Þorsteinn Þorsteinsson fæddist á Geiteyjarströnd í Mývatnssveit 3. desember 1923. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 23. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Þorsteinn Þorsteinsson bóndi á Geiteyjarströnd, f. 10. desember 1899, d. 14. nóvember 1959, og Indíana Jónsdóttir, f. 18. nóvember 1903, d 18. september 1962. Systkini Þorsteins eru: Ingunn Emma ljósmóðir, f. 2. febrúar 1926, Jón Elliði verslunarmaður, f. 3. ágúst 1928, d. 2. maí 2003, og Gunnar vélstjóri, f. 16. febrúar 1937.

Sonur Þorsteins og Lilju Guðrúnar Eiríksdóttur, f. 29. ágúst 1926, er Hafsteinn Ómar stýrimaður, f. 3. febrúar 1948, kvæntur Soffíu Jónsdóttur, f. 27. október 1946. Dætur þeirra eru Bjarney Oddrún, f. 13. janúar 1975, og Lilja Vilborg, f. 18. október 1981. Börn Soffíu frá fyrra hjónabandi eru Jórunn Kristín Fjeldsted, f. 16. ágúst 1966, og Lárus Fjeldsted, f. 18. september 1967.

Þorsteinn kvæntist 24. desember 1955 Margréti Þórhallsdóttur ljósmóður, f. 1. apríl 1925. Foreldrar hennar voru Þórhallur Guðmundsson, f. 9. feb. 1900, d. 30. júní 1987, og Marta Guðmundsdóttir, f. 27. júlí 1901, d. 13. maí 1987.

Þorsteinn lauk námi frá Héraðsskólanum á Laugum 1942. Hann starfaði sem bifreiðastjóri, sjómaður og stjórnandi þungavinnuvéla þar til hann tók við starfi verkstjóra hjá Heklu, einni af verksmiðjum Sambandsins á Akureyri, árið 1963. Þorsteinn var einn af stofnendum Ármanna, landsfélags um þjóðlega náttúruvernd og stangveiði með flugu.

Útför Þorsteins verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Þorsteinn Þorsteinsson var mér kær og hann var mér meira en frændi, hann var vinur og lærimeistari minn í veiðiskap og náttúruvísindum veiðimannsins. Ég var barnungur þegar hann hóf veiðikennsluna í stofunni heima hjá sér í Gránufélagsgötunni á Akureyri. Veiðarfærið var málbandið hennar Margrétar og eftir góðan afladag sofnaði ég undir veiðisögunni hans og svefninn náði ávallt yfirhöndinni áður en við komum að ánni. Þegar ég öðlaðist örlítið meira vit og fór að spyrja um lok sögunnar, svaraði hann á þá leið að við ættum eftir að upplifa endinn saman. Sem við gerðum oftar en ég man.

Steini frændi var góður kennari. Kennslustundirnar voru flestar á bökkum Laxár í Mývatnssveit þar sem hann laumaði að mér upplýsingum og sögum, en leyfði stráknum líka að rasa út og gera sínar eigin uppgötvanir. Nú þykja þetta merkilegar kennslu- og uppeldisaðferðir og eru notaðar víða um heim.

Samtölin við Steina á árbakkanum, í bátnum á miðju Mývatni á fallegum sumarkvöldum eða bústaðnum áður en við gengum til náða voru bæði fjörleg, skemmtileg og fróðleg. Umræðuefnið var gjarnan veiði en hann kunni þá list að nálgast viðfangsefnið á margvíslegan hátt, bæði með húmor og heimspekilegum vangaveltum.

Nú þegar komið er að kveðjustund er mér ofarlega í minni kvöldstund sem við áttum á Mývatni við veiðar, við tveir og himbriminn. Himnafaðirinn sá okkur fyrir stórkostlegum leiktjöldum þetta kvöld. Veðrið var eins fallegt og það getur orðið við Mývatn. Vatnið var spegilslétt, skýin loguðu í geislum kvöldsólarinnar og silungurinn sýndi sig um allt vatn. Þetta var ein af þessum stundum okkar þar sem orð voru óþörf. Áður en við gengum til náða þetta kvöld ræddi Steini um almættið, sköpunarverkið og mikilvægi þess að geta notið náttúrunnar og lifað með henni. Þetta kvöld fyrir rúmlega 30 árum ræddi hann líka um trúarbrögð, dauðann og það sem við tekur. Hann sagði himnaríkismynd indíána þá fallegustu sem hann þekkti, því það væri nú ekki ónýtt að fara áhyggjulaus yfir á hinar eilífu veiðilendur. Síðan bætti hann því við að það væri einungis eitt himnaríki og hann kviði því ekki að fara þangað, því þar væri bæði fallegt og góð veiði.

Nú er hann farinn, saddur lífdaga og ég veit að hann á ekki í vandræðum með að finna sína Hofstaðaey á nýja staðnum og þar bíða sprækir urriðar eftir honum og Peter Ross flugunni.

Þorsteinn G. Gunnarsson.

Í dag verður Þorsteinn Þorsteinsson mágur okkar kvaddur og langar okkur til að minnast hans með fáeinum orðum. Þorsteinn lést eftir stutta en snarpa sjúkdómslegu að undangengnum erfiðum veikindum síðast liðið ár.

Hann gekk að eiga Margréti stóru systur okkar um jólin 1955 og stofnuðu þau heimili á Akureyri þar sem þau bjuggu alla tíð. Þorsteinn var höfðingi heim að sækja, hvort heldur var á einstaklega fallegu heimili þeirra hjóna á Akureyri eða í sumarbústaðnum í Mývatnssveit. Þorsteini þótti afskaplega vænt um Sveitina sína og var að vonum vel að sér um náttúru hennar og sögu. Var hann óþreytandi að miðla gestum sínum af þeim nægtabrunni og opnaði mörgum nýja sýn á þessa náttúruperlu. Ferð með Þorsteini á litla bátnum hans um Mývatn á lygnum sólríkum sumardegi gleymist aldrei þeim sem fengu að njóta. Voru þau hjónin afar samtaka um að láta gestum sínum líða vel og var vel við alla gert í mat og drykk.

Þorsteinn átti sér ýmis áhugamál og nægir að nefna lax og silungsveiðar, fluguhnýtingar og sígilda tónlist. Hafði hann sérstakt dálæti á góðum tenórum og naut þess að deila því hugðarefni sínu með þeim sem meta kunnu. Á sorgar- og gleðistundum hjá fjölskyldum okkar hér fyrir sunnan lét Þorsteinn sig ekki vanta og stóð hann þar styrkur við hlið Margrétar systur okkar. Viljum við þakka honum það, sem og þá virðingu sem hann sýndi foreldrum okkar lífs sem liðnum.

Við þökkum góða samfylgd.

Guðrún, Sigurður, Ragnar, Kristbjörg og Guðmunda

Þórhallsbörn.

Ég gekk hægt inn ganginn á lyfjadeildinni. Vissi að Steini hafði fyrr um daginn fengið þær fréttir að hann hefði greinst með langt genginn sjúkdóm sem enginn mannlegur máttur réði við. Opnaði varlega, gekk að rúminu, settist niður og sagði: "Sæll frændi, þetta er Gunnar Þór." Hann sneri sér að mér, hálf opnaði augun og sagði: "Það haustar að, frændi." Ég gekk í sömu gildru og oft áður, tók því bókstaflega, hélt jafnvel að slegið hefði út í fyrir frænda og minnti hann á að það væri janúar. Gleymdi því enn eina ferðina að Mývetningar fá ekki við það ráðið að fara í kringum hlutina en hitta um leið naglann á höfuðið.

Heimili Margrétar og Steina var ævintýraheimur. Í Gránufélagsgötunni var uppstoppaður fálki á hraunsteini sem sat fastur í einhverskonar frosnum sandi sem þó var ekki kaldur. Stór stytta af ísbirni að rota sel. Litaða ljósmyndin af fossi og manni sem gengur í átt að honum og alltaf vangaveltur um hvort þetta væri Steini. Vildi þó aldrei spyrja hvort þetta væri hann og vil ekki enn því dulúðin er sannleikanum skemmtilegri. Uppi á háalofti var annar heimur með veiðigræjum og byssum sem maður fékk að handleika undir eftirliti. Gervigæsir sem ég hélt að væru til að skjóta ef ekkert skemmtilegra byðist. Fram eftir hausti var alltaf von á krækiberjasaft hjá Margréti og svo komu jól með gyðingakökum, hálfmánum og rjúpnaboðinu. Ég varð að fá að hlusta á Dýrin í Hálsaskógi í hverri heimsókn.

Mývatnssveitin var fyrirheitna landið. Sumarbústaðurinn á Hesthúshóli var höll með fallegustu útsýn sem til er. Báturinn hét Nói, Nökkvi eða Vædderen eftir því hvar á hann var litið. Pabbi og Steini kenndu mér þá háalvarlegu list að veiða í net. Veiðin var stunduð af mikilli alvöru, það var ekki fyrr en ég var orðinn fullorðinn að ég áttaði mig á að við myndum sennilega ekki falla úr hor þó tómstundaveiðin brygðist eða netin færu ekki í vatnið sama kvöld og komið var í sveitina. Merkilegast þótti mér að fylgjast með hvernig systkinin, Steini, Emma, Jón og pabbi, breyttust þegar þau komu á æskustöðvarnar í Mývatnssveit. Göngulagið varð annað og allar hreyfingar, öndunin breyttist, andað inn um munninn og út um nefið á um 30% lengri tíma en innöndunin tók. Öll störf voru unnin í jöfnum takti sem virtist hægur en var það þó ekki. Skemmtilegast var að þvælast á vatninu með Steina. Þegar ekki var verið að huga að netum var farið á stöng, kennt um örnefni og veiðistaði, skroppið á land í eyjunum til að ná sér í sæta hvönn að borða. Steini sagði sögur frá æskuárunum í Mývatnssveit sem jöfnuðust á við Jack London-bækur. Þegar hann fór á skíðum yfir vatnið úr skólanum til að skoða pabba nýfæddan, þegar Jón hjó næstum að sér fótinn, þegar hann sjálfur lagðist út með alvæpni í Borgarlautina við 10 ára aldur. Ég trúði öllu.

Í nokkra vetur fórum við Steini saman í bíó og leikhús. Það var gott að hafa einhvern fullorðinn að fara með á bannaðar myndir þegar pabbi var á sjónum. Þegar ég var tíu ára sáum við t.d. Arnarborgina í bíó og Kristnihaldið í leikhúsi. Steini gat skýrt ýmislegt, eins og hvernig Clint Eastwood gat sparkað handsprengjunni til baka en fékk hóstakast þegar ég spurði hvað Jón Prímus hefði átt við þegar hann sagði að hann og dr. Godman Sýngmann hefðu verið kviðmágar. Seinustu árin voru Steina erfið með heilsuáföllum. Eftir að hann fékk lokadóminn var eins og honum létti. Hann undirbjó hinstu ferðina, lét klippa sig, sagðist vilja hafa útlitið með sér við hinsta dóm til vonar og vara. Tók með bæði gamni og alvöru við kveðjum til þeirra sem hann ef til vill mundi hitta handan við og svo fór hann. Tók með sér kveðju frá mér til hennar sem varð fyrir haustinu þegar vorið var rétt að byrja.

Gunnar Þór Gunnarsson.