Michael Schumacher mætir sigurreifur til leiks í ár.
Michael Schumacher mætir sigurreifur til leiks í ár. — Reuters
MICHAEL Schumacher býst við miklu harðari keppni í Formúlu-1 í ár en í fyrra er hann vann 13 mót af 18 og hampaði þar með heimsmeistaratitli ökuþóra í sjöunda sinni.

MICHAEL Schumacher býst við miklu harðari keppni í Formúlu-1 í ár en í fyrra er hann vann 13 mót af 18 og hampaði þar með heimsmeistaratitli ökuþóra í sjöunda sinni. Hann segir "titilþorsta" sinn jafn mikinn og fyrr og allt eins geti farið svo að hann verði enn í keppni fertugur, en hann er 36 ára og elstur núverandi ökuþóra.

Jafn hungraður og áður

"Ég er viss um að komandi vertíð verður miklu erfiðari en í fyrra. Við gerðum ekki ráð fyrir því að njóta slíkra yfirburða í fyrra og þau mistök sem önnur lið gerðu þá verða örugglega ekki endurtekin nú. Það hefur kostað mikið erfiði að skapa Ferrari þá stöðu sem liðið hefur verið í en við viljum helst vera áfram á þeim stalli. Og ég held við séum færir um það," sagði Schumacher í viðtali við breska blaðið Sunday Times sl. sunnudag.

"Ég er jafn kappsfullur og nokkru sinni áður. Ef ég teldi mig ekki geta ekið til sigurs þá væri ég ekki hér. Það er á hreinu, ég vil vinna titilinn í ár," sagði Schumacher er Ferrari afhjúpaði 2005-bíl sinn fyrir viku.

Schumacher telur að það muni há Ferrari framan af að geta ekki notað nýja bílinn; liðið teflir fram umbreyttum bíl frá í fyrra í fyrstu mótunum þar sem 2005-bíllinn verður ekki tilbúinn til keppni fyrr en með vorinu.

Hann býst við mun meiri keppni frá liðum á borð við McLaren og Renault í ár en í fyrra og útilokar heldur ekki harða keppni frá Williams og BAR þótt bílar þeirra tveggja síðasttöldu hafi ekki reynst eins öflugir við tilraunaakstur í vetur og bílar McLaren og Renault.

Þar sem ökuþór má aðeins nota eitt sett af dekkjum undir bíl sinn í tímatökum og kappakstri hefur Ross Brawn tæknistjóri Ferrari lagt að Schumacher að breyta um aksturstækni fyrir komandi vertíð. Ella sé hætta á að honum farnist ekki eins vel og félaga hans Rubens Barrichello sem fari mun betur með dekkin undir sínum bíl en Schumacher.

Heimsmeistarinn er að hefja sína 15. keppnistíð í Formúlu-1 og mun freista þess að framlengja lengstu sigurgöngu sögunnar. Hefur hann unnið titil ökuþóra fimm ár í röð og Ferrari bílsmiðatitilinn sex ár í röð. Hann vann m.a. sjö mót í röð í fyrra og hefur alls 83 mótssigra undir belti. Til samanburðar hefur næst sigursælasti ökuþórinn meðal núverandi keppenda, David Coulthard, unnið 13 mót.

Um dagana hefur Schumacher sett fjölda meta sem seint verða slegin. Einu meti gæti hann bætt í sarpinn í ár en það er fjöldi ráspóla. Ayrton Senna vann 63 slíka en til að jafna það þarf Schumacher að komast tvisvar í viðbót á pólinn.

Og þar sem öldungurinn á rásmarkinu segist allt eins geta verið í keppni næstu ár er spurning hvort hann slái þátttökumet Riccardo Patrese sem keppti 256 sinnum í Formúlu-1. Schumacher hefur 212 mót að baki. Og svo er það spurningin hvort hann vinnur 100 mót?