar yfir Úrúgvæ. Atvinnuleysið mældist 12,1% á síðasta fjórðungi liðins árs og hafði þá ástandið raunar heldur skánað. Um þriðjungur þjóðarinnar dregur fram lífið undir skilgreindum fátæktarmörkum. Erlendar skuldir eru miklar og gjaldmiðill landsmanna nánast verðlaus.

Úrúgvæ hefur hins vegar í gegnum tíðina verið það land Suður-Ameríku þar sem efnahagur hefur staðið með einna mestum blóma. Landið var á árum áður oft nefnt "Sviss Rómönsku-Ameríku" en efnahagserfiðleikar í nágrannalöndunum, ekki síst Argentínu, hafa komið hart niður á landsmönnum. Landflótti hefur verið umtalsverður á síðustu árum. Í Úrúgvæ búa 3,4 milljónir manna.

Sigur Vázquez og embættistaka eru að sönnu sögulegir viðburðir. Allt frá því að Úrúgvæ fékk sjálfstæði frá Spáni árið 1825 hefur forsetaembættið verið í höndum Colorado- og Nacional-flokkanna sem báðir teljast íhaldssamir.

Vázquez er 65 ára gamall. Hann er læknir að mennt og var áður borgarstjóri Montevideo. Hann bauð sig fram í forsetakosningunum 1994 og 1999. Faðir hans tók þátt í baráttu verkafólks og bróðir hans var hnepptur í fangelsi er herstjórnin var við völd í landinu frá 1973 til 1985. Hann hafði tekið þátt í starfsemi borgarskæruliða sem börðust gegn herforingjastjórninni.

Áhersla á sættir og samstarf

Í ræðu sinni við embættistökuna lagði Vázquez áherslu á að hann hygðist beita sér fyrir því að upplýst yrðu mannréttindabrot sem herforingjastjórnin gerðist sek um. Með þessu móti vonaðist hann til þess að "friðurinn taki sér bólfestu í hjörtum íbúa Úrúgvæ".

Líkt og hann hafði sagt eftir sigurinn í október kvaðst forsetinn vonast eftir samstarfi við öll stjórnmálaöfl í landinu til þess að unnt reyndist að koma á nauðsynlegum breytingum. Vinstrimenn unnu einnig sigur í þingkosningunum, sem fram fóru samhliða forsetakjörinu, og hafa hreinan meirihluta á þingi. Þeir þurfa því ekki, ef litið er til atkvæðamagns, að leita eftir stuðningi annarra flokka við áform sín en orð forsetans voru hins vegar afdráttarlaus í þá veru að sú yrði raunin.

Vázquez lýsti yfir því að rétturinn til "næringar, heilsu og menntunar" myndi framvegis ná til allrar þjóðarinnar "alla daga ársins". Með því móti gætu íbúar Úrúgvæ "endurheimt getu sína til að láta sig dreyma og láta drauma sína verða að veruleika". Hét hann því að Úrúgvæ yrði á ný land "þar sem það að fæðast er ekki vandamál, þar sem það að vera ungur felur ekki í sér að liggja sífellt undir grun og þar sem það að eldast jafngildir því ekki að vera dæmdur".

Í ræðu sinni leitaðist forsetinn einnig við að sefa ótta sumra á fjármálamarkaði sem látið hafa í ljós áhyggjur af því að valdataka sósíalista muni geta af sér vaxandi tilhneigingu til hafta og jafnvel þjóðnýtingar. Sagði Vázquez að stjórn sín myndi standa við allar skuldbindingar fyrri valdhafa og ætti það einnig við um greiðslu erlendra skulda. Almennt er talið að hann fylgi lítt breyttri efnahagsstefnu en leggi aukna áherslu á glímuna við fátæktina og atvinnuleysið.

Fidel Castro Kúbuleiðtogi gat ekki verið viðstaddur embættistökuna af heilsufarsástæðum en eitt fyrsta embættisverk Vázquez var að taka upp á ný stjórnmálasamskipti við Kúbu. Þeim sleit forveri hans, Jorge Batlle, fyrir þremur árum eftir að Castro hafði vænt hann um "svik".

Eftir ræðuna í þinghúsinu steig Vázquez upp í Ford-T-bifreið frá árinu 1921 sem flutti hann til forsetahallarinnar eða "Sjálfstæðishallarinnar" eins og hún raunar nefnist ("Palacio Independencia"). Leiðin er aðeins um 1.500 metrar en það tók forsetann tæpan klukkutíma að komast þangað sökum gríðarlegs fjölda fólks sem fagnaði honum innilega á götunum.

Staðfestir mikla sókn vinstrimanna í Suður-Ameríku

Vinstrimenn hafa löngum átt erfitt uppdráttar í suður-amerískum stjórnmálum. En á síðustu árum hefur breyting orðið þar á. Vinstrimaðurinn Luiz Inacio Lula da Silva var kjörinn forseti Brasilíu 2002. Néstor Kirchner fylgdi í kjölfar hans í Argentínu ári síðar. Árið 1998 vann Hugo Chávez forsetakosningarnar í Venesúela. Árið 2000 var Ricardo Lagos kjörinn forseti Chile og 2003 hreppti Lucio Gutiérrez það embætti í Ecuador. Nú hefur Tabaré Vázquez bæst í þennan flokk.

asv@mbl.is