YFIRMAÐUR færeysku sjóbjörgunarmiðstöðvarinnar, Djóni Weihe, hefur verið leystur tímabundið frá störfum á meðan rannsakað er hvers vegna færeysk björgunarþyrla var ekki send á vettvang um leið og neyðarkall frá Jökulfellinu barst, en skipið sökk 60...

YFIRMAÐUR færeysku sjóbjörgunarmiðstöðvarinnar, Djóni Weihe, hefur verið leystur tímabundið frá störfum á meðan rannsakað er hvers vegna færeysk björgunarþyrla var ekki send á vettvang um leið og neyðarkall frá Jökulfellinu barst, en skipið sökk 60 sjómílur norðaustur af Færeyjum hinn 7. febrúar sl. í aftaka veðri.

Norskir sérfræðingar munu rannsaka viðbrögðin

Bjørn Kalsøe, sjávarútvegsráðherra Færeyja, tilkynnti í gær að hann hefði náð samkomulagi um þetta við Weihe, og sögðu færeyskir fjölmiðlar frá því að norskir sérfræðingar verði fengnir til þess að framkvæma óháða rannsókn á viðbrögðum björgunarmiðstöðvarinnar þegar Jökulfellið sökk.

Eitt af því sem þeir eiga að meta er hvort þyrlan var kölluð of seint út, en rúmlega tvær klukkustundir liðu frá því neyðarkallið barst þar til ákveðið var að senda þyrlu á vettvang.

Sex menn fórust þegar Jökulfellið sökk, fjórir Eistlendingar og tveir Rússar.