Jose Mourinho
Jose Mourinho
SIR Bobby Robson, ein af goðsögnunum í enskri knattspyrnu, segir að Jose Mourinho, stjóri Chelsea, verði að læra að sýna meiri auðmýkt.

SIR Bobby Robson, ein af goðsögnunum í enskri knattspyrnu, segir að Jose Mourinho, stjóri Chelsea, verði að læra að sýna meiri auðmýkt. Robson er einn af lærifeðrum Mourinho en þegar Robson stýrði liði Barcelona fyrir nokkrum árum var Portúgalinn aðstoðarmaður hans.

"Honum hefur gengið allt í haginn en stundum þarf maður að sýna auðmýkt. Jose hefur á stuttum tíma haft mikil áhrif á ensku knattspyrnuna en hann verður að læra að tapa," segir Sir Bobby Robson um sinn gamla lærisvein.

Mourinho slapp með refsingu frá enska knattspyrnusambandinu en honum var vikið af varamannabekk Chelsea í úrslitaleik deildarbikarkeppninnar um síðustu helgi þegar hann þótti hafa ögrað stuðningsmönnum Liverpool. En hann sagði við fjölmiðla eftir leikinn að skilaboðin hefðu verið til þeirra en ekki stuðningsmanna Liverpool.

Þá var mikið upphlaup í Barcelona í síðustu viku eftir leik Chelsea og Börsunga í Meistaradeildinni en Mourinho sagði að Frank Rijkard, þjálfari Barcelona, hefði gert sér ferð inn í búningsklefa dómaranna í hálfleik og rætt við þá.