Einbeittir kórfélagar sjást hér á æfingu en í kórnum eru að jafnaði um fjörutíu Íslendingar.
Einbeittir kórfélagar sjást hér á æfingu en í kórnum eru að jafnaði um fjörutíu Íslendingar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Já, gaggið eins og hænur, hrópar Kristinn og Tuula kinkar kolli við píanóið. Skipunin er ætluð Íslendingakórnum í Gautaborg. Steingerður Ólafsdóttir skellti sér á kóræfingu.

Kórfélagar í Íslendingakórnum í Gautaborg eiga ýmist að vera hoppandi glaðir eða lötrandi sorgmæddir yfir dauða hanans sem lagið Tuppen snýst um. Kristinn og Tuula Jóhannesson hafa mætt á hverju einasta mánudagskvöldi frá hausti fram á vor undanfarin fimmtán ár til að leiða Íslendingakórinn í Gautaborg áfram í söng og starfi og þetta mánudagskvöldið er engin undantekning. Kórfélagarnir, sem eru um fjörutíu að staðaldri, eru fólk á öllum aldri búsett í Gautaborg til lengri eða skemmri tíma. Í raun fleiri til lengri tíma, Íslendingar sem hafa átt heimili í Gautaborg í fleiri áratugi, líkt og kórstjórarnir sem hafa búið í Gautaborg frá árinu 1972.

Í kórnum eru a.m.k. þrjár kynslóðir og fjölskyldubönd eru nokkuð áberandi, þar eru mæðgur, systur og feðgin og markmiðin með þátttöku í kórnum geta verið mörg: Að syngja, vera í skemmtilegum félagsskap og halda íslenskunni við.

Konsertpíanisti í kaupbæti

"Það var hringt í mig á haustmánuðum árið 1989 og ég spurður hvort ég vildi stjórna nýstofnuðum Íslendingakór og ég held að þau hafi litið þannig á að þau fengju Tuulu í kaupbæti," segir Kristinn hlæjandi og lítur á konu sína, sem er útlærður píanóleikari og tónlistarkennari frá Tónlistarháskólanum í heimaborg sinni, Helsinki, og lætur ekki sitt eftir liggja þegar kemur að leiðsögn kórsins.

Hún hefur þó ekki starfað við tónlistarkennslu eða píanóleik fyrr en hún tók við Íslendingakórnum og um leið sem organisti fyrir íslenska söfnuðinn í Gautaborg. Tuula starfaði um langa hríð í stórri nótnaverslun í Gautaborg en starfar nú á skrifstofu verktakafyrirtækis. "Nei, ég sakna þess ekki að vinna líka við tónlistina á daginn," segir Tuula brosandi og segist fá tónlistarþörfinni fullnægt í kórstarfinu. Hún hefur útsett ófá lögin sem kórinn syngur og hlotið mikið lof fyrir frumlegar útsetningar eins og t.d. á því rammíslenska Á Sprengisandi. Kristinn kemur úr mikilli söngfjölskyldu í Svarfaðardal og hefur síðan verið viðloðandi kóra víðast hvar sem hann hefur komið og setið námskeið í kórstjórn. Hann lærði síðan söng hjá Einari Kristjánssyni óperusöngvara á námsárunum í Reykjavík.

"Ég ætlaði nú kannski að verða óperusöngvari," segir Kristinn sem nú er lektor í íslensku við Gautaborgarháskóla. "Ég er heppinn að hafa hagstæða vinnu, er að vinna við íslensku alla daga og það hefur haft frekar mikið að segja," segir Kristinn á sinni kjarngóðu svarfdælsku, sem ekkert hefur litast af sænskunni þrátt fyrir allt.

Samviskusamur kjarni

En kórstjórnin er líka mikið og tímafrekt starf. "Og það er alltaf spurning hvernig maður á að hátta kórstarfinu, hve mikið er félagsstarf og hve mikið er kórsöngur. En við höfum alltaf sett markið hátt og krafist mikils af kórnum. Það er ekki gaman til lengdar ef maður gerir engar kröfur og við erum nú orðin býsna ánægð með kórinn eftir þessi fimmtán ár," segir Kristinn. "Kjarninn í kórnum hefur verið sá sami, hann vinnur vel og það er mjög mikilvægt," segir Tuula.

Íslendingakórinn í Gautaborg hefur gefið út tvo geisladiska og farið í söngferðir um Norðurlöndin, m.a. til Íslands, og í vor er fyrirhuguð ferð til Álandseyja. Nú stendur einnig fyrir dyrum kóramót íslenskra kóra á Norðurlöndunum og London, sem haldið er annað hvert ár og verður nú haldið í Gautaborg aðra helgina í mars. Þar koma saman sex kórar og kórstjórar, alls yfir 150 manns, syngja sameiginleg lög, prófa að syngja undir stjórn mismunandi stjórnenda og skemmta sér að íslenskum sið.

Höf.: Steingerður Ólafsdóttir