Anthony Glover, leikmaður Keflavíkur, sækir að Nemanja Sovic, varnarmanni Fjölnis, í Grafarvogi í gær.
Anthony Glover, leikmaður Keflavíkur, sækir að Nemanja Sovic, varnarmanni Fjölnis, í Grafarvogi í gær. — Morgunblaðið/Þorkell
DEILDARMEISTARAR Keflavíkur lögðu nýliða Fjölnis í síðustu umferð úrvalsdeildar karla, Intersportdeildinni í körfuknattleik, í gærkvöldi. Líf og fjör var í Dalhúsum í Grafarvogi þar sem leikar fóru 107:113 fyrir Keflavík.

DEILDARMEISTARAR Keflavíkur lögðu nýliða Fjölnis í síðustu umferð úrvalsdeildar karla, Intersportdeildinni í körfuknattleik, í gærkvöldi. Líf og fjör var í Dalhúsum í Grafarvogi þar sem leikar fóru 107:113 fyrir Keflavík. Leikurinn skipti í raun engu máli þar sem bæði lið voru með trygga stöðu, Keflavík í fyrsta sæti og Fjölnir í því fjórða.

Búast hefði mátt við að allt yrði sett í botn strax á upphafsmínútunum en þess í stað fóru leikmenn sér hægt. Annar dómarinn, Karl Friðriksson, sá einnig um að stöðva leikinn í tíma og ótíma með því að dæma villur sem voru algjörlega út í hött. Það er ekki á hverjum degi sem annar dómarinn dæmir vel en hinn er algjörlega úti á þekju. Hann lagaðist þó verulega er á leið leikinn. Vonandi íþróttarinnar vegna að fyrri hálfleikurinn í gær hafi verið sá slakasti hjá honum.

Það var virkilega gaman að fylgjast með leiknum, sérstaklega baráttu þeirra Nemanja Sovic hjá Fjölni og Nick Bradford hjá Keflavík. Þeir áttu að gæta hvor annars í fyrri hálfleik og réð eiginlega hvorugur við hinn. Uppskeran í fyrri hálfleik var að Bradford gerði 28 stig en Sovic 24. Keflvíkingar beittu mikið svæðisvörn og pressu eftir skoraða körfu. Þetta gekk ágætlega hjá þeim á köflum en Fjölnismönnum tókst vel að leysa þetta þess á milli. Allt var í járnum og jafnt á með liðunum allan leikinn í rauninni, munurinn aldrei mikill en Keflvíkingar náðu þó einu sinni tíu stiga forystu um miðjan annan leikhluta, en Fjölni tókst að laga það og munurinn var eitt stig fyrir Keflavík í leikhléi.

Þróun mála var sú sama í þriðja leikhluta en í þeim fjórða byrjuðu Fjölnismenn betur og gerðu 9 stig gegn tveimur og staðan orðin 94:88. Þetta líkaði Magnúsi Gunnarssyni ekki og tók til sinna ráða, skoraði ótrúlegar þriggja stiga körfur og kom Keflavík í 100:106 þegar skammt var til leiksloka.

Að venju voru þeir Sovic og Jeb Ivey atkvæðamiklir í liði Fjölnis og nýi erlendi leikmaðurinn, William Coley, virðist falla ágætlega að leik liðsins. Magnús Pálsson átti fína spretti sem og Brynjar Kristófersson og Pálmar Ragnarsson. Guðni Valentínusson stóð sig vel þann stutta tíma sem hann lék og hefði að ósekju mátt leika meira. Þá stóð Helgi Þorláksson sig ágætlega þegar hann var inni á.

Hjá Keflavík var Bradford gríðarlega sterkur. Glover átti ágætan dag og áður er getið framgangs Magnúsar. Þá er rétt að geta Gunnars Einarssonar sem átti fínan kafla í upphafi síðari hálfleiks.

"Okkar tími mun koma"

Leikur Borgnesinga og Ísfirðinga í Íþróttahúsinu í Borgarnesi lauk eins og búist var við með öruggum sigri heimamanna, 101:82. Leikurinn var í nokkru jafnvægi framan af og virtist vera eins og Borgnesingar vanmætu leikgleði og vilja Ísfirðinga sem þó voru löngu fallnir í 1. deild með sæmd.

Undir lokin fengu leikmenn með litla leikreynslu að spreyta sig og kláruðu þeir leikinn með sóma. Til dæmis bætti Skallagrímsmaðurinn Heiðar Lind sjö stigum í safnið hjá sér, hafði tvö fyrir í úrvalsdeildinni. Joshua Helm spilaði allar 40 mínúturnar án hvíldar. Hann skoraði af harðfylgi 38 stig, flestar undir körfunni og óhætt er að segja að leikur gestanna byggðist mikið á honum. Liðsstjóri Ísfirðinga fullyrti að Joshua Helm væri besti erlendi leikmaður deildarinnar, sem aldrei spyr um stigafjölda né fjölda frákasta heldur leggur sig 100% fram frá upphafi til loka leiks og lætur ekkert trufla sig í því.

"Okkar tími mun koma," sagði Guðjón Þorsteinsson liðstjóri þeirra.

Skúli Unnar Sveinsson skrifar

Höf.: Skúli Unnar Sveinsson