Lágvöruverðsverslunin Kaskó veitir Bónus harða samkeppni samkvæmt verðkönnun sem Morgunblaðið gerði í gær í fjórum lágvöruverðsverslunum á höfuðborgarsvæðinu.

Lágvöruverðsverslunin Kaskó veitir Bónus harða samkeppni samkvæmt verðkönnun sem Morgunblaðið gerði í gær í fjórum lágvöruverðsverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Bónus var með lægsta verðið í 39 tilvikum af 43 en Krónan var oftast með hæsta verðið í könnuninni.

Auk fyrrnefndra verslana var verð kannað í Nettó. Upphaflega var farið í fimm verslanir en forráðamenn Spar verslunarinnar meinuðu blaðamanni að gera verðkönnun í versluninni.

Heildarverð í Bónus var 6.833 krónur, 7.219 krónur í Kaskó, 7.979 krónur í Nettó og í Krónunni kostaði karfan 8.481 krónu. Mikill verðmunur er á ýmsum matvörum milli verslana en mestur reyndist verðmunurinn á tveimur lítrum af vanillu mjúkís en þar nam munur á hæsta og lægsta verði 122%. Alls var 112% verðmunur á hæsta og lægsta verði á tveggja kílóa poka af gullauga kartöflum og 109% munur á hæsta og lægsta verði á appelsínum.

Mikill titringur var í verslunum þegar blaðamenn bar að garði og voru dæmi um að verið væri að breyta verði á meðan blaðamenn voru að skrifa það niður. Í nokkrum tilvikum var mælst til að blaðamenn breyttu hjá sér verði og lækkuðu það þegar komið var með nýjar verðmerkingar en ekki var orðið við þeim óskum.

Tíðar verðbreytingar

Sigurður Arnar Sigurðsson, forstjóri Kaupáss sem m.a. rekur Krónuverslanirnar, segir að staðan á markaðnum um þessar mundir sé þannig að verðbreytingar séu tíðar á hverjum degi, en að verðlækkanirnar hafi ekki allar verið komnar í framkvæmd hjá Krónunni þegar könnunin var gerð í gær. "Í þessu sambandi vísa ég til könnunar DV sem birtist í gær, 3. mars, þar sem fram kom að heildarkarfan var ódýrari í Krónunni en í Bónus. Einnig lítur út fyrir að okkar helsti samkeppnisaðili hafi lækkað verð á nokkrum vörutegundum rétt áður en könnunin var gerð og á meðan á henni stóð og hún gefi því alls ekki rétta mynd af stöðunni. Við hvetjum til frekari verðkannana."