MAURICE Cheeks, fyrrum leikmanni Philadelphia 76'ers, var í gær sagt upp störfum sem þjálfara Portland Trailblazers í NBA-deildinni en liðið hefur tapað 7 af síðustu 9 leikjum sínum í deildinni.
MAURICE Cheeks, fyrrum leikmanni Philadelphia 76'ers, var í gær sagt upp störfum sem þjálfara Portland Trailblazers í NBA-deildinni en liðið hefur tapað 7 af síðustu 9 leikjum sínum í deildinni. Þrátt fyrir að Cheeks hafi verið gríðarlega vinsæll meðal leikmanna og stuðningsmanna liðsins tóku forsvarsmenn og eigendur þess þá ákvörðun að segja honum upp störfum enda fyrirséð að félaginu takist ekki að komast í úrslitakeppnina annað árið í röð eftir 22 ára samfellda veru í þeirri keppni. Portland hefur sigrað í 22 leikjum á leiktíðinni en tapað alls 33 leikjum. Kevin Pritchard tekur við sem þjálfari liðsins en hann gegndi stjórnunarstöðu hjá félaginu áður. "Þetta er sorgardagur fyrir mig þar sem ég elska þessa stráka sem eru í liðinu. Ég tek ábyrgðina á mig á gengi liðsins og ég hef ekki staðið mig eins vel og í fyrra með þetta lið," sagði Cheeks á blaðamannafundi eftir að tíðindin bárust af brotthvarfi hans frá félaginu. Cheeks hefur stjórnað Portland í fjögur ár og undir hans stjórn vann liðið 162 leiki en tapaði 139 leikjum.