BRÚÐARBANDIÐ heldur heimkomutónleika á Grand rokki í kvöld kl. 23, en sveitin átti góða ferð til Bandaríkjanna á dögunum þar sem túrað var um hið svo kallaða biblíubelti og rokkað af miklum krafti.

BRÚÐARBANDIÐ heldur heimkomutónleika á Grand rokki í kvöld kl. 23, en sveitin átti góða ferð til Bandaríkjanna á dögunum þar sem túrað var um hið svo kallaða biblíubelti og rokkað af miklum krafti. Að sögn liðsmanna Brúðarbandsins gekk ferðin afar vel og var alls staðar uppselt.

Brúðarbandið verður ekki eitt á ferð í kvöld, því hinir ávallt viðbúnu og hjálpsömu Skátar koma einnig fram en þeir eru nýkomnir frá Englandi þar sem þeir léku á tónleikum ásamt Reykjavík! og Jan Mayen. Skátar gengu nýlega frá útgáfusamningi við breska útgáfufyrirtækið moshi moshi sem gefur einnig út Hot Chip.

Þá mun sveitin Lirmill einnig spila, en hér er um að ræða fyrstu tónleika sveitarinnar.

Að lokum má nefna sérstakan gest Brúðarbandsins, Eric "Zero" Weissinger, frá Bandaríkjunum, en hann leikur með hljómsveitinni Zero to 60, sem Brúðarbandið kynntist í Ashville þegar þær léku þar í borg. Eric hefur komið víða við í tónlistinni, leikur á bassa með Zero to 60 en ferðast einnig um og spilar lög sín á gítar. Hann mun gera Ísland að viðkomustað sínum á heimleið sinni til BNA en hann hefur verið að ferðast um Evrópu upp á síðkastið með gítarinn sinn.

Eric kemur einnig fram í verslun 12 Tóna kl. 17 í dag og leikur nokkur lög.