Grindavík landaði áttunda sæti úrvalsdeildar karla í gærkvöldi þrátt fyrir að hafa tapað á heimavelli gegn KR í lokaumferð Intersportdeildarinnar, 90:88, en á sama tíma lagði Njarðvík lið Hauka, 91:89, og sátu Haukar eftir með sárt ennið og eru þeir...

Grindavík landaði áttunda sæti úrvalsdeildar karla í gærkvöldi þrátt fyrir að hafa tapað á heimavelli gegn KR í lokaumferð Intersportdeildarinnar, 90:88, en á sama tíma lagði Njarðvík lið Hauka, 91:89, og sátu Haukar eftir með sárt ennið og eru þeir komnir í sumarfrí. Grindavík mætir Íslandsmeistaraliði Keflavíkur í átta liða úrslitum en KR leikur gegn Snæfællsmönnum úr Stykkishólmi.

Það var mikið í húfi í Grindavík í gær er KR sótti Grindvíkinga heim í lokaumferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik. Með sigri gátu liðin tryggt sér sæti í átta liða úrslitum en tapliðið varð að treysta á hagstæð úrslit úr viðureign Njarðvíkinga og Hauka. Það fór svo að KR sigraði með tveggja stiga mun, 90:88, en úrslit leiksins skiptu ekki höfuðmáli þegar upp var staðið þar sem Haukar töpuðu naumlega gegn Njarðvík.

Grindavík byrjaði mun betur í leiknum og náði átta stiga forskoti og KR-ingar áttu í erfiðleikum með að skora sín fyrstu stig en Reykjavíkurliðið komst í 16:10 um miðjan fyrsta leikhluta en liðin skiptust á um að hafa yfirhöndina á þessum kafla leiksins.

Áhorfendur gátu glaðst yfir tilburðum leikmanna að þessu sinni enda léku bæði liðin fínan körfubolta en staðan í hálfleik var 47:47.

Upphafskafli síðari hálfleiks var jafn og spennandi og en var jafnt á með liðunum er fjórði og síðasti leikhlutinn hófst, 69:69.

KR-ingar náðu forskoti í fjórða leikhluta og er 12 sekúndur voru eftir var staðan 90:88, KR í vil og tók Einar Einarsson þjálfari Grindavíkur leikhlé. Einar setti upp leikaðferð sem endaði með því að Helgi Jónas Guðfinnsson tók síðasta skot leiksins en skot hans dansaði á körfuhringnum. KR-ingar fögnuðu mikið í leikslok enda ljóst að liðið hafði tryggt sér sæti í átta liða úrslitum. Grindvíkingar þurftu að bíða eftir úrslitum úr leik Njarðvíkinga og Hauka.

Bestir í liði KR voru þeir Cameron Echols og Brynjar Björnsson. Hjá heimamönnum voru þeir Darrel Lewis og Jeffrey Boschee bestir.

"Þetta var fínn leikur hjá báðum liðum. Ég er mjög sáttur við leik minna manna en ósáttur við úrslitin. Nú er það úrslitakeppnin og það er ný keppni. Þar ætlum við að standa okkur enda búinn að vera fínn stígandi í okkar leik," sagði Einar Einarsson, þjálfari Grindavíkur.

Sumarfrí hjá Haukum

Njarðvík sigraði lið Hauka í jöfnum og spennandi leik í lokaumferð Intersportdeildarinnar í körfuknattleik, 91:89. Leikurinn var jafn nær allan tímann en Njarðvíkingar lönduðu sigri eftir körfu frá Páli Kristinssyni þegar fimm sekúndur voru eftir.

Leikurinn fór hratt af stað og voru heimamenn í Njarðvík skrefinu framar á upphafskaflanum en fyrr um daginn var tilkynnt að búið væri að segja upp samningum við þá Anthony Lackey og Matt Sayman og léku þeir ekki með liðinu.

Ólafur A. Ingvason átti í miklum vandræðum með að gæta Demetric Shaw og virtist hann geta skorað að vild í upphafi leiks. Leikurinn var mjög jafn og skiptust liðin á að hafa forystuna en munurinn var þó aldrei meiri en sex stig. Friðrik Stefánsson reyndist leikmönnum Hauka mjög erfiður inni í teignum þar sem hann var drjúgur í fráköstum og í sókninni. Leikmenn Hauka voru mjög sprækir með Demetric Shaw sem stjórnanda á leikvellinum, hann mataði samherja sína á góðum sendingum ásamt því að spila mjög fína vörn gegn Njarðvíkingum. Í

seinni hálfleik skiptu Njarðvíkingar yfir í svæðisvörn og opnaðist mikið fyrir skot fyrir utan þriggja stiga línuna, þar sem Kristinn Jónasson var iðinn við kolann og skoraði fimm slíkar í leiknum í sex tilraunum. Þegar 20 sekúndur voru eftir af leiknum og Haukar í sókn í stöðunni 89:89 áttu þeir misheppnað skot og Brenton Birmingham náði frákastinu og gaf sendingu á Guðmund Jónsson. Hann hljóp upp völlinn með knöttinn og gaf á Pál Kristinsson sem var óvaldaður undir körfunni - lagði hann boltann ofan í og var brotið á honum einnig. Hann brenndi af í vítaskotinu og náðu Haukar aldrei skoti að körfunni áður en leiktíminn rann út og fögnuðu Njarðvíkingar sigri, 91:89.

Bestu menn vallarins voru þeir Brenton Birmingham, Páll Kristinsson og Friðrik Stefánsson en hjá Haukum Demetric Shaw og Kristinn Jónasson.

Góður sigur

"Þetta var góður sigur, sérstaklega eftir það sem gengið hefur á hjá okkur undanfarinn sólarhring í leikmannamálum. En þetta vonandi hleypir meira líf í okkur og ég var ánægður með hvernig leikmennirnir allir leystu sín hlutverk bæði í sókn og vörn," sagði Einar Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, í leikslok. En von er á tveimur bandarískum leikmönnum í herbúðir Njarðvíkinga á allra næstu dögum.

Garðar Vignisson skrifar