MANCHESTER United hefur ákveðið að leggja niður kvennalið sitt í knattspyrnu í lok þessa tímabils og hætta rekstri kvennaliða frá 17 ára aldri.

MANCHESTER United hefur ákveðið að leggja niður kvennalið sitt í knattspyrnu í lok þessa tímabils og hætta rekstri kvennaliða frá 17 ára aldri. Ákvörðun félagsins hefur fallið í grýttan jarðveg hjá forráðamönnum kvennaknattspyrnunnar í Englandi en hún hefur vaxið mjög undanfarin ár og í sumar er úrslitakeppni EM einmitt haldin í Manchester og nágrenni.

"Þetta eru okkur mikil vonbrigði. Stóru atvinnufélögin geta hjálpað kvennaknattspyrnunni mikið með því að vera með kvennaliðin undir sínum hatti og það er mikið áfall þegar stórt félag á borð við Manchester United sér sér ekki lengur fært að gera það," sagði Ray Kiddell, varaformaður enska knattspyrnusambandsins.

Manchester United hefur rekið kvennalið í fjögur ár en hyggst framvegis aðeins sjá um knattspyrnu fyrir stúlkur upp að 16 ára aldri, í samvinnu við Manchesterborg. "Við teljum að okkar áherslur í kvennaknattspyrnu falli best að barna- og unglingastarfi og ætlum að einbeita okkur að þeirri uppbyggingu en sleppa því að vera með eldri flokka," sagði Philip Townsend, talsmaður Manchester United.

Bæði Arsenal og Chelsea leggja áherslu á sín kvennalið. Arsenal hefur verið mjög sigursælt í kvennaknattspyrnunni um árabil og berst við Charlton um enska meistaratitilinn í vetur. Chelsea er á leið upp í úrvalsdeildina með mjög sterkt lið, Everton er í toppbaráttu úrvalsdeildarinar og í undanúrslitum bikarsins, og Leeds, Liverpool, Birmingham og Fulham eru öll með lið í úrvalsdeild kvenna.